30. september 2019

Eftirlit með stjórnsýslu grunnskóla

Stjórnvöld verða að gæta að þeim skyldum sem á þeim hvíla lögum samkvæmt vegna starfsemi grunnskóla og leggja kvartanir vegna stjórnsýslu þeirra í réttan lagalegan farveg. Mikilvægt er að leyst sé greiðlega úr málum nemenda og þeir njóti þeirra réttinda og þjónustu sem lög og reglur kveða á um sem og að leyst sé úr málum þeirra í samræmi við réttar reglur um meðferð mála.

Umboðsmaður lauk nýlega máli er beindist að hlutverki mennta- og menningarmálaráðuneytisins við yfirstjórn og eftirlit þess með sveitarfélögum á grundvelli laga um grunnskóla. Var málið tilkomið vegna kvörtunar foreldris sem leitaði til umboðsmanns vegna stjórnsýslu grunnskóla en það hafði áður leitað til viðkomandi sveitarfélags vegna málsins og síðan ráðuneytisins í kjölfarið.

Umboðsmaður benti á að hin daglega framkvæmd og ákvarðanataka væri almennt í höndum sveitarfélaganna en ráðherra og ráðuneyti hans færi með yfirstjórn, tiltekin lögbundin verkefni og úrskurðarvald í ágreiningsmálum og hefði eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli skyldur sínar sem lög um grunnskóla, reglur og aðalnámskrá kveði á um. Í slíkum málum þyrfti líka að hafa í huga að vegna aldurs og oft viðkvæmrar stöðu grunnskólanemenda geti verið brýnt að greiða sem fyrst úr málum þeirra.

Málið varð umboðsmanni sérstakt tilefni til þess að draga fram að með nýjum grunnskólalögum frá árinu 2008 var að ýmsu leyti skerpt á því að ákveðnar réttaröryggisreglur í þágu borgaranna, svo sem reglur stjórnsýslulaga og um stjórnsýslukæru til ráðuneytisins, ættu við um tilteknar ákvarðanir sem teknar væru um málefni nemenda grunnskólanna.

Að áliti umboðsmanns voru viðbrögð mennta- og menningarmálaráðuneytisins í þessu tilviki ekki í samræmi við lögbundið eftirlit þess á grundvelli laga um grunnskóla. Skort hafi á að einstök atriði sem kvartað hafði verið yfir hefðu verið lögð í réttan lagalegan farveg, t.a.m. að teknar hefðu verið stjórnvaldsákvarðanir sem unnt hefði verið að kæra til ráðuneytisins líkt og lög kveði á um. Beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins að fara á ný yfir þær athugasemdir sem viðkomandi gerði við starfshætti grunnskólans og skóla- og frístundasviðs og haga úrlausn sinni í samræmi við þau sjónarmið sem lýst væri í álitinu. Jafnframt að taka framvegis mið af þeim. 

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 9944/2019

 

Tengt álit

Álit umboðsmanns í máli nr. 8749/2015