Fangelsismál. Samfélagsþjónusta. Vararefsing fésektar. Afturköllun.

(Mál nr. 8397/2015)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem staðfestar voru ákvarðanir Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar við embætti sýslumannsins á Blönduósi um að hafna beiðni hans um niðurfellingu sakarkostnaðar annars vegar og hins vegar að gera honum að afplána vararefsingu fésektar í fangelsi. Umboðsmaður ákvað að afmarka umfjöllun sína í álitinu við síðari ákvörðunina en lauk athugun sinni á fyrri ákvörðuninni með bréfi til A.

Umboðsmaður tók fram að eftir að lögreglustjóri tæki ákvörðun um að vararefsingu fésektar skyldi beitt væri heimilt að sækja um til fangelsismálastofnunar að henni yrði fullnustað með samfélagsþjónustu. Féllist fangelsismálastofnun á að vararefsing yrði fullnustuð með samfélagsþjónustu leiddi af þeirri ákvörðun að réttaráhrif hennar kæmu í ákveðnum skilningi í stað réttaráhrifa ákvörðunar lögreglustjóra um að vararefsingu fésektar skyldi beitt og hún fullnustuð með fangelsisvist. Væri lögreglustjóra þá ekki heimilt að öðru óbreyttu að leggja málið í þann farveg að vararefsing yrði fullnustuð með fangelsisvist.

Umboðsmaður taldi að fangelsismálastofnun hefði tekið ákvörðun um að verða við umsókn A um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu og að sú ákvörðun hefði verið í gildi þegar innheimtumiðstöðin ákvað að hann yrði færður í afplánun í fangelsi. Þá hefði ákvörðun fangelsismálastofnunar ekki fallið sjálfkrafa úr gildi þótt A hefði ekki undirgengist skilyrði í samfélagsþjónustu með undirritun sinni. Hefði það verið mat stjórnvalda að fullnusta vararefsingar með samfélagsþjónustu væri fullreynd í máli A hefði verið þörf á að fangelsismálastofnun afturkallaði fyrri ákvörðun sína með formlegum hætti. Þar sem ekki yrði séð að stofnunin hefði tekið slíka ákvörðun hefði ekki verið heimilt að handtaka A og færa hann til afplánunar vararefsingar í fangelsi. Úrskurður ráðuneytisins hefði því að þessu leyti ekki verið reistur á réttum lagagrundvelli.

Í ljósi þess að A hafði þegar afplánað hluta vararefsingarinnar í fangelsi og greitt eftirstöðvar sektarinnar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að beina tilmælum til innanríkisráðuneytisins um að taka mál hans til nýrrar meðferðar. Umboðsmaður beindi hins vegar þeim tilmælum til ráðuneytisins að gæta framvegis betur að þeim sjónarmiðum sem gerð var grein fyrir í álitinu. Jafnframt sendi hann afrit af álitinu til fangelsismálastofnunar og sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 26. febrúar 2015 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins frá 17. nóvember 2014. Með úrskurðinum voru staðfestar ákvarðanir Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar við embætti sýslumannsins á Blönduósi um að hafna beiðni A um niðurfellingu sakarkostnaðar annars vegar og hins vegar að gera A að afplána vararefsingu fésektar í fangelsi. Athugasemdir í kvörtun A til mín lúta að því að hann hafi verið boðaður til afplánunar vararefsingar fésektar án viðvörunar og hann hafi verið settur í fangelsi á ólöglegan hátt. Þá eru gerðar athugasemdir við synjun stjórnvalda á beiðni A um niðurfellingu sakarkostnaðar og aðbúnað í fangelsinu.

Með bréfi til A, dags. í dag, hef ég lokið athugun minni um þá þætti kvörtunar hans sem lúta að niðurfellingu sakarkostnaðar og aðbúnaði í því fangelsi þar sem hann var látinn afplána vararefsingu fésektar. Umfjöllun mín í þessu áliti er því afmörkuð við staðfestingu ráðuneytisins á þeirri ákvörðun Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar við embætti sýslumannsins á Blönduósi um að gera A að afplána vararefsingu fésektar í fangelsi.

