13. desember 2018

Greiðslur til maka látins starfsmanns sveitarfélags ranglega skráðar á dánarbú

Stjórnvöld verða að skrá greiðslur á grundvelli kjarasamnings á viðtakanda þeirra, í samræmi við lög og reglur þar um. Á þetta reyndi í áliti umboðsmanns þar sem ábyrgðarmaður dánarbús, sonur hins látna, hafði kvartað yfir því að greiðslur til maka föður hans hefðu verið skráðar á dánarbúið.

Í málinu hafði sveitarfélag greitt konu sem það taldi maka þess látna, það sem kallað var „laun til maka látins starfsmanns“, á grundvelli kjarasamnings. Greiðslurnar voru skráðar á dánarbúið rúmum tveimur árum eftir að maðurinn lést og tæpu ári eftir að skiptum á búi hans lauk. Þá voru launaseðlar gefnir út vegna þeirra og stílaðir á þann látna sem skráður var í launaskrá, þrátt fyrir að greiðslan bærist til makans. Af þessu leiddi m.a. að ríkisskattstjóri áætlaði skatta á dánarbúið eftir skiptin, þótt það ætti ekki rétt á umræddum greiðslum.

Að áliti umboðsmanns bar, í samræmi við lög og reglur um staðgreiðslu opinberra gjalda, að skrá greiðslurnar á viðtakanda þeirra en ekki hinn látna. Ekki yrði heldur séð að það hafi verið í samræmi við lög um tekjuskatt að gefa út launamiða vegna greiðslnanna á nafn og kennitölu látins manns. Hvorki hann geti borið ábyrgð á greiðslu tekjutengdra skatta vegna þeirra né dánarbúið sem ekki hafi átt rétt á slíkum greiðslum.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til bæjarins að rétta hlut sonarins, hefði hann orðið fyrir tjóni vegna þessa fyrirkomulags, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum. Jafnframt að bærinn tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. Umboðsmaður ákvað einnig að senda Sambandi íslenskra sveitarfélaga álitið ef hliðstæð framkvæmd hefur verið viðhöfð af hálfu annarra sveitarfélaga.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9672/2018