16. febrúar 2018

Upplýsingamiðlun – Frumkvæðiseftirlit/OPCAT

Umboðsmaður Alþingis mun á næstunni ráða í tvö störf.

• Upplýsingavinnsla og -miðlun.
Leitað er að starfsmanni til að sinna reifunum, samantektum, fréttaskrifum og vinnslu á efni í gagnagrunn, á heimasíðu og í skýrslur úr úrlausnum og öðrum viðfangsefnum umboðsmanns. Viðkomandi þarf að hafa menntun og reynslu sem nýtist í starfinu. Þekking á opinberri stjórnsýslu og stjórnsýslurétti er kostur. Gerð er krafa um góða kunnáttu í íslensku og ensku og gott vald á ritun texta á íslensku.

• Frumkvæðis- og OPCAT-eftirlit.
Leitað er að starfsmanni til að vinna við frumkvæðiseftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og sérstakt  OPCAT-eftirlit vegna samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum o.fl., sem beinist að stofnunum og heimilum þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja. Sjá nánar frétt á heimasíðu: Umboðsmaður tekur við OPCAT-eftirliti. Starfið felst m.a. í undirbúningi og framkvæmd athugana á vettvangi og skýrslugerð. Leitað er að einstaklingi með háskólamenntun og starfsreynslu sem nýtist í starfinu. Æskilegt er að viðkomandi hafi menntun á sviði félags- eða heilbrigðisvísinda. Gerð er krafa um góða kunnáttu í ensku og einu Norðurlandamáli og gott vald á ritun texta á íslensku.

Í báðum tilvikum er leitað að einstaklingum sem hafa til að bera frumkvæði, ríka þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum. Áhugasamir sem uppfylla ofangreindar hæfnikröfur eru hvattir til að senda inn umsókn. Um starfskjör fer eftir kjarasamningi og nánara samkomulagi.

Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun, starfsferil og önnur atriði skal senda á netfangið postur@umb.althingi.is eða á skrifstofu umboðsmanns Alþingis, Þórshamri, Templarasundi 5, 101 Reykjavík, merkt: Starfsumsókn. Þess er óskað að í umsóknum verði gerð grein fyrir um hvort starfið er sótt og þekkingu og reynslu umsækjanda í samræmi við það sem fram kemur um hvort starf og að staðfesting um slíkt nám fylgi. Umsóknarfrestur er til og með 5. mars nk. Upplýsingar um störfin eru veittar hjá umboðsmanni Alþingis í síma 510 6700 og nánari upplýsingar um starf umboðsmanns Alþingis má sjá hér á vefsíðunni.