17. ágúst 2018

Meðferð mála ríkisstarfsmanna sem standa utan stéttarfélaga

Umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér álit sem endurspeglar mikilvægi þess að stjórnvöld hugi sérstaklega að stöðu þeirra ríkisstarfsmanna sem kjósa að standa utan stéttarfélaga og gæti þess að leggja slík mál í réttan lagalegan farveg.

Í málinu var deilt um rétt þess sem kvartaði til aðgangs að gögnum hjá Fjársýslu ríkisins. Þar hafði læknir óskað eftir gögnum í tengslum við frádrátt af launum hans vegna greiðslu gjalds til Læknafélags Íslands en hann hafði sagt sig úr félaginu.

Atvik þessa máls og málsmeðferð stjórnvalda varð umboðsmanni tilefni til að benda á og draga fram stöðu þeirra ríkisstarfsmanna sem kjósa að standa utan stéttarfélags og þær sérstöku reglur sem gilda um meðferð slíkra mála. Í þeim efnum benti hann á að almennt væri samið um laun og starfskjör opinberra starfsmanna í kjarasamningum og við ráðningu. Þegar opinber starfsmaður kysi aftur á móti að standa utan stéttarfélags, sem annars færi með samningsumboð fyrir hans hönd, gæti það leitt af lögum eða annarri skipan mála að stjórnvaldi væri falið að taka ákvörðun um kjör hans. Í slíkum tilvikum tækju stjórnvöld þannig einhliða ákvörðun að um laun og starfskjör viðkomandi færi eftir tilteknum kjarasamningi eða annarri viðmiðun. Niðurstaða stjórnvalds væri því ekki fengin með samkomulagi við starfsmanninn heldur væri um stjórnvaldsákvörðun að ræða sem hefði þýðingu við mat á því hvaða málsmeðferðarreglum bæri að fylgja við meðferð slíkra mála.

Umboðsmaður áréttaði mikilvægi þess að stjórnvöld gæti að því þegar í upphafi málsmeðferðar að leggja mál að þessu leyti í réttan lagalegan farveg. Ríkið þurfi sem atvinnurekandi og launagreiðandi að gæta þess að haga meðferð mála þeirra starfsmanna sem kjósi að standa utan stéttarfélaga þannig að réttur þeirra sé virtur og þá eins og hann hefur verið útfærður í lögum.