20. október 2021

Hlutverk sveitarstjórna í ráðningarmálum

Þótt fela megi starfsfólki að undirbúa ákvörðun sveitarstjórnar í ráðningarmálum og heimilt sé að leita utanaðkomandi aðstoðar, leysir það sveitarstjórn ekki undan þeirri ábyrgð sem lögum samkvæmt hvílir á henni við meðferð og lyktir slíkra mála.

Bæjarstjórn Akraness gætti ekki að þessu þegar slökkviliðsstjóri Akraness og Hvalfjarðarsveitar var ráðinn. Taldi umboðsmaður að leggja yrði til grundvallar að bæjarstjórnin hefði í reynd byggt ákvörðun sína á tillögu ráðningarteymis um að ráða tiltekinn umsækjanda án þess að kanna málið áður með fullnægjandi hætti. Benti hann á að sem veitingarvaldshafa hefði bæjarstjórninni borið að sjá til þess að undirbúningur ákvörðunarinnar væri nægjanlega traustur og meðferð málsins í samræmi við lög. Bæjarstjórnin hefði hins vegar hvorki haft beina aðkomu að viðtölum sem tekin voru við umsækjendur né annarri vinnu ráðningarteymisins, þar með talið að þrengja hópinn þar til einn stóð eftir að lokum. Í álitsgerð sem lögð var fyrir bæjarstjórn hefði engin umfjöllun verið um aðra umsækjendur en þann sem var ráðinn og bæjarstjórnin hefði ekki leitast við að upplýsa málið frekar hvað þetta snerti áður en ákveðið var hver fengi starfið.

Þrátt fyrir annmarka taldi umboðsmaður ólíklegt að þeir leiddu til ógildingar á ráðningunni. Allt að einu mæltist hann til að sveitarfélagið leitaði leiða til að rétta hlut viðkomandi og að sveitarfélagið gætti framvegis að þessum sjónarmiðum.

  

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10484/2020