07. maí 2021

Greiðslur frá erlendum lífeyrissjóði ekki rétt meðhöndlaðar

Úrskurðarnefnd velferðarmála aflaði ekki fullnægjandi upplýsinga til að geta tekið afstöðu til þess hvort greiðslur frá þýskum lífeyrissjóði væru sambærilegar við bætur almannatrygginga og þar með hvort þær skyldu skerða lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun.

Þegar einstaklingar sem hafa búið í öðrum ríkjum EES-svæðisins sækja um greiðslur úr almannatryggingakerfinu getur reynt á samspil íslenskra laga um almannatryggingar og reglna EES-réttarins um sama efni. Í lögum um almannatryggingar er gengið út frá því að bætur sem greiddar eru á grundvelli laganna reiknist ekki til tekna sem skerði lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun og að það sama eigi við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við. Þegar einstaklingur fær greiddar bætur frá öðru EES-ríki verður að líta til þess hvort bætur séu sambærilegar með hliðsjón af því markmiði sem stefnt er að með greiðslu bótanna og efni þeirrar löggjafar sem bótagreiðslurnar byggjast á.

Settur umboðsmaður taldi að fullyrðingar úrskurðarnefndar velferðarmála, um að greiðslurnar frá Þýskalandi hefðu meiri líkindi við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum heldur en örorkulífeyrisgreiðslur, væru ekki í samræmi við gögn málsins. Af þeim yrði ekki annað ráðið en greiðslunum væri einungis ætlað að standa undir grunnframfærslu. Nefndin hefði því ekki aflað fullnægjandi upplýsinga til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort greiðslurnar væru sambærilegar bætur og greiðslur almannatrygginga. Beindi settur umboðsmaður þeim tilmælum til nefndarinnar að taka málið aftur til meðferðar og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu og taka framvegis mið af þeim.

Þá gat hann þess að með hliðsjón af afdráttarlausri afstöðu Tryggingastofnunar um að stofnunin meðhöndli allar lífeyrisgreiðslur sem eru ákvarðaðar út frá fyrri launum eða vegna greiðslu iðgjalda sem lífeyrissjóðsgreiðslur, kynni að vera tilefni til að taka þá framkvæmd til almennrar athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar umboðsmanns.

 

 

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10077/2019

    

Tengd frétt

Áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris