10. september 2021

Óskað eftir upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu vegna umsókna um örorkulífeyri

Umboðsmaður óskar eftir frekari upplýsingum í tilefni af svörum félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn hans vegna framkvæmdar Tryggingastofnunar við af­greiðslu umsókna um örorkulífeyri.

Sú fyrirspurn var gerð til að fá upplýsingar um hvort breytingar kunni að hafa orðið á framkvæmd þannig að umsóknum, einkum frá ungu fólki, sé í auknum mæli synjað á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Ráðuneytið upplýsti meðal annars að í tilefni af fyrirspurn umboðsmanns, og að því hefðu borist nokkrar kvartanir vegna afgreiðslu örorkumats, væri ætlunin að fara yfir framkvæmd Tryggingastofnunar hvað varðar rökstuðning synjana og leiðbeiningar til umsækjenda. Fyrirspurn umboðsmanns nú lýtur að því að fá upplýsingar um hvað felist í þeirri yfirferð og hvort fyrir liggi hvenær henni verði lokið. Jafnframt óskar hann eftir að verða upplýstur um niðurstöðuna þegar hún liggur fyrir og ef gripið hafi verið til einhverra frekari aðgerða verði greint frá í hverju þær felist. Beðið  er um svör eigi síðar en 28. september nk.

 

 

Bréf umboðsmanns til félags- og barnamálaráðherra

 

Tengd frétt

Athygli ráðherra vakin á afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsóknum um örorkulífeyri