20. desember 2022

Dómsmálaráðuneytið beðið um skýringar vegna starfshátta bótanefndar

Samhliða ábendingu til dómsmálaráðherra um langvarandi vanda sem virðist hamla starfi bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995, óskar umboðsmaður eftir ýmsum upplýsingum og skýringum vegna starfshátta hennar frá dómsmálaráðuneytinu.

Tilefnið er meðal annars síendurteknar tafir sem verða á svörum nefndarinnar til umboðsmanns sem og langur afgreiðslutími hennar eins og kvartanir til hans bera með sér. Nýverið liðu til dæmis 16 mánuðir frá því að umsóknir um bætur voru lagðar fram þar til nefndin afgreiddi þær. Þá eru dæmi um að svör nefndarinnar til umboðsmanns séu óskýr eða beinlínis villandi. Það varð til þess að á síðasta ári gerði settur umboðsmaður athugasemdir við starfshætti nefndarinnar í bréfi til sýslumannsins á Norðurlandi eystra sem þáverandi dómsmálaráðherra fékk jafnframt afrit af til upplýsingar.

Bótanefndin hefur bent á að málum hafi fjölgað verulega á undanförnum árum og niðurskurður fjárframlaga bitnað á starfseminni. Aldrei hafi fengist fjárveiting fyrir málaskráningarkerfi og hörgull á því hafi tafið mikið fyrir. Það standi til bóta.

Upplýsingar nefndarinnar um starfsskilyrði sín og þær tafir sem almennt verða á svörum við fyrirspurnum umboðsmanns og afgreiðslu einstakra mála, benda til að fyrir hendi sé almennur vandi í starfsemi hennar og starfsháttum sem og hugsanlegir annmarkar á umgjörð og starfsaðstæðum. Þar sem umboðsmaður hefur ítrekað bent nefndinni á þetta, án þess að séð verði að brugðist hafi verið við, er nú óskað eftir viðbrögðum dómsmálaráðherra. Þar á meðal hvort ráðuneytinu sé kunnugt um þessa stöðu mála og þá hvort og þá hvaða ráðagerðir séu uppi til úrbóta. Beðið er um upplýsingar um hvernig eftirliti þess með bótanefndinni hafi verið háttað m.t.t. málshraða, viðhlítandi fjármögnunar og aðbúnaðar nefndarinnar. Jafnframt er spurt um málaskráningu og varðveislu gagna hjá nefndinni.

Óskar umboðsmaður eftir svörum frá ráðuneytinu fyrir 13. janúar nk. svo unnt sé að meta hvort tilefni sé til að taka störf bótanefndarinnar og eftirlit ráðuneytisins með þeim til almennrar athugunar.

  

  

Mál nr. 11771/2022 & 11772/2022