11. desember 2018

Neyðarhnappur fyrir sjúkratryggða íbúa í leiguíbúðum sveitarfélaga

Ekki má synja fólki um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna öryggiskallkerfis, á þeim forsendum einum að viðkomandi leigi íbúð af sveitarfélagi. Túlkun stjórnvalda þess efnis á reglugerð var ekki í samræmi við lög að áliti umboðsmanns.

Umboðsmaður tók málið til athugunar eftir að kvörtun barst frá einstaklingi sem leigði íbúð af sveitarfélagi og hafði verið synjað um greiðsluþátttöku vegna neyðarhnapps af hálfu sjúkratrygginga og sú ákvörðun staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála. Í málinu höfðu stjórnvöld túlkað umrædda reglugerð með þeim hætti að þeir sem byggju í íbúð á vegum sveitarfélaga gætu ekki fengið styrk til að kaupa neyðarhnapp, jafnvel þótt þar væri ekki veitt þjónusta eða önnur aðstoð sem kæmi í sama stað.

Umboðsmaður benti á að þeir sem byggju í slíku húsnæði væru að lögum almennt í sambærilegri stöðu og þeir sem héldu einkaheimili í öðrum leigu- og eignaríbúðum að því er varðaði það skilyrði laganna að hjálpartækið væri nauðsynlegt. Af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar leiddi að ef gera ætti mun á réttindum og skyldum fólks yrði það að byggjast á lögum og málefnalegum sjónarmiðum. Ekki yrði séð að slíkt hefði átt við í þessu tilfelli. Umboðsmaður taldi ekki fullnægjandi lagagrundvöll fyrir þeirri forsendu stjórnvalda að ráðherra væri heimilt í reglugerð að útiloka sjúkratryggða einstaklinga með þessum hætti alfarið frá greiðsluþátttöku vegna neyðarhnapps. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar hefði því ekki verið í samræmi við lög. Jafnframt taldi umboðsmaður að meinbugir væru á reglugerðarákvæðinu, að því marki sem kveðið væri á um að greiðsluþátttaka ætti ekki við um íbúðir á vegum sveitarfélaga óháð því hvort þær væru búnar tækni sem kæmi í stað neyðarhnapps eða íbúinn ætti kost á slíkri þjónustu af hálfu sveitarfélagsins.

Beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að taka málið til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá viðkomandi, og að meðferð þess yrði þá hagað í samræmi við álitið. Þá mæltist umboðsmaður til þess að ráðherra heilbrigðismála og sjúkratryggingastofnun tækju til endurskoðunar mál þeirra sem væru í sambærilegri stöðu. Ennfremur að umrædd stjórnvöld tækju framvegis í störfum sínum mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

 

Álit umboðsmanns í máli 9656/2018