Eins og nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir tók innheimtumiðstöðin ákvörðun um að A skyldi afplána vararefsingu fésektar í fangelsi þar sem hann hefði ekki sinnt áskorunum um að greiða tileknar sektir. Í framhaldinu sótti A um að fullnusta refsinguna með samfélagsþjónustu. Fangelsismálastofnun ákvað að verða við umsókninni enda féllist hann með undirritun sinni á þau skilyrði sem sett væru fyrir samfélagsþjónustu. Vegna þess að A undirritaði aldrei skilyrðin og hóf aldrei samfélagsþjónustu óskaði innheimtumiðstöðin eftir því að hann yrði handtekinn og færður til afplánunar í fangelsi. Af úrskurði ráðuneytisins og skýringum til mín verður ráðið að niðurstaða þess hafi verið reist á þeirri forsendu að ákvörðun fangelsismálastofnunar um samfélagsþjónustu hafi ekki verið í gildi eða haft réttaráhrif þar sem A gekkst ekki skriflega undir skilyrði samfélagsþjónustu. Því hafi innheimtumiðstöðinni verið heimilt að fara fram á að A yrði færður í fangelsi í samræmi við upphaflega ákvörðun innheimtumiðstöðvarinnar um afplánun vararefsingar fésektar í fangelsi. Athugun mín hefur lotið að því hvort þessi afstaða ráðuneytisins sé í samræmi við lög.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 13. september 2016.

II Málavextir

Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar við embætti sýslumannsins á Blönduósi birti A ákvörðun 26. nóvember 2012 um afplánun vararefsingar fésekta í fangelsi vegna tiltekins dóms og viðurlagaákvörðunar sem hann hafði ekki greitt. Í samræmi við leiðbeiningar í ákvörðuninni sótti A um að fullnusta refsingunni með samfélagsþjónustu með umsókn, dags. 27. nóvember 2012. Með bréfi fangelsismálastofnunar, dags. 3. desember 2013, var A tilkynnt að stofnunin hefði í samræmi við 1. mgr. 72. gr., sbr. 1. mgr. 29. gr., laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, ákveðið að verða við umsókn hans enda féllist hann á þau skilyrði sem sett væru fyrir samfélagsþjónustu. Í gögnum málsins er jafnframt að finna óundirritað eyðublað, dags. 3. desember 2013, þar sem gerð er grein fyrir þeim skilyrðum í samfélagsþjónustu sem A bar að undirgangast með undirritun sinni.

Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins fékk A upplýsingar um að hann ætti að hefja störf 5. desember 2013. Áður en kom að því hafði hann samband við embætti sýslumannsins á Blönduósi og kvaðst ekki geta unnið á viðkomandi stað vegna hávaða. Hann óskaði eftir því að fá að gegna samfélagsþjónustu á tilteknum öðrum stað og var fallist á það. Af gögnum málsins verður ráðið að A hafi ekki heldur hafið samfélagsþjónustu á þeim stað. Þá kemur fram í gögnum málsins að A hafi verið boðið að gegna samfélagsþjónustu á geðdeild í samráði við geðlækni þar. Frekari upplýsingar um samskipti A við stjórnvöld í tilefni af ákvörðun fangelsismálastofnunar liggja ekki fyrir í þeim gögnum sem mér hafa borist. Aftur á móti segir um framhald málsins, í umsögn embættis sýslumannsins á Blönduósi í tilefni af stjórnsýslukæru A til innanríkisráðuneytisins, eftirfarandi:

„Sekt vegna dóms [...] var fyrnd og afskrifuð [í desember] 2013. Fyrning viðurlagaákvörðunar [...] var [í mars] 2014. Þar sem [A] hafði hvorki sinnt því að mæta til vinnu til að afplána með samfélagsþjónustu eða verið í sambandi við geðlækni sinn til að fá að afplána á geðdeild var gefin út handtökuskipun þann 17. febrúar [2014] og óskað eftir því að [A] yrði færður til afplánunar eftirstöðva vararefsingar [tiltekna daga]. Hann afplánaði [tiltekna daga] vararefsingu en móðir hans greiddi svo [...] kr. og var hann því látinn laus.

[A] kvartar yfir því í bréfi sínu að hafaekki fengið 3ja vikna frest til þess að greiða kröfuna áður en til afplánunar kæmi. Í ákvörðun um afplánun vararefsingar sem hann kvittar undir kemur fram að ef boðun sé ekki sinnt megi hann búast við handtöku og verða færður til afplánunar án frekari fyrirvara. Þá er margsinnis búið að tilkynna honum þetta í síma frá starfsmönnum fyrrgreindra stofnana að með því að hunsa þau vægari úrræði sem honum voru boðin, eins og að afplánun með samfélagsþjónustu eða á geðdeild, þá megi hann búast við handtöku og að þurfa afplána í fangelsi.“

Líkt og fram kemur í ofangreindri umsögn var handtökuskipun á hendur A gefin út 17. febrúar 2014. Á grundvelli hennar var hann handtekinn næsta dag og færður til afplánunar vararefsingar fésektar á tilteknum stað þar til hann var látinn laus gegn greiðslu eftirstöðva fésektarinnar.

A leitaði með erindi 25. febrúar 2014 til innanríkisráðuneytisins þar sem hann gerði m.a. athugasemdir við að hann hefði verið handtekinn án fyrirvara og án þess að honum hefði gefist kostur á að greiða sektina til að komast hjá afplánun vararefsingar. Ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu 17. nóvember 2014. Niðurstaða ráðuneytisins hvað varðar þennan þátt erindis A var að staðfesta ákvörðun Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar um að láta hann fullnusta vararefsingu með fangelsisvist. Í forsendum úrskurðarins sagði eftirfarandi:

„Hvað varðar ákvörðun um fullnustu vararefsingar með fangelsisvist vísar ráðuneytið til þess að í ákvörðun um afplánun vararefsingar, sem [A] ritaði undir, kemur fram að ef boðun sé ekki sinnt megi [A] búast við handtöku og verða færður til afplánunar án frekari fyrirvara. Þá hafi [A] verið tilkynnt að með því að hunsa þau vægari úrræði sem honum hafi staðið til boða, s.s. með samfélagsþjónustu eða afplánun á geðdeild, mætti hann búast við handtöku og þurfa að afplána í fangelsi. Liggur fyrir að [A] sinnti því ekki að mæta til vinnu til að afplána með samfélagsþjónustu. Þá var [A] ekki í sambandi við geðlækni sinn til að afplána á geðdeild. Í ljósi þessa gerir ráðuneytið ekki athugasemdir við þá ákvörðun að láta [A] fullnusta vararefsingu með fangelsisvist.“

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda

Gögn málsins bárust frá innanríkisráðuneytinu með bréfi, dags. 13. apríl 2015, samkvæmt beiðni þar um. Með bréfi, dags. 23. júní 2015, óskaði ég eftir frekari upplýsingum og skýringum frá ráðuneytinu og bárust mér þær með bréfi, dags. 5. janúar 2016. Í bréfi mínu til ráðuneytisins óskaði ég m.a. eftir upplýsingum um hvort ákvörðun Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar við embætti sýslumannsins á Blönduósi frá 16. október 2012, sem birt var A 26. nóvember það ár samkvæmt birtingarvottorði þar um, hefði verið sú ákvörðun sem staðfest var með úrskurði ráðuneytisins 17. nóvember 2014. Hefði svo verið óskaði ég jafnframt eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort réttaráhrif þeirrar ákvörðunar hefðu verið í gildi þegar A var handtekinn og færður til afplánunar vararefsingarinnar í fangelsi hinn 18. febrúar 2014.

