20. september 2021

Endurskoðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem kærustjórnvalds

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði hvorki fullnægjandi gögn né tryggði að fullnægjandi grundvöllur væri lagður að niðurstöðu hennar um gjaldtöku vegna heilbrigðiseftirlits vegna starfsemi Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli. Taldi umboðsmaður að málsmeðferð og niðurstaða nefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við lög.

Í málinu gerði Isavia ohf. athugasemdir við fjárhæð tímagjalds fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði sem og tíðni og umfang eftirlitsins á flugvellinum, auk annars. Umboðsmaður hafði ýmislegt við málsmeðferð og niðurstöðu nefndarinnar að athuga. Benti hann meðal annars á að ekki hefði verið varpað ljósi á hvernig  tímagjald Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja var ákveðið og nefndinni hefði borið að afla gagna um það áður en hún leysti úr málinu. Þá hefði viðhlítandi sérfræðiþekking þurft að liggja til grundvallar úrlausn nefndarinnar um tíðni og umfang eftirlitsins. Nefndin hafi verið skipuð þremur lögfræðingum og hvorki nýtt heimild til að kveðja viðeigandi sérfræðinga sér til aðstoðar né talið ástæðu til að rannsaka þennan þátt eftir öðrum leiðum. Í ljósi þess hefði verið ástæða fyrir nefndina að gæta þess betur að viðhlítandi sérfræðiþekking lægi að baki úrlausn hennar. Jafnframt gerði umboðsmaður athugasemdir við mat nefndarinnar á tíðni og umfangi eftirlitsins.

Mæltist hann til að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tæki málið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað og leysti þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. 

   

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 9970/2019