09. maí 2022

Stjórnvöld verða að rannsaka mál áður en gripið er til sönnunarreglna

Hluti af rannsókn stjórnvalds í einstökum málum er að leggja mat á þau gögn og upplýsingar sem liggja fyrir um atvik máls. Í slíkum tilvikum þarf stjórnvald að kanna með fullnægjandi hætti og leggja mat á gögn og upplýsingar um slík atriði og þá hvaða þýðingu þau hafa fyrir niðurstöðu málsins og hvað telst upplýst um þau atriði sem deilt er um.

Umboðsmaður taldi tilefni til að gera athugasemdir við rannsókn máls hjá úrskurðarnefnd velferðarmála í kjölfar þess að hún staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt manns til atvinnuleysisbóta. Ekki lágu fyrir fullnægjandi gögn um hvort hann hefði í reynd hafnað starfi eða atvinnuviðtali.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar byggðist á því að viðkomandi hefði hafnað starfi með því að hafna því að mæta í svokallaðar „prófanir“, í kjölfar atvinnuviðtals. Kvaðst hann aftur á móti ekki hafa hafnað starfi heldur dregið sig út úr ráðningarferlinu, meðal annars af þeim sökum að ætlast hefði verið til að hann ynni launalaust við umræddar „prófanir“.

Umboðsmaður tók fram að þótt maðurinn hefði ekki orðið við beiðni úrskurðarnefndarinnar um að leggja fram gögn, sem staðfestu að ekki hefði staðið til að greiða honum laun fyrir að mæta í „prófanir“, yrði að hafa í huga að í stjórnsýslukæru hans hefði verið vísað til þess að samskipti hans og fyrirtækisins hefðu farið fram í gegnum síma. Nefndinni hefði borið að leggja mat á hvort hægt væri að afla upplýsinga um þetta og upplýsa málið að þessu leyti áður en ákvörðun væri tekin. Stjórnvöld gætu ekki gripið til sönnunarreglna í stað þess að sjá til þess að rannsaka mál með viðhlítandi hætti. Hefði meðferð málsins að þessu leyti ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

Þá taldi umboðsmaður tilefni til að benda Vinnumálastofnun á tiltekin atriði vegna athugasemda hennar til úrskurðarnefndarinnar vegna kærumálsins með hliðsjón af reglum um rannsókn máls og hlutverki stofnunarinnar sem lægra setts stjórnvalds í kærumálum.

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11360/2021