Í svari ráðuneytisins sagði eftirfarandi um þennan þátt málsins:

„Varðandi fyrstu athugasemd yðar er það rétt skilið að með úrskurði ráðuneytisins var staðfest ákvörðun innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar, dags. 16. október 2012, sem birt var [A] þann 26. sama mánaðar [á að vera nóvember]. Hefði það eflaust mátt koma skýrar fram í úrskurði ráðuneytisins s.s. með því að tiltaka dagsetningu ákvörðunar innheimtumiðstöðvar og mun ráðuneytið gæta þess framvegis. Ráðuneytið telur að réttaráhrif þeirrar ákvörðunar hafi verið í gildi þegar [A] var handtekinn og færður til afplánunar þann 18. febrúar 2014. Er til þess að líta að þegar Fangelsismálastofnun samþykkti umsókn [A] um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu var samþykkið háð því að [A] uppfyllti ákveðin skilyrði. Svo sem fram kemur í gögnum málsins stóð til að [A] myndi hitta yfirlögregluþjón [á tilteknum stað] og samþykkja skilyrði samfélagsþjónustu með undirritun sinni um leið og hann myndi hefja störf vegna samfélagsþjónustu [á tilteknum stað]. [A] mætti ekki til vinnu og óskaði í kjölfarið eftir að mega starfa á [tilteknum stað] sem var fallist á. Þar mætti [A] ekki heldur til starfa. [A] stóð einnig til boða að afplána vararefsingu á geðdeild í samráði við geðlækni.

Þar sem [A] hafði hvorki mætt til vinnu til að afplána samfélagsþjónustu né var í sambandi við geðlækni sinn vegna afplánunar á geðdeild kom aldrei til þess að [A] gengist undir skilyrði samfélagsþjónustu með undirritun sinni. Þar sem heimildin til að afplána vararefsingu var skilyrt og [A] undirgekkst aldrei skilyrðin var það mat ráðuneytisins að réttaráhrif ákvörðunar frá 16. október 2012 væru í gildi þegar [A] var færður til afplánunar í febrúar 2014. Hins vegar hefði framangreint mátt koma fram með skýrum hætti í úrskurði ráðuneytisins og mun ráðuneytið gæta þess í framtíðinni við meðferð samkynja mála.“

Athugasemdir A við bréf ráðuneytisins bárust 13. janúar 2016. Hinn 22. apríl 2016 bárust frekari gögn frá fangelsismálastofnun samkvæmt beiðni þar um.

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagagrundvöllur málsins

Í málinu reynir á ákvarðanir um fullnustu vararefsingu fésekta í fangelsi og með samfélagsþjónustu en um það er fjallað í lögum um fullnustu refsinga. Atvik málsins áttu sér stað í gildistíð laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, og hefur umfjöllun mín í álitinu tekið mið af því en lögin féllu úr gildi 30. mars 2016 við gildistöku laga nr. 15/2016, um sama efni.

Í 1. mgr. 71. gr. laga nr. 49/2005 var fjallað um vararefsingu. Þar sagði í 1. mgr. m.a. að nú teldi lögreglustjóri að innheimtuaðgerðir væru þýðingalausar eða fullreyndar og skyldi hann þá ákveða að vararefsingu yrði beitt. Að höfðu samráði við fangelsismálastofnun skyldi sektarþola send tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar.

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. var heimilt að fullnusta vararefsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Fullnusta vararefsingar með samfélagsþjónustu hófst þegar sektarþoli gekkst skriflega undir skilyrði samfélagsþjónustu, sbr. 4. mgr. 72. gr. Umsókn um afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu skyldi send lögreglustjóra sem framsendi hana fangelsismálastofnun ásamt umsögn sinni. Að öðru leyti giltu ákvæði II. kafla laganna um samfélagsþjónustu þegar vararefsing var fullnustuð með samfélagsþjónustu, sbr. 73. gr. laganna.

