08. mars 2019

Vistun fólks í sjálfsvígshættu í fangageymslum lögreglu 

Í ljósi svara dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra hefur umboðsmaður ákveðið að ljúka frumkvæðisathugun sinni á verklagi lögreglu þegar einstaklingar sem eru vistaðir í fangageymslum eru taldir í sjálfsvígshættu.

Þar kom m.a. fram sú afstaða að vista eigi viðkomandi á viðeigandi heilbrigðisstofnun en ekki í fangageymslum lögreglu. Vegna þeirra tilvika þegar það reynist hins vegar nauðsynlegt um stundarsakir sé ætlunin að samræma verklag allra lögregluembætta landsins.

Athugun umboðsmanns má rekja til þess að allt frá árinu 2013 hafa honum borist kvartanir og ábendingar um atvik þar sem fólk í þessari stöðu hefði verið fært úr fötum og látið dvelja klæðalítið eða klæðalaust í fangaklefa til þess að tryggja að það gæti ekki skaðað sig. Í þessum tilteknu tilvikum hefði ekki verið kallað eftir lækni eða annarri aðstoð.

Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá öllum lögregluumdæmum landsins um gildandi verklag þegar einstaklingur sem væri talinn í sjálfsvígshættu væri vistaður í fangaklefa. Hvergi höfðu verið settar sérstakar skriflegar verklagsreglur um hvernig bregðast skyldi við þegar svona háttar til.

Í ljósi aðstæðna var málið tekið til formlegrar athugunar. Umboðsmaður benti bæði ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra á að vistun klæðalauss einstaklings í fangaklefa kynni að fela í sér ómannlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi laga og alþjóðasamninga. Rakti umboðsmaður m.a. bann stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu við pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Minnti hann einnig á að með aðild sinni að samningi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins gegn pyndingum hefði íslenska ríkið skuldbundið sig til að hindra að slík meðferð viðgangist hér á landi.

Óskað var eftir afstöðu bæði ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra til þess hvort þörf væri á samræmdum reglum fyrir lögregluembættin til að tryggja að ekki væri beitt vanvirðandi meðferð við þessar aðstæður, auk þess að veitt yrði viðunandi heilbrigðisaðstoð. Ef svo væri, hvort til stæði að aðhafast af því tilefni og með hvaða hætti. Jafnframt var ríkissaksóknara veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Svör þeirra allra voru á sama veg. Byggja verði á þeirri grundvallarreglu að einstaklingar í sjálfsvígshættu séu vistaðir á viðeigandi heilbrigðisstofnun. Setja þurfi reglur og samræma verklag lögregluembættanna til að tryggja að vistun við þessar aðstæður samræmist lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Ráðuneytið muni leiða þá vinnu í samráði við embætti ríkislögreglustjóra og lögregluembættin.

Í ljósi þessa ákvað umboðsmaður að ljúka frumkvæðisathugun sinni. Hann mun þó fylgjast áfram með framvindu þessarar vinnu og hefur óskað eftir að ráðuneytið upplýsi hann um afraksturinn. Verði henni ekki lokið 1. september nk. þá verði honum gerð grein fyrir stöðunni á þeim tíma. Í ljósi aðkomu heilbrigðisyfirvalda að þessum málum var heilbrigðisráðuneytinu og embætti landlæknis sent afrit af bréfinu til upplýsingar.

Bréf umboðsmanns til ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra.