24. júní 2021

Viðurkenning fyrir meistararitgerð við lagadeild H.Í.

Við brautskráningu frá lagadeild Háskóla Íslands var Ivönu Önnu Nikolic, lögfræðingi hjá umboðsmanni, veitt viðurkenning fyrir bestu lokaritgerð til meistaraprófs á undangengnu almanaksári en hún útskrifaðist með meistarapróf í lögfræði í júní 2020.

Fjögurra manna dómnefnd, sem skipuð var fulltrúum Lagadeildar og Lögmanna Lækjargötu, sem veittu viðurkenninguna, mat þær ritgerðir sem komu til greina. Yfirskrift ritgerðarinnar er Læknamistök í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og íslenskur réttur. Róbert R. Spanó forseti Mannréttindadómstóls Evrópu var leiðbeinandi.

Í ritgerðinni er fjallað um dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum þar sem læknamistök, eða mistök annarra heilbrigðisstarfsmanna, hafa komið til álita. Tvenns konar skyldum aðildarríkja er lýst í þessum efnum, þ.e. annars vegar efnislegum skyldum aðildarríkja og hins vegar málsmeðferðarskyldum þeirra. Fjallað er um hvernig þær skyldur birtast í dómaframkvæmd MDE og hvenær ríki eru talin brotleg í þessu sambandi auk þess sem sú framkvæmd er borin saman við íslenskan rétt. Í ritgerðinni eru m.a. dregnar þær ályktanir að dómaframkvæmd MDE hafi þróast í þá átt að dómstóllinn geri nú meiri kröfur til aðildarríkja en áður um regluverk innan heilbrigðiskerfa þeirra sem og að afmarkaður réttur til lífsnauðsynlegrar og bráðrar heilbrigðisþjónustu felist í reynd í mannréttindasáttmálanum.

Ivana hefur starfað hjá umboðsmanni síðan í september 2019, fyrst sem laganemi og síðan lögfræðingur frá útskrift. Umboðsmaður óskar Ivönu til hamingju með viðurkenninguna.

   

Ivana.jpg