Ákvæði II. kafla laga nr. 49/2005 er varða samfélagsþjónustu var að finna í 27.-31. gr. þeirra. Í 27. gr. var fjallað um samfélagsþjónustu. Í 28. gr. var fjallað um skilyrði samfélagsþjónustu og í 29. gr. um ákvörðun um samfélagsþjónustu. Í 30. gr. var fjallað um skilyrði í samfélagsþjónustu. Í 31. gr. var loks fjallað um rof á skilyrðum samfélagsþjónustu og afturköllun ákvörðunar um samfélagsþjónustu.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laganna ákvað fangelsismálastofnun hvort fangelsisrefsing yrði fullnustuð með samfélagsþjónustu og hvaða samfélagsþjónustu dómþoli sinnti í hverju tilviki. Sama gilti um á hve löngum tíma samfélagsþjónusta skyldi innt af hendi en sá tími skyldi þó aldrei vera skemmri en tveir mánuðir. Samkvæmt 2. mgr. skyldi þegar hafna umsókn um samfélagsþjónustu ef umsækjandi uppfyllti ekki skilyrði samkvæmt 1., 2. og 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. Ef sérstakar ástæður mæltu með var þó heimilt að víkja frá þeim skilyrðum. Samkvæmt 3. mgr. skyldi fresta fullnustu fangelsisrefsingar þegar umsókn var tekin til efnislegrar meðferðar þar til ákvörðun um afgreiðslu hennar lægi fyrir, enda fremdi dómþoli ekki refsiverðan verknað á þeim tíma.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laganna skyldi samfélagsþjónusta bundin þeim skilyrðum að dómþoli gerðist ekki sekur um refsiverðan verknað á þeim tíma sem samfélagsþjónusta væri innt af hendi og að hann sætti umsjón og eftirliti fangelsismálastofnunar eða annars aðila sem hún ákvæði þegar samfélagsþjónusta væri innt af hendi. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins mátti auk þess ákveða að samfélagsþjónusta yrði bundin þeim skilyrðum að dómþoli hlítti fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstað, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa og að hann neytti ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna. Í 3. mgr. 30. gr. var tekið fram að áður en fullnusta á fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu hæfist skyldi kynna dómþola ítarlega þær reglur sem giltu um samfélagsþjónustu og staðfesting hans fengin á því að hann vildi hlíta þeim. Sama gilti um viðbrögð við brotum á þessum reglum.

Í 2. mgr. 31. gr. laganna sagði að væri dómþoli kærður fyrir að hafa framið refsiverðan verknað eða teldist ekki lengur hæfur til að gegna samfélagsþjónustu, eftir að ákveðið hefði verið að fullnusta fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu, og gæti fangelsismálastofnun þá ákveðið að ákvörðun um fullnustu með samfélagsþjónustu yrði afturkölluð og að dómþoli afplánaði refsinguna í fangelsi.

2 Var úrskurður innanríkisráðuneytisins reistur á réttum lagagrundvelli?

Eins og áður sagði var A handtekinn og færður í fangelsi til að afplána vararefsingu fésektar 18. febrúar 2014. Í framhaldi af kæru A staðfesti innanríkisráðuneytið ákvörðun Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar við embætti sýslumannsins á Blönduósi frá 16. október 2012, þar sem upphaflega var ákveðið að A skyldi afplána vararefsingu fésektar í fangelsi. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist á því að réttaráhrif þeirrar ákvörðunar hefðu enn verið í gildi þegar A var handtekinn og færður til afplánunar þrátt fyrir að fangelsismálastofnun hefði í millitíðinni tekið ákvörðun um fullnustu vararefsingarinnar með samfélagsþjónustu. Í því sambandi byggði ráðuneytið á því að ákvörðun fangelsismálastofnunar hefði verið háð því skilyrði að A undirgengist ákveðin skilyrði með undirritun sinni sem hann aldrei gerði. Þá mætti hann aldrei til að gegna samfélagsþjónustu á þeim stöðum sem til stóð að hann myndi vinna á. Athugun mín lýtur að því hvort þessi afstaða ráðuneytisins sé í samræmi við lög.

