25. maí 2021

Stjórnvöld huga að möguleikum til útivistar við val á sóttvarnahúsum

Með hliðsjón af svörum frá heilbrigðisráðuneytinu við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis um aðbúnað og útivist þeirra sem dvelja í sóttvarnahúsum telur umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugunar á málinu.

Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns 1. og 30. apríl óskaði heilbrigðisráðuneytið eftir áliti dómsmálaráðuneytisins og upplýsingum frá bæði sóttvarnalækni og Sjúkratryggingum Íslands um þau atriði sem þar var spurt um. Sóttvarnalæknir greindi frá því að við val á sóttkvíarhótelum eftir 6. apríl hefði verið horft til ýmissa atriða hvað snerti útivistarmöguleika gesta. Hægt hafi verið að bjóða, þeim sem hafi óskað, útivist í samræmi við reglugerðina og umfram það við ákveðnar aðstæður. Ekki hafi verið mögulegt að tryggja daglega útiveru fullorðinna, þótt reynt sé að gera það, en komið hafi verið til móts við barnfólk með daglegri útivist og leikföngum.

Vegna þessara viðbragða og skýringa taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugunar á málinu.

   

Bréf heilbrigðisráðuneytisins til umboðsmanns vegna fyrirspurnar um sóttvarnahús

   

   

Tengd frétt

Spurt um útivist í sóttvarnahúsum