11. febrúar 2021

Meðferð á máli fatlaðs barns ekki í samræmi lög

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafði ekki forsendur til að fullyrða að akstursþjónusta sem sveitarfélag bauð fötluðu barni uppfyllti skilyrði laga og reglna um ferðaþjónustu fatlaðra.

Foreldrar barns á grunnskólaaldri leituðu til umboðsmanns og kvörtuðu yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var að þjónusta sveitarfélags væri í samræmi við lög og reglur. Foreldrarnir gerðu athugasemdir við þessa niðurstöðu og þá meðal annars að sveitarfélagið hefði gert þeim að annast akstursþjónustu barnsins sjálf gegn því að greiða kostnað þeirra við þjónustuna.

Settur umboðsmaður benti á að þótt sveitarfélagið héldi því fram að þetta væri eina færa leiðin í málinu, leysti það úrskurðarnefndina ekki undan því að kanna hvort þær forsendur sem sveitarfélagið byggði á stæðust. Þar þyrfti meðal annars að hafa í huga að þar sem barnið byggi við mikla fötlun og alvarleg veikindi væri þetta fyrirkomulag íþyngjandi fyrir foreldrana. Ekki yrði séð að úrskurðarnefndin hefði í samræmi við meðalhófsreglu kannað hvort aðrar leiðir hefðu verið færar til að veita barninu þjónustu.  

Niðurstaða setts umboðsmanns var að úrskurðarnefndin hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni um hvort þjónustan væri í samræmi við lög og reglur. Mæltist hann til þess að nefndin tæki mál barnsins til nýrrar meðferðar ef eftir því væri leitað.

   

   

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10054/2019