Eftir að lögreglustjóri tekur ákvörðun um að vararefsingu fésektar verði beitt samkvæmt 1. mgr. 71. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, er heimilt að sækja um að hún verði fullnustuð með samfélagsþjónustu að nánari skilyrðum fullnægðum samkvæmt 1. mgr. 72. gr. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. er það fangelsismálastofnun en ekki lögreglustjóri sem tekur ákvörðun um hvort fallist verði á umsókn. Þegar umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar af hálfu fangelsismálastofnunar er fullnustu fangelsisrefsingar frestað þar til ákvörðun um afgreiðslu hennar liggur fyrir, sbr. 3. mgr. 29. gr. Fallist fangelsismálastofnun á að vararefsingu verði fullnustað með samfélagsþjónustu leiðir af þeirri ákvörðun að réttaráhrif hennar koma í ákveðnum skilningi í stað réttaráhrifa ákvörðunar lögreglustjóra um að vararefsingu fésektar verði beitt og hún fullnustuð í fangelsi. Þegar fangelsismálastofnun hefur fallist á umsókn um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu er fullnusta refsingarinnar lögð í þann farveg. Lögreglustjóra er þá ekki heimilt að öðru óbreyttu að leggja málið í þann farveg að vararefsingu verði fullnustað í fangelsi. Afturkalli fangelsismálastofnun aftur á móti ákvörðun sína getur dómþoli þurft að afplána refsinguna í fangelsi, sbr. t.d. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 49/2005.

Í bréfi fangelsismálastofnunar til A, dags. 3. desember 2013, var tekið fram að stofnunin hefði ákveðið að „verða við umsókninni“ um afplánun vararefsingarinnar með samfélagsþjónustu, „enda [féllist hann], með undirritun [sinni], á þau skilyrði sem sett [væru] fyrir samfélagsþjónustu“. Ekki verður önnur ályktun dregin af bréfinu, sem og eyðublaði dagsettu sama dag með skilyrðum í samfélagsþjónustu, en að fangelsismálastofnun hefði tekið ákvörðun um að vararefsingunni yrði fullnustað með samfélagsþjónustu. Í þessu sambandi tek ég fram að af uppbyggingu II. kafla laga nr. 49/2005 og samspili og efni ákvæða 28. og 29. gr. þeirra verður dregin sú ályktun að ákvörðun um samfélagsþjónustu samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu byggist m.a. á því hvort skilyrðum samfélagsþjónustu samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu sé fullnægt. Þegar fangelsismálastofnun hefur tekið ákvörðun samkvæmt 29. gr., sbr. 1. mgr. 72. gr., laganna er hún bindandi eftir að hún hefur verið birt aðila, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Réttaráhrif ákvörðunar fangelsismálastofnunar voru því í gildi eftir að hún hafði verið birt A.

Líkt og að framan greinir var í ákvörðun fangelsismálastofnunar tekið fram að A yrði með undirritun sinni að fallast á þau skilyrði sem væru sett fyrir samfélagsþjónustu. Í 30. gr. laga nr. 49/2005 er kveðið á um skilyrði í samfélagsþjónustu, þ.e. þau skilyrði sem dómþoli þarf að hlíta meðan hann sinnir samfélagsþjónustu. Framannefnt skilyrði í ákvörðun fangelsismálastofnunar var í samræmi við 3. mgr. 30. gr. Í því ákvæði er m.a. kveðið á um að áður en að fullnusta á fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu hefst skuli kynna dómþola ítarlega reglur sem gilda um samfélagsþjónustu og staðfesting hans fengin á því að hann vilji hlíta þeim. Þegar litið er til staðsetningar og efnis ákvæðisins auk samspils þess við 28., 29. og 31. gr. verður ráðið að ekki er um að ræða skilyrði sem verður að uppfylla til að ákvörðun um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu verði tekin samkvæmt 29. gr. Þannig verður ekki séð að umrætt skilyrði hafi áhrif á gildi ákvörðunar fangelsismálastofnunar um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu. Um er að ræða skilyrði sem dómþoli verður að fullnægja eftir að slík ákvörðun hefur verið tekin og með því að undirgangast skilyrðið hefst fullnusta refsingarinnar. Til stuðnings þessu segir einnig í 4. mgr. 72. gr. að fullnusta vararefsingar með samfélagsþjónustu hefjist þegar sektarþoli gengst skriflega undir skilyrði samfélagsþjónustu en þar er t.d. ekki vísað til gildis ákvörðunar um fullnustu með samfélagsþjónustu.

