27. maí 2020

Starfsregla bótanefndar um umsóknarfrest þolenda afbrota útilokar mat

Synjun bótanefndar um bætur vegna kynferðisbrota, á þeim grundvelli að umsóknir hefðu borist of seint, byggði ekki á fullnægjandi lagagrundvelli að mati umboðsmanns. Þá verði ekki séð að lögreglan hafi uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína í málinu gagnvart brotaþolum.

Á þetta reyndi í tengslum við kvartanir þar sem bótanefndin hafði hafnað tveimur umsóknum um bætur úr ríkissjóði vegna kynferðisbrota sem brotaþolar urðu fyrir sem börn og Landsréttur hafði dæmt þeim af hálfu brotamanns. Brotin höfðu verið kærð mörgum árum eftir að þau áttu sér stað en umsókn send til bótanefndar innan við viku eftir að dómur Landsréttar lá fyrir. Byggðist synjun bótanefndar á því að umsóknirnar hefðu verið of seint fram komnar. Var þar vísað til þess að nefndin hefði fylgt því viðmiði að umsóknir skuli hafa borist innan tveggja ára frá því kæra er lögð fram.

Umboðsmaður benti á að lagaheimild væri til að víkja frá því skilyrði að umsókn þyrfti að hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot er framið, ef veigamikil rök mæli með. Samkvæmt lagaákvæðinu hvíli því skylda á bótanefnd til að meta aðstæður í hverju tilviki. Meðal annars með tilliti til þeirra markmiða sem búi að baki umræddu ákvæði. Því sé ætlað að styrkja réttarstöðu brotaþola og einkum hugsað með tilliti til þolenda kynferðisbrota á barnsaldri, þar sem slík brot séu oft kærð mörgum árum eftir að þau eru framin. Skilyrði nefndarinnar, um að umsóknir þurfi að berast innan tveggja ára frá því brot sé kært, hafi því ekki átt sér fullnægjandi stoð í lögum og reglum og niðurstaða nefndarinnar í málinu ekki verið í samræmi við lög.

Eftir að bótanefnd synjaði umsóknunum höfðu brotaþolar m.a. bent á að ekki hefðu verið veittar leiðbeiningar af hálfu lögreglu um rétt til að sækja um bætur, eins mælt væri fyrir um í lögunum. Bótanefnd hafði hafnað því að taka málið aftur til meðferðar og bent á að brotaþolar hefðu notið aðstoðar réttargæslumanns við meðferð dómsmálsins og haldlaust væri að bera fyrir sig að þeir hefðu orðið af þessum rétti vegna mistaka lögreglu við að leiðbeina þeim um bótaréttinn. Umboðsmaður benti á að leiðbeiningarskylda stjórnvalda félli ekki á brott þótt brotaþoli nyti liðsinnis réttargæslumanns. Lagði hann áherslu á að sérstök skylda hvíli á lögreglu að leiðbeina tjónþolum um slíkan rétt og ekki yrði séð af gögnum málsins að það hefði verið gert eða nefndin upplýst og metið hvaða áhrif það hefði haft á málið.

Mæltist umboðsmaður til að nefndin tæki málin til meðferðar á ný, kæmi fram beiðni þess efnis frá viðkomandi, og leysti þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

Í ljósi samræmingarhlutverks ríkislögreglustjóra vakti umboðsmaður athygli hans á málinu með það í huga að metið verði hvort tilefni sé til að taka almennt verklag lögreglu til skoðunar, og eftir atvikum samræma það, til að tryggja að leiðbeiningarskyldu hennar sé fullnægt í málum sem þessum, t.d. með afhendingu eyðublaða um bætur til bótanefndar.

 

Álit umboðsmanns í málum nr. 10037/2019 og 10038/2019