29. október 2021

Stigagjöf leysir stjórnvöld ekki undan þeirri ábyrgð að meta hæfni umsækjenda heildstætt

Stjórnvöld firra sig ekki ábyrgð við ráðningar og skipanir í störf þótt stigagjöf sé notuð til að skilja á milli umsækjenda. Umboðsmaður hefur lokið frumkvæðismáli þar sem hann dregur fram nokkur atriði sem sérstaklega þarf að huga að í þessu tilliti.

Undanfarin ár hafa málefni opinberra starfsmanna orðið æ fyrirferðameiri í starfsemi umboðsmanns. Ekki hvað síst snúast kvartanir í þeim um hvernig umsækjendur eru bornir saman áður en ráðið eða skipað er í starf. Í mörgum tilvikum eru gefin stig fyrir tiltekna þætti og þannig gerður tölulegur samanburður þar sem heildareinkunn getur ráðið úrslitum. Umboðsmaður hefur áður bent á annmarka við þessa leið þar sem raunverulegur vafi geti skapast um hvort hæfasti umsækjandinn hafi hlotið flest stig. Fortakslaus notkun stigagjafar geti leitt til þess að mat á þekkingu og getu sem máli skipti fari fyrir ofan garð og neðan. Tekur umboðsmaður einnig dæmi um hvernig skekkjumörk við stigagjöf geta haft áhrif á lokaútkomuna. Stjórnvöld verði að taka mið af þeim takmörkunum sem stigagjöf feli í sér og axla ábyrgð á því raunverulega og heildstæða mati sem liggja eigi til grundvallar ákvörðun.

Umboðsmaður tók fram að þótt umfjöllun álitsins væri almenn ættu þau lagalegu álitaefni og ábendingar sem væru settar fram að gefa stjórnvöldum tilefni til að huga að framkvæmd þessara mála til framtíðar með það að markmiði að ákvarðanir um ráðningar og skipanir væru í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. 

Með hliðsjón af umfjöllun í álitinu setur umboðsmaður fram nokkrar ábendingar um notkun stigagjafar í ráðningum hjá hinu opinbera.

  • Ábyrgð stjórnvalds stendur óhögguð þótt notað sé tölulegt stigamat og haga þarf málsmeðferð þannig að unnt sé að sýna fram á að heildstæður efnislegur samanburður hafi farið fram á raunverulegri starfshæfni.
  • Gæta þarf málefnalegra sjónarmiða og jafnræðis við tölulegan samanburð á hæfni umsækjenda.
  • Stigamat er að jafnaði aðeins til leiðbeiningar. Sérstaklega þarf að gæta þess þegar lítill munur er á milli umsækjenda og val stendur á milli fárra á lokastigi.
  • Gera þarf ráð fyrir skekkjumörkum og marktækum mun við samanburð.
  • Stigamat getur ekki sjálfkrafa falið í sér endanlega niðurstöðu eða tæmandi skýringu á forsendum ráðningar eða skipunar.
  • Gæta þarf að kröfum stjórnsýsluréttar þegar byggt er á sjónarmiðum sem byggjast að meira eða minna leyti á huglægu mati.

Umboðsmaður sendi álit sitt meðal annars til forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, auk þeirra stjórnvalda sem fengu fyrirspurn í tilefni af málinu, með ósk um að það yrði kynnt forstöðumönnum ríkisstofnana og sveitarfélaga og litið til ábendinganna við notkun stigamats við ráðningar og skipanir í framtíðinni.

   

    

Álit umboðsmanns í máli nr. F79/2018