12. júní 2019

Úthlutun tollkvóta og afturköllunarheimildir stjórnvalds

Stjórnvaldi ber að líta til allra þeirra heimilda sem það hefur til að endurskoða stjórnvaldsákvörðun, komi fram beiðni þess efnis frá hlutaðeigandi og leggja mat á hvort heimilt sé eða eftir atvikum skylt að endurupptaka málið eða afturkalla ákvörðunina. Í slíkum tilvikum er því almennt ekki nægjanlegt að líta til hinna sérstöku reglna sem gilda um viðkomandi ákvörðun heldur verður jafnframt að hafa almennar reglur stjórnsýsluréttarins í huga.

Á þetta reyndi í nýlegu áliti þar sem umboðsmaður tók til skoðunar kvörtun félags sem hafði óskað eftir því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið felldi niður tilboð þess í svokallaða WTO-tollkvóta á þeim forsendum að misritun hefði orðið í tilboðinu. Félagið hefði því greitt rúmlega þrefalt hærra verð en það hafi ætlað að bjóða og í reynd greitt hærra gjald en ef fullir tollar hefðu verið greiddir af vörunni. Ráðuneytið synjaði beiðninni sem og beiðni félagsins um endurupptöku málsins. Vísaði ráðuneytið m.a. til að fyrirtækið hefði fengið tiltekna tollkvóta á grundvelli laga og reglna sem um slíka úthlutun gilda og ekki væri heimilt samkvæmt þeim að fella tilboðið niður auk þess sem skilyrði endurupptöku hefðu ekki verið uppfyllt. Engar reglur gætu náð til tilviksins þannig að heimilt væri að verða við slíkri beiðni.

Umboðsmaður tók fram að úthlutun tollkvóta væri stjórnvaldsákvörðun um álagningu skatts. Þegar ráðuneytinu hefði borist beiðni félagsins hefði því borið að leysa úr málinu á grundvelli þeirra heimilda sem það hefði til að breyta ákvörðun eða fella hana úr gildi, s.s. á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga um endurupptöku máls eða afturköllun. Ekki yrði ráðið af gögnum málsins eða skýringum ráðuneytisins að það hefði fjallað um heimild til afturköllunar eða lagt mat á þau atriði sem hefðu getað haft þýðingu í þeim efnum.  Að áliti umboðsmanns leysti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið því ekki með fullnægjandi hætti úr erindinu. Það hefði gefið sérstakt tilefni til að teknar yrðu til skoðunar heimildir þess að afturkalla ákvörðunina samkvæmt VI. kafla stjórnsýslulaga, að teknu tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Mæltist umboðsmaður til þess að ráðuneytið tæki málið aftur til meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá hlutaðeigandi, og leysti þá úr því í samræmi þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Þá beindi hann því til ráðuneytisins að taka mið af þessum sjónarmiðum framvegis og við úrlausn sambærilegra mála.

Álit umboðsmanns í máli nr. 9819/2018