09. október 2017

Kæruheimildir á sviði skattamála

Það er meginregla í stjórnsýslurétti að aðili máls geti kært stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana endurskoðaða nema annað leiði af lögum eða venju.


Af þessu leiðir að það er mikilvægt að skýrt sé gagnvart borgurunum hvaða leiðir þeim standa til boða innan stjórnsýslunnar að þessu leyti. Eitt af þeim sviðum stjórnsýslunnar þar sem reynir á þessi úrræði borgaranna eru skatta- og tollamál en þar geta ákvarðanir stjórnvalda t.d. oft varðað verulega fjárhagslega hagsmuni  þeirra.
Umboðsmanni Alþingis hafa undanfarið borist kvartanir og ábendingar þar sem reynt hefur á þá afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna fram kominni beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sæti hvorki kæru til ráðuneytisins né til yfirskattanefndar. Fyrr á þessu ári hafði umboðsmaður í áliti sínu vegna máls nr. 9174/2017 fjallað um þá afstöðu ráðuneytisins að ekki væri unnt að kæra úrskurði ríkisskattstjóra um skattlega heimilisfesti og skattskyldu innan stjórnkerfisins þar sem unnt væri að skjóta slíkum úrskuðum til dómstóla.  Meðal annars vegna þessara mála ákvað umboðsmaður að taka kæruheimildir á sviði skattamála til nánari athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar sinnar í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sbr. 11. gr. sömu laga. Athugunin laut að því hvort þarna væri um að ræða meinbugi á lögum og framkvæmd þessara mála að þessu leyti af hálfu stjórnvalda. 
Umboðsmaður taldi af þessu tilefni mikilvægt að fá svör fjármála- og efnahagsráðuneytisins við tilteknum spurningum, einkum í ljósi þess að leiðum til endurskoðunar innan stjórnsýslunnar er ætlað að tryggja réttaröryggi borgaranna og stuðla að því að ákvarðanir sem stjórnvöld taka um hagsmuni þeirra verði réttar og lögum samkvæmar. Af hálfu ráðuneytisins kom fram að með vísan til sjónarmiða og spurninga umboðsmanns og nýlegs álits hans í máli nr. 9174/2017 vilji það upplýsa um að ráðuneytið fyrirhugi að leggja fram frumvarp á haustþingi 2017 þar sem lagðar verði til breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, þannig að úrskurðir ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti verði kæranlegir til yfirskattanefndar. Þá muni ráðuneytið setja á laggirnar sérstakan starfshóp sem gert verði að taka til skoðunar kæruheimildir gjaldenda samkvæmt 2. og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 með hagsmuni borgaranna að leiðarljósi. Í ljósi þessara viðbragða ráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að halda athugun sinni á málinu áfram en tók fram að hann myndi fylgjast með fyrirhuguðum áformum þess.
Málinu var lokið 4. október sl. og má hér sjá bréf umboðsmanns Alþingis til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.