04. júní 2021

Ákvörðun um flutning úr félagslegu húsnæði ákvörðun en ekki „samkomulag“

Hafnarfjarðarkaupstaður tók í reynd einhliða ákvörðun um að fatlaður einstaklingur skyldi flytja úr einu félagslegu húsnæði í annað. Umboðsmaður féllst því ekki á niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála um að ekki hefði verið tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu.

Úrskurðarnefndin vísaði frá kæru vegna málsmeðferðar Hafnarfjarðarkaupstaðar um flutning fatlaðs einstaklings. Nefndin byggði á að ekki hefði verið tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu heldur hefði flutningurinn byggst á samkomulagi.

Umboðsmaður taldi ljóst að sveitarfélagið hefði átt frumkvæði að því að viðkomandi flutti úr íbúðinni og hann hafi verið því mótfallinn. Því hafi í reynd verið tekin einhliða ákvörðun af hálfu sveitarfélagins þar um. Ákvörðunin um að flytja viðkomandi hefði áhrif á bæði lögbundinn rétt hans og mikilvæga hagsmuni og væri því stjórnvaldsákvörðun. Í þeim efnum benti umboðsmaður m.a. á að meðal markmiða laga um félagsþjónustu sveitarfélaga væri að tryggja rétt notenda þjónustunnar til að kæra slíkar ákvarðanir. Úrskurður nefndarinnar um að vísa kærunni frá hafi því ekki verið í samræmi við lög.

Beindi umboðsmaður því til nefndarinnar að taka málið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr því í samræmi við álitið. Þá sendi hann Hafnarfjarðarkaupstað álitið með það í huga að tekið yrði til skoðunar hvort birting reglna sveitarfélagsins um úthlutun á almennu leiguhúsnæði væri í samræmi við lög og að framvegis yrði gætt reglna stjórnsýslulaga þegar meiriháttar ákvarðanir væru teknar um búsetu fatlaðs fólks.

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 10899/2021