02. janúar 2020

Barnaverndarstofa breytir verklagi eftir fyrirspurn umboðsmanns

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns hefur Barnaverndarstofa breytt verklagi sínu á þann veg að framvegis verður þeim sem leita til stofunnar með athugasemdir ávallt tilkynnt um lok mála og eftir atvikum einnig um lyktir.

Í ágúst síðastliðnum óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá Barnaverndarstofu um hvaða almenna verklag gilti um upplýsingagjöf til þeirra sem kvarta til stofnunarinnar yfir því að barnaverndarnefndir fari ekki að lögum við rækslu starfa sinna. Sérstaklega var óskað eftir upplýsingum um verklag í þeim tilvikum þegar forsjárlausir foreldrar kvarta vegna meðferðar á málum barna þeirra eða eftir atvikum nánir aðstandendur.

Tilefni þessa var að í svari Barnaverndarstofu til umboðsmanns vegna kvörtunar sem honum barst, kom fram að þar sem hlutaðeigandi færi ekki með forsjá þeirra barna sem um ræddi, og niðurstaða Barnaverndarstofu hafi ekki lotið að þáttum málsins sem vörðuðu hann með beinum hætti, hafi hann ekki verið talinn aðili máls í skilningi barnaverndarlaga. Honum hafi því ekki verið sent afrit af bréfi stofnunarinnar til viðkomandi barnaverndar.

Í kjölfar þess að Barnaverndarstofa gerð grein fyrir verklagi sínu í þessum efnum var tekið fram í svari hennar að í framhaldi af fyrirspurnarbréfi umboðsmanns hefði hluti af verklagi stofunnar verið tekinn til endurskoðunar. Niðurstaðan sé að eðlilegt sé að tilkynna ávallt þeim sem til stofunnar leiti með athugasemdir þegar skoðun á máli hefur verið lokið og þá eftir atvikum einnig um niðurstöðu hennar.

Í ljósi þessara viðbragða taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka verkleg stofunnar að þessu leyti til formlegrar athugunar og lauk forathugun sinni.   

 

Skoða nánar