30. apríl 2021

Þörf á að bæta starfsskilyrði úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Til að stytta afgreiðslutíma mála hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þarf að bæta bæði  starfsskilyrði og starfsaðstöðu nefndarinnar. Þetta er á meðal atriða sem bent er á í bréfi umboðsmanns Alþingis, Tryggva Gunnarssonar, til forsætisráðherra.

Bréfið er sent samhlið því að umboðsmaður hefur tilkynnt úrskurðarnefnd um upplýsingamál að hann hafi lokið athugun sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið á afgreiðslutíma mála hjá nefndinni. Af erindum sem umboðsmanni hafi borist undanfarin ár sést að sá tími sem stjórnvöld taka sér til að afgreiða beiðnir um aðgang að gögnum er í mörgum tilfellum æði langur, jafnvel þegar um einfaldar synjanir ræðir. Umboðsmaður bendir á að mikilvægt sé að hraða afgreiðslu slíkra beiðna almennt. Réttur til aðgangs að upplýsingum geti orðið þýðingarlaus ef verulegar tafir verði á afgreiðslu þeirra.

Meðalmálsmeðferðartími hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur verið verulega langur þann tíma sem athugun umboðsmanns hefur lotið að. Hins vegar náðist á síðasta ári umtalsverður árangur í að stytta hann miðað við fyrri ár og á sama tíma hefur þeim úrskurðum sem nefndin kveður upp hvert ár fjölgað. Þannig var meðalmálsmeðferðartíminn á síðasta ári átta dögum undir 150 daga lögbundnu viðmiði.

Í ljósi þess að Alþingi hefur farið þá leið að setja slíkt viðmið um tímafrest í lög, ákvað umboðsmaður láta við það sitja að hvetja nefndina til að gera það sem í hennar valdi stendur til að hraða afgreiðslu mála í samræmi við hina almennu reglu um að úrskurðir nefndarinnar skuli kveðnir upp svo fljótt sem verða má frekar en 150 daga viðmiðið. Í því samhengi bendir hann á að það viðmið sé í ósamræmi við þær áherslur sem fylgt er til dæmis á Norðurlöndunum og þar með í þeim stjórnsýslu- og upplýsingarétti sem Ísland sækir fyrirmyndir til, en þar sé í framkvæmd reynt að miða almennt við fáeina daga.

Umboðsmaður telur ljóst að ef ekki verði gerðar breytingar á starfsskilyrðum nefndarinnar hafi hún takmörkuð úrræði til verulegra úrbóta á þessum málum. Bendir hann því forsætisráðherra á að mikilvægt sé að sem allra fyrst verði bætt úr þessu til að hraða megi afgreiðslu mála, svo sem með því að fjölga starfsmönnum nefndarinnar og þá eftir atvikum að skipa málum þannig að formaður nefndarinnar sé sem slíkur í föstu starfi og sinni því eingöngu. Þá skipti einnig máli að huga að því hvort það sé heppilegt að búa nefndinni starfsaðstöðu í forsætisráðuneytinu og starfsmenn þess sinni aðstoð við nefndina. Þetta geti líka haft þýðingu þegar kemur að viðhorfi almennings til sjálfstæðis nefndarinnar og trausti á henni. Bréfið var jafnframt sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis til upplýsinga en í bréfinu vísar umboðsmaður meðal annars til umfjöllunar á vettvangi nefndarinnar um þessi mál.

   

   

Bréf umboðsmanns til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Bréf umboðsmanns til forsætisráðherra