26. mars 2020

Stjórnvöld þurfa við ráðningar að fylgja lögbundnum kröfum um menntun

Í lögum og reglugerðum kunna að koma fram ákveðnar lágmarkskröfur um menntun og starfsréttindi þeirra sem ráða má í tiltekin opinber störf. Með slíkum ákvæðum hefur Alþingi eða ráðherra á grundvelli laga tekið afstöðu til þess að þeir einir megi gegna þessum störfum sem uppfylla ákveðin svonefnd almenn hæfisskilyrði.  Auglýsingar um viðkomandi störf, mat á umsækjendum og ákvörðun um ráðningu þarf því að taka mið af þessum almennu hæfisskilyrðum.

Á þetta reyndi í nýlegu áliti umboðsmanns Alþingis sem varðaði ráðningu í starf þar sem auglýst hafði verið eftir umsjónarmanni bókasafns í framhaldsskóla. Slík söfn falla undir bókasafnalög en þar segir að forstöðumaður bókasafns skuli, ef þess er kostur, hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði. Þá segir í reglugerð um starfslið framhaldsskóla, sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett á grundvelli laga um framhaldsskóla, að yfirmaður skólasafns skuli vera bókasafnsfræðingur. Umsækjandi, sem lokið hafði prófi í bókasafns- og upplýsingafræði, kvartaði og gerði athugasemdir við að sá sem ráðinn var hefði ekki lokið slíku prófi þegar ráðningin fór fram. Var það niðurstaða umboðsmanns að ákvörðun um ráðninguna hefði ekki verið í samræmi við lög þar sem skólinn hefði ekki tekið tillit til þeirra krafna um menntun til að gegna starfinu sem koma fram í lögum og reglum um slík störf.

Álit umboðsmanns í máli nr. 9971/2019