01. október 2021

Óheimilt að leggja stöðubrotsgjald á hreyfihamlaða fyrir að leggja í göngugötu

Bílastæðasjóði Reykjavíkur var ekki heimilt að leggja stöðubrotsgjald, á handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða, fyrir að leggja bíl sínum í göngugötu. Handhafar slíkra korta megi leggja bæði í sérmerkt stæði fyrir hreyfihamlaða og almenn gjaldskyld stæði án þess að greiða fyrir.

Maður með stæðiskort lagði í almennt stæði, afmarkað með málmbólum, á þeim hluta Skólavörðustígs í Reykjavík sem skilgreindur er sem göngugata. Hann vildi meina að sér væri heimilt að leggja í slíkt afmarkað stæði án þess að greiða fyrir. Afstaða Bílastæðasjóðs byggðist aftur á móti á því að í göngugötum mættu handhafar stæðiskorta aðeins leggja í sérmerkt stæði fyrir hreyfihamlaða en ekki almenn stæði.

Umboðsmaður benti á að hvergi í umferðarlögum væri gerður greinarmunur í þessu tilliti á göngugötum og öðrum götum, þannig að heimildin næði aðeins til sérmerktra stæða í þeim fyrrnefndu. Þá taldi hann að það hefði ekki verið nægilega skýrt að afmörkun með málmbólum á göngugötunni væri ekki ætlað að fela í sér afmörkun á bílastæði. Alkunna væri að téðar málmbólur væru vanalegar við afmörkun stæða, einkum á ákveðnum svæðum borgarinnar. Ekki væri heimilt að beita viðurlögum fyrir stöðubrot á þessum forsendum. Mæltist umboðsmaður til að Bílastæðasjóður tæki málið til meðferðar að nýju, ef eftir því yrði leitað, og leysti þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10996/2021