16. júní 2021

Eftirlit dómsmálaráðherra með starfsháttum lögreglustjóra vegna þóknunar til verjenda

Umboðsmaður telur að viðbrögð dómsmálaráðuneytisins vegna kvörtunar yfir starfsháttum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, í tengslum við ákvarðanir um þóknun tilnefnds verjenda og afstaða þess til þeirra atriða sem þar reyndi á, hafi ekki verið fullnægjandi.

Kvartað var yfir niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins vegna ákvörðunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um þóknun fyrir verjandastörf. Athugun umboðsmanns beindist meðal annars að því hvort það hafi verið lögmæt ákvörðun hjá lögreglustjóra að miða þóknun verjanda við viðmiðunarreglur sem giltu þegar vinnan var unnin. Reikningar verjandans tóku hins vegar mið af nýjum reglum sem höfðu tekið gildi þegar þeir voru gefnir út.

Með hliðsjón af yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverki ráðuneytisins með lögreglunni taldi umboðsmaður að viðbrögð þess og rannsókn málsins hefðu ekki verið til þess fallin að upplýsa hvort verklag og framkvæmd lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, vegna ákvarðana um þóknun verjanda, væri í samræmi við lög.

Sú afstaða ráðuneytisins að lögreglustjóra hafi verið heimilt að miða þóknun verjandans við þágildandi reglur hafi verið íþyngjandi fyrir lögmanninn sem kröfuhafa gagnvart íslenska ríkinu. Slík niðurstaða þyrfti að byggjast á skýrri heimild í lögum sem ráðuneytið hefði ekki fært haldbær rök fyrir að væri til að dreifa.

Mæltist umboðsmaður til að ráðuneytið tæki málið til meðferðar að nýju ef eftir því yrði leitað og þá í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Jafnframt að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir til úrbóta gagnvart lögreglustjórum á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess. Þá var ríkislögreglustjóri upplýstur um álitið í ljósi samræmingarhlutverks embættisins í starfsemi lögreglunnar.

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 10521/2020