22. janúar 2019

Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst

Umboðsmaður verður nokkuð var við það í starfsemi sinni að hnökrar séu á rannsókn stjórnsýslumála. Rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins er ein af þeim reglum sem hvað mest reynir á í störfum umboðsmanns.

Samkvæmt henni skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í því felst að stjórnvaldi ber að eigin frumkvæði að gæta þess að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægilega upplýst þannig að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Það hvað á að upplýsa ræðst m.a. af eðli málsins, þeim lagagrundvelli sem við á og eftir atvikum þeim forsendum og sjónarmiðum sem stjórnvald ákveður að leggja til grundvallar matskenndri ákvörðun. Markmiðið er að tryggja réttaröryggi borgaranna þannig að ákvarðanir í málum þeirra verði bæði lögmætar og réttar.

Á regluna reyndi t.d. í tveimur nýlegum álitum umboðsmanns þar sem hann taldi rannsókn mála svo ábótavant að viðkomandi stjórnvöld hefðu ekki haft forsendur til að leggja fullnægjandi mat á atvik í þeim. Annars vegar var um að ræða ákvörðun um synjun um endurhæfingarlífeyri og hins vegar synjun umsóknar um leyfi til að nota starfsheitið leikskólakennari. Í báðum þessum tilvikum mæltist umboðsmaður til þess að mál viðkomandi yrðu tekin til nýrrar meðferðar ef eftir því yrði leitað.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9398/2017

Álit umboðsmanns í máli nr. 9317/2017