13. desember 2019

Falsað vegabréf felldi ekki ábyrgð á töfum á umsækjanda um alþjóðlega vernd

Lög um útlendinga mæla fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli taka til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því umsóknin barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Af þessu leiðir að líta þarf heildstætt á atvik í máli umsækjanda þegar metið er hvort hann beri ábyrgð á töfum málsins.

Á þetta reyndi nýlega í tengslum við kvörtun manns yfir meðferð stjórnvalda á umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi. Útlendingastofnun hafði synjað beiðni hans um að taka umsókn hans til efnismeðferðar sem kærunefnd útlendingamála hafði staðfest. Í kjölfar þess óskaði hann eftir endurupptöku málsins þar sem meira en 12 mánuðir hefðu liðið frá því hann umsókn hans var lögð fram. Nefndin hafnaði þeirri beiðni. Þar var einkum var byggt á því að með því að framvísa fölsuðu vegabréfi við komu til landsins hefði hann hrint af stað atburðarás með þeim afleiðingum að tafir urðu á málinu sem teldust á ábyrgð hans.

Umboðsmaður tók til skoðunar hvort það fengi staðist að byggja á því, eins og kærunefndin gerði, að með því að nota falsað vegabréf við komuna bæri hann sjálfur ábyrgð á að málið hefði tafist fram yfir 12 mánaða frestinn. Benti hann m.a. á að þegar hafi legið fyrir við komu hans 14. maí 2017 að hann hefði framvísað fölsuðu vegabréfi sem leiddi til handtöku hans og þar með vitneskju lögreglunnar um málið. Það leiddi af umræddu lagaákvæði að meta þyrfti heildstætt hvort tafir á afgreiðslu umsóknar viðkomandi um alþjóðlega vernd og þá hvort tafir væru á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Það eitt að hann hefði framvísað fölsuðu vegabréfi gæti ekki leitt til þess að hann teldist bera ábyrgð á töfum málsins. Þá hefði hann ekkert forræði haft á gangi málsins eftir að síðasti úrskurður sem kveðinn var upp vegna þess lá fyrir.

Í þessu máli hafi jafnframt legið fyrir að þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi hafist handa við að flytja manninn úr landi 5. janúar 2018 hafi hún fengið þær upplýsingar að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefði mál hans til meðferðar er varðaði framvísun falsaðs vegabréfs. Það virtist hafa leitt til þess að stoðdeildin aðhafðist ekkert að sinni eða gekk frekar eftir að fá niðurstöðu í málið. Ákæra hafi síðan verið gefin út 15. mars 2018 og maðurinn játað sök fyrir dómi 5. apríl sama ár. Þegar stoðdeildin spurðist síðan fyrir um hvort flytja mætti manninn úr landi fékkst vilyrði fyrir því frá lögreglunni á Suðurnesjum 16. maí, áður en dómur hafði gengið í málinu, og var hann fluttur á brott 23. maí 2018.

Umboðsmaður benti á að túlka yrði umrætt lagaákvæði með hliðsjón af því að samkvæmt lögum og við framkvæmd þessara mála gæti skipt máli að mörg stjórnvöld, sem mynda heildstætt kerfi og annast saman framkvæmd laganna hefðu aðkomu að því. Þá yrði m.a. að taka mið af raunveruleika þeirra einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd, þ.e. að þeir væru oft með ófullnægjandi skilríki. Var það álit umboðsmanns að rannsókn nefndarinnar á töfum málsins hefði ekki verið til þess fallin að upplýsa hvort og þá hvernig þeir sem áttu að framkvæma flutninginn hefðu hagað meðferð málsins. Þá benti hann m.a. á að í gögnum málsins hefðu legið fyrir skýringar frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum til talsmanns mannsins um að síðarnefndi hefði ekkert haft með tafir málsins að gera, sem nefndin hafi ekki talið ástæðu til að rannsaka nánar. Var það niðurstaða umboðsmanns að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst eða fram hafi farið það mat á aðstæðum mannsins sem lög gerðu ráð fyrir. Mæltist hann til þess að kærunefndin tæki málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá viðkomandi, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem raki væru í álitinu. Jafnframt að nefndin tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9722/2018