28. mars 2021

Ráðherra bar að taka afstöðu til fullyrðingar um að lagaákvæði bryti gegn stjórnarskrá

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu bar að rökstyðja betur úrskurð sinn í máli þar sem meðal annars var kvartað yfir að kröfur um endurmenntun atvinnubílstjóra stönguðust á við vernd atvinnuréttinda samkvæmt stjórnarskrá.

Við meðferð kvörtunarinnar hjá umboðsmanni kom fram að ráðuneytið teldi að bæði hefði verið leyst úr málinu með fullnægjandi hætti og ótvírætt væri að endurmenntunarkröfurnar brytu ekki bága við stjórnarskrá. Í úrskurði ráðuneytisins var þó hvorki vikið að þessu álitamáli né þess getið að ráðuneytið skæri ekki úr um stjórnskipulegt gildi laga líkt og síðar kom fram í svörum þess til umboðsmanns.  

Settur umboðsmaður gerði af þessu tilefni athugasemdir við afgreiðslu ráðuneytisins á kærunni. Benti hann meðal annars á að ef í kæru til ráðherra væri byggt á að lagareglur væru ekki í samræmi við stjórnarskrá gæti ráðherra ekki afgreitt málið með því að vísa eingöngu til þess að hann ætti ekki úrskurðarvald um hvort ákvæði laga brytu í bága við stjórnarskrá. Ef ráðherra teldi ekki ástæðu til að taka undir röksemdir aðila um að lagaákvæði bryti gegn stjórnarskrá bæri honum að lýsa þeirri afstöðu.

Umboðsmaður benti á að almennt væru gerðar þær kröfur til stjórnvalda að þau tækju að minnsta kosti afstöðu til meginröksemda sem færðar væru fram og hefðu verulega þýðingu fyrir niðurstöðu mála. Slíkt stuðlaði að því að viðkomandi gæti skilið niðurstöðuna betur og sætt sig við hana. Þá væru ríkari kröfur gerðar til rökstuðnings í kærumálum að þessu leyti en til rökstuðnings ákvarðana á fyrsta stjórnsýslustigi. Þessum ábendingum var komið á framfæri við ráðuneytið svo það hefði þær framvegis til hliðsjónar við meðferð sambærilegra mála.

  

  

Bréf setts umboðsmanns til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra