18. október 2021

Ófullnægjandi mat á umönnunarþörf fatlaðs barns

Úrskurðarnefnd velferðarmála lagði ekki fullnægjandi mat á umönnunarþörf fatlaðs barns þegar hún staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar sem hafði synjað foreldrum þess um hækkun á umönnunargreiðslum.

Foreldrar fatlaðs drengs sóttu um nýtt umönnunarmat fyrir hann sem hefði falið í sér hærri greiðslur þeim til handa. Fyrir lágu gögn frá sérfræðingum um að  þörf hans fyrir aðstoð hefði vaxið með aldrinum. Úrskurðarnefnd velferðarmála taldi að þótt umönnunin hefði eitthvað þyngst frá fyrra mati væru ekki skilyrði til að hækka greiðslurnar og staðfesti þannig ákvörðun Tryggingastofnunar í málinu.

Umboðsmaður benti á að það ákvæði reglugerðar sem á reyndi fæli í sér tvö sjálfstæð og jafnframt valkvæð skilyrði um umönnunarþörf. Nefndin hefði eingöngu tekið afstöðu til þess hvort umsóknin hefði uppfyllt skilyrði um að þörf væri á yfirsetu foreldris heima eða á sjúkrahúsi en ekki hvort skilyrði um að aðstoð við flestar athafnir daglegs gæti átt við. Í vottorði læknis hefði komið fram að þörf drengsins fyrir umönnun væri verulega aukin og hann þyrfti gæslu og stýringu í öllum aðstæðum. Þá hefði þroskaþjálfi viðkomandi sveitarfélags lagt til að umönnunarmati yrði breytt og greiðslur þar með hækkaðar þar sem umönnun hefði þyngst mikið frá síðasta mati. Að áliti umboðsmanns hefði verið tilefni til að taka efnislega afstöðu til þessara gagna og upplýsinga út frá skilyrðum reglugerðarinnar. Nefndin hefði því ekki lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni. Beindi hann því til hennar að taka málið til nýrrar meðferðar ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmið í álitinu og gæta þeirra framvegis.

Í ljósi atvika málsins taldi umboðsmaður jafnframt tilefni til að árétta sjónarmið um markmið umönnunargreiðslna í tengslum við mat á umönnunarflokkum fatlaðra barna. Í þeim efnum benti hann m.a. á að slíkt mat væri ekki eingöngu læknisfræðilegt heldur þyrfti að gæta þess að heildstætt mat færi fram á þeim áhrifum sem sjúkdómur eða fötlun hefði raunverulega á umönnunarþörf viðkomandi barns. Var álitið jafnframt sent til Tryggingastofnunar og félagsmálaráðherra til upplýsingar.

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 10788/2020