22. október 2020

Eftirlits- og úrskurðarhlutverk háskólaráðs HÍ verði skýrt

Umboðsmaður hefur komið þeirri ábendingu á framfæri við mennta- og menningarmálaráðherra að hugað verði að því að skýra betur í lögum eftirlits- og úrskurðarhlutverk há­skólaráðs Háskóla Íslands og setu rektors í háskólaráði með tilliti til hæfisreglna. Slíkt geti eftir atvikum átt við í störfum annarra opinberra háskóla.

Tilefnið er að á undanförnum árum hafa umboðsmanni af og til borist kvartanir og ábendingar þar sem uppi hafa verið álitaefni um hlutverk há­skólaráðs Háskóla Íslands og rektors skólans vegna einstakra ákvarðana og eftir atvikum samspil þar á milli.

Umboðsmaður benti á að í þessum málum hafi m.a. reynt á hvaða mál falli undir 5. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, þar sem segir að háskólaráð fari með úrskurðarvald í málefnum háskólans og fari með almennt eftirlit með starfsemi háskólans sem og beri ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög. Minnti hann á að stjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor en háskólaráði jafnframt falið að fara með „úrskurðarvald“ í málefnum skólans. Stjórnsýsla háskólans fari þó fram á einu stjórnsýslustigi og mál­skots­leiðir innan skólans feli því ekki í sér hefðbundnar kæru­heimildir milli tveggja aðgreindra stjórnvalda, lægra setts og æðra. Benti umboðsmaður á að í þeim málum sem hafi komið inn á borð hans hafi aðallega  reynt á í hvaða tilvikum ákvarðanir rektors geti komið til úrlausnar hjá háskólaráði á grundvelli úrskurðarvalds þess. Mikilvægt sé að skýra valdmörk og verkefni þessara stjórnenda betur í lögum, m.a. með tilliti til réttaröryggissjónarmiða og möguleika borgaranna á að leita endur­skoðunar á ákvörðunum innan háskóla.

Umboðsmaður benti á að hann hefði nýlega haft til athugunar kvörtun þar sem reyndi á hlutverk háskólaráðs og rektors í starfsmannamáli á vegum Háskóla Íslands. Þar hefði m.a. reynt á hæfi rektors til að fjalla, sem fulltrúi í háskólaráði á grundvelli úrskurðarvalds ráðsins, um mál þar sem rektor hafði tekið þá ákvörðun sem var tilefni umfjöllunar ráðsins. Umboðsmaður áréttaði í þessu sambandi að gleggri skil á milli hlutverks háskólaráðs og rektors hefði jafnframt þá þýðingu að skýra betur í hvaða tilvikum gæti reynt á hæfisreglur stjórnsýsluréttarins vegna þátttöku rektors í meðferð mála í háskólaráði, sem hann hefði áður tekið þátt í.

Benti umboðsmaður ráðherra á að huga að þeim atriðum sem nefnd væru í bréfinu og óskaði eftir að verða upplýstur eigi síðar en 1. desember 2020 um hvernig brugðist hefði verið við ábendingunum.

 

 

Bréf umboðsmanns til mennta- og menningarmálaráðherra í máli nr. 10290/2020