26. janúar 2021

Breytt verklag hjá lögreglu vegna fyrningar máls og svör við erindum

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum breytti verklagi sínu og styrkti rannsóknardeild eftir að mál fyrndist í meðförum embættisins. Ríkissaksóknari hafði fundið að málsmeðferðinni og umboðsmanni barst kvörtun vegna hennar.

Við meðferð setts umboðsmanns á kvörtuninni kom fram að ríkissaksóknari teldi ámælisvert að sök í málum fyrndist í meðförum lögreglu. Í bréfi lögreglustjórans til ríkissaksóknara var harmað að forgangsröðun mála hefði haft þessar afleiðingar. Gripið hefði verið til aðgerða til að koma í veg fyrir atvik sem þetta. Í ljósi athugasemda ríkissaksóknara og viðbragða lögreglustjórans taldi settur umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt málsins enda gætu tilmæli hans aðeins orðið þau að bæta verklag.

Auk annars, laut kvörtunin einnig að því að beiðni um fund sem beint var til ritara dómsmálaráðherra hefði ekki verið svarað. Settur umboðsmaður benti á að almennt ætti fólk ekki fortakslausan rétt á að velja sér við hvaða starfsmenn eða embættismenn, þ. á m. ráðherra, það hefði samskipti vegna sinna mála. Aftur á móti bæri stjórnvöldum að svara skriflegum erindum af þessum toga. Það fæli hins vegar ekki í sér að svara þyrfti efnislega öllu því sem óskað væri eftir heldur réðist réttur til þess af öðrum reglum stjórnsýsluréttar.

 

Lokabréf setts umboðsmanns í máli nr. 10818/2020