13. apríl 2021

Meinbugir á lögum um heimildir sveitarfélaga til að stofna og eiga félög

Settur umboðsmaður vekur í nýju áliti athygli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á að í lögum skorti ákvæði um heimildir sveitarfélaga til þess að stofna og eiga einkaréttarleg félög á borð við hlutafélög.

Umboðsmaður lýsir þeirri afstöðu í álitinu að mikilvægt sé að lög hafi að geyma þær meginreglur sem handhafar opinbers valds eiga að fylgja, meðal annars í samskiptum við borgarana og um hvernig opinberum verðmætum er ráðstafað. Sérstakar reglur og viðmið sem gildi um meðferð sveitarfélaga á fjármunum og eignum virðist hins vegar ekki setja sveitarfélögum mörk um hvernig þau koma að stofnun og rekstri félaga, svo sem hlutafélaga, jafnvel þótt verulegir opinberir hagsmunir séu í húfi.

Í álitinu kemur fram að í lögum sé ekki tekið með skýrum hætti af skarið um ýmis álitaefni sem geta risið þegar sveitarfélög stofna og eiga félög eins og hlutafélög. Hvorki sé að finna í lögum almennar reglur um rekstur eða rekstrarform slíkra félaga né umfjöllun um réttindi og skyldur fulltrúa sveitarfélaga sem sitja í stjórnum slíkra félaga. Enn fremur skorti á að fjallað sé í lögum um hvaða heimildir sveitarstjórn fari með gagnvart félögunum og hvaða umboð framkvæmdastjóri sveitarstjórnar hafi til að taka ákvarðanir og gera ráðstafanir sem handhafi eigendavalds í félögunum. Loks sé ekki í lögum vikið að því hvaða aðgang sveitarstjórnarmenn eiga að upplýsingum úr rekstri slíkra félaga eða samstarfi sveitarfélaga í gegnum slík félög.

Settur umboðsmaður benti á að ef lagareglur skorti um mikilvæg málefni sem þessi væru meiri líkur á lagalegum ágreiningsefnum. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í álitinu vakti hann athygli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á álitaefnum um heimildir sveitarfélaga á þessu sviði með það fyrir augum að metið yrði hvort þörf væri á lagabreytingum til að bæta þar úr, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997.

   

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 5117/2007