12. ágúst 2021

Úrbætur til að stytta afgreiðslutíma mála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu

Aðgerðir til að stytta afgreiðslutíma mála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafa leitt til þess að umboðsmaður telur að svo stöddu ekki tilefni til að halda athugun sinni á málinu áfram.

Umboðsmaður hefur verið með málið til athugunar og kallað eftir upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu vegna kvartana og ábendinga um að langan tíma tæki að afgreiða mál hjá sýslumanninum, einkum á sviði fjölskyldumála og þinglýsinga. Ráðuneytið hefur greint frá ýmsum aðgerðum sem bæði það og sýslumaðurinn hafa ráðist í til úrbóta í kjölfarið. Þær hafi meðal annars falið í sér skipulagsbreytingar, endurskoðun verklags, endurmenntun starfsfólks og aukið rekstrarfé. Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að hugsanlega verði veitt viðbótarfé til að stytta biðtíma hjá sérfræðingum í málefnum barna, með því að útvista hluta málanna til sjálfstæðra sérfræðinga.  Þá kunni fleiri aðgerðir að koma til ef þörf krefji.

Í ljósi þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til eftir fyrirspurnir umboðsmanns hefur hann ákveðið að taka málið ekki til frekari athugunar að svo stöddu en fylgst verður með þróuninni og þráðurinn tekinn upp á ný ef tilefni þykir til.

  

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðuneytisins

   

Tengdar fréttir

Dómsmálaráðherra beðinn um svör vegna stöðu mála hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins

  

Dómsmálaráðuneytið enn beðið um svör vegna tafa hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins