14. október 2022

Réttaróvissa um ágang fjár

Mælst er til þess að innviðaráðuneytið taki leiðbeiningar, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið veitti vegna ágangsfjár, í heild sinni til endurskoðunar þar sem þær samrýmist ekki lögum.

Leiðbeiningarnar komu til vegna stjórnsýslu sveitarfélags, í tengslum við beiðni um smölun ágangsfjár, og þeirrar réttaróvissu sem virtist vera um skyldur sveitarfélaga við þær aðstæður sem fyrir hendi voru. Í þeim kom m.a. fram að tiltekin ákvæði í lögum um búfjárhald annars vegar og lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. hins vegar, væru ósamrýmanleg og því skyldu ákvæði fyrrnefndu laganna ganga hinum fram því þau væru yngri. Í því fólst að til þess að banna umgang og beit búfjár í heimalandi, þar sem svo háttaði til að viðkomandi sveitarfélag hefði ekki skyldað umráðamenn búfjár til að hafa það í vörslu, bæri umráðamanni landsins að taka ákvörðun um að friða það í samræmi við nánari skilyrði laga þar um.

Í áliti sínu fjallaði umboðsmaður um friðhelgi eignarréttar samkvæmt stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu sem og forsögu annarra lagaákvæða sem máli skiptu. Var þar m.a. vísað  til Landsleigubálks Jónsbókar og réttarbótar Eiríks konungs frá árinu 1294. Varhugavert væri að skýra friðunarákvæði laga um búfjárhald á þá leið að vilji löggjafans hefði staðið til þess að kollvarpa aldagömlu réttarástandi og takmarka eignarrétt umráðamanns lands með tilliti til ágangs búfjár, líkt og ráðuneytið virtist hafa gert í leiðbeiningum sínum. Eignarréttindi yrðu almennt ekki takmörkuð nema á grundvelli skýrrar lagaheimildar. Ekki væri því grundvöllur fyrir túlkun ráðuneytisins.

Atvik málsins, svo og breyttir samfélagshættir og landnýting undanfarna áratugi, gæfi tilefni til að skýra réttarstöðu allra hlutaðeigandi og huga þyrfti að endurskoðun þeirra réttarreglna sem fjallað væri um í álitinu. Var þeim tilmælum beint til innviðaráðuneytisins að taka umræddar leiðbeiningar til endurskoðunar og í ljósi þeirrar réttaróvissu sem fjallað var um fengu bæði matvælaráðuneytið og Sambandi íslenskra sveitarfélaga upplýsingar um niðurstöðu umboðsmanns.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 11167/2021