02. nóvember 2021

Markmið stjórnvalda að tryggja samfellu í þjónustu við umsækjendur um örorkulífeyri

Í ljósi viðbragða stjórnvalda, sem ætlað er að tryggja umsækjendum um örorkulífeyri samfellu í þjónustu, hefur umboðsmaður ákveðið að aðhafast ekki frekar að svo stöddu vegna athugunar sinnar á framkvæmd Tryggingastofnunar við afgreiðslu þessara umsókna.

Athugunin hófst í kjölfar kvartana og ábendinga sem bentu til að umrædd framkvæmd kynni að hafa breyst þannig að umsóknum, einkum frá ungu fólki, væri í auknum mæli synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu um hvort þar væri talin ástæða til að bregðast við á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðuneytisins. Sú var raunin og kvaðst ráðuneytið meðal annars hafa bent Tryggingastofnun á hvernig bæta mætti leiðbeiningar, ráðgjöf og rökstuðning. Stofnunin hefði brugðist við þessum ábendingum og skipulagi jafnframt verið breytt þannig að aðgangur að sérfræðingum, bæði í síma og þjónustuveri, yrði betri en áður. Þá hefði stofnunin ákveðið að skoða afgreiðslu umsókna í heild sinni með tilliti til hvaða þjónustu og greiðslum fólk gæti átt rétt á. Breytt verklag tæki gildi á næstu mánuðum.

Í svari ráðuneytisins kom einnig fram að til að tryggja samfellu í þjónustu, og þá einnig varðandi framfærslu, þyrfti að auka samvinnu þeirra sem komi að endurhæfingu. Þetta ætti sérstaklega við þegar Tryggingastofnun hefði metið það svo að endurhæfing væri ekki fullreynd. Loks var upplýst að unnið hefði verið að skipan starfshóps ráðuneytisins, Tryggingastofnunar, Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar til að gera tillögur um samstarf þeirra við afgreiðslu umsókna. Hugsanlega þurfi að breyta lögum til að tryggja heimildir þeirra til að hafa slíka samvinnu. Reiknað sé með að hópurinn verði skipaður í kjölfar þess að ný ríkisstjórn taki til starfa.

Í ljósi þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til og fyrirætlana ákvað umboðsmaður að aðhafast ekki frekar að svo stöddu. Hann fylgist þó áfram með og óskar eftir að ráðuneytið hafi frumkvæði að því að upplýsa embættið um afrakstur og niðurstöður starfshópsins.

   

    

Bréf umboðsmanns til félags- og barnamálaráðherra

  

  

Tengdar fréttir

Óskað eftir upplýsingum frá félagsmálaráðuneyti vegna umsókna um örorkulífeyri

Athygli ráðherra vakin á afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsóknum um örorkulífeyri