25. maí 2022

Starfsmannamál og reglugerð um einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Stjórnendur hafa nokkurt svigrúm til að ákveða hvernig þeir bregðast við í starfsmannamálum en fari slík mál í formlegt ferli þarf að gæta allra viðeigandi málsmeðferðarreglna allt frá upphafi.

Á þetta reyndi í starfsmannamáli sem lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra fjallaði um með vísan til reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í kvörtun til umboðsmanns byggði hlutaðeigandi á því að sér hefði hvorki verið tilkynnt um upphaf málsins með fullnægjandi hætti né veitt færi á að tjá sig um það eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Jafnframt kvartaði hann yfir því að hafa ekki fengið gögn málsins sem hann hefði óskað eftir, eftir að því lauk.   

Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við málsmeðferð lögreglustjórans. Byggðist sú niðurstaða á því að þegar viðkomandi sagði upp störfum, fáeinum dögum eftir að málið kom upp, hefði ekki verið búið að ákveða hvort það yrði lagt í farveg áminningarmáls. Umboðsmaður benti þó á hvaða sjónarmið ættu við um málsmeðferð vegna ætlaðra brota eða annarrar ámælisverðrar háttsemi í opinberu starfi.

Hvað aðgang að gögnum snerti féllst umboðsmaður ekki á skýringar lögreglustjórans að tiltekin gögn væru vinnuskjöl og því undanþegin upplýsingarétti. Minnti hann í þeim efnum á eldra álit þar sem fjallað var ítarlega um rétt málsaðila til aðgangs að gögnum og upplýsingum.

  

  

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10979/2021

Álit umboðsmanns í máli nr. 10886/2020