24. apríl 2019

Synjun á upplýsingum um uppflettingar í sjúkraskrá látins eiginmanns andstæð lögum

Upplýsingar um uppflettingar í sjúkraskrá teljast hluti af henni í skilningi laga um sjúkraskrár þegar reynir á aðgang aðstandenda látins einstaklings.

Á þetta reyndi í nýlegu áliti hjá umboðsmanni þar sem bæði Landspítali og landlæknir höfðu synjað ekkju um aðgang að upplýsingum um uppflettingar í sjúkraskrá látins eiginmanns hennar. Byggðist afstaðan á því að slíkar upplýsingar gætu ekki talist hluti af sjúkraskrá. Umboðsmaður benti á skýra þyrfti ákvæði laga um aðgang að sjúkraskrám til samræmis og það leiddi til þess að upplýsingar um þá sem aflað hafa upplýsinga úr sjúkraskrá teljist hluti af þeim upplýsingum sem beri að skrá og varðveita í þeirri sjúkraskrá sem aðgangsréttur sjúklings taki til. Leggja verði til grundvallar að réttur aðstandanda nái til sömu upplýsinga og aðgangsréttur sjúklingsins, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Benti umboðsmaður einnig á að væri málið virt heildstætt hefði verulega skort á að þau stjórnvöld sem komu að málinu hefðu afgreitt það í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga en beiðni um aðgang að gögnunum var til meðferðar í á fjórða ár hjá mismunandi stjórnvöldum.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til landlæknis að taka málið til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá ekkjunni, og haga þá úrlausninni í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Einnig að landlæknir og umsjónaraðilar sjúkraskráa hafi þau framvegis í huga í störfum sínum og að landlæknir leiðbeini þeim síðarnefndu í þessum efnum. Þá beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að gæta framvegis betur að yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverki þess í málum af sambærilegum toga.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9606/2018