Í lögunum er þannig gerður greinarmunur á annars vegar ákvörðun um fullnustu refsingar með samfélagsþjónustu og skilyrðum hennar, sbr. 28. og 29. gr., og hins vegar hvaða skilyrðum dómþoli skuli hlíta í samfélagsþjónustu og hvernig skuli bregðast við rjúfi hann þau skilyrði, sbr. 30. og 31. gr. Af orðalagi skilyrðisins í ákvörðun fangelsismálastofnunar og 3. mgr. 30. gr. laganna verður hvorki dregin sú ályktun að ákvörðunin taki ekki gildi fyrr en dómþoli staðfesti að hann vilji hlíta skilyrðum í samfélagsþjónustu né að ákvörðunin falli af þeim sökum sjálfkrafa úr gildi. Í því sambandi verður einnig að hafa í huga að skilyrðið er ekki bundið við tiltekið tímamark og það er í höndum fangelsismálastofnunar en ekki lögreglustjóra að taka ákvörðun um hvenær dómþoli telst hafa hafnað að undirgangast skilyrðin. Þessi niðurstaða er einnig í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar, þ.e. að þörf er á að afturkalla stjórnvaldsákvörðun með formlegum hætti. Þá er einnig að líta til þess að í lögunum er gert ráð fyrir að rjúfi dómþoli skilyrði samfélagsþjónustu geti fangelsismálastofnun afturkallað ákvörðun sína, sbr. 2. mgr. 31. gr. Ég tel eðlilegt að sama regla gildi þegar dómþoli neitar að undirgangast þau skilyrði.

Af framangreindu leiðir að hafi það verið mat stjórnvalda að fullnusta vararefsingar með samfélagsþjónustu væri fullreynd var þörf á að fangelsismálastofnun afturkallaði fyrri ákvörðun sína með formlegum hætti. Ekki verður séð að fangelsismálastofnun hafi tekið slíka ákvörðun. Það breytir ekki framangreindu þótt A hafi verið tilkynnt um að ef hann nýtti ekki þau vægari úrræði sem stæðu honum til boða mætti hann búast við handtöku og að þurfa að afplána í fangelsi enda koma slíkar fyrirfram tilkynningar ekki í stað formlegrar ákvörðunar sem er birt aðila. Enn síður hefur það þýðingu að í upphaflegri ákvörðun lögreglustjóra um vararefsingu fésektar hafi verið tekið fram að hann mætti búast við handtöku ef hann sinnti ekki boðun og verða færður til afplánunar án frekari fyrirvara enda sótti hann um samfélagsþjónustu eftir það og var fallist á þá umsókn hans af hálfu fangelsismálastofnunar. Þá tek ég fram að það gat heldur ekki breytt nauðsyn þess að afturkalla ákvörðun fangelsismálastofnunar að skammur tími var þar til að sú viðurlagaákvörðun sem var grundvöllur sektarinnar myndi fyrnast.

Hér verður einnig að líta til þeirra hagsmuna sem eru undir í þessum málum en það er frelsi manna sem nýtur verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í síðarnefnda ákvæðinu segir að engan mann skuli svipta frelsi nema í tilteknum tilvikum og þá „í samræmi við þá málsmeðferð sem segir í lögum“. Það er því mikilvægt að gætt sé að þeim form- og málsmeðferðarreglum sem eiga við í þessum málum. Þar sem fyrri ákvörðun fangelsismálastofnunar, dags. 3. desember 2013, var ekki afturkölluð var lögreglustjóranum ekki heimilt að handtaka A með vísan til ákvörðunarinnar frá 16. október 2012, sem birt var honum 26. nóvember sama ár. Það er því álit mitt að úrskurður innanríkisráðuneytisins hafi að þessu leyti ekki verið reistur á réttum lagagrundvelli.

V Niðurstaða

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að úrskurður innanríkisráðuneytisins í máli A frá 17. nóvember 2014, þar sem staðfest var ákvörðun Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar við embætti sýslumannsins á Blönduósi frá 16. október 2012 um að beita A vararefsingu fésektar, hafi ekki verið reistur á réttum lagagrundvelli.

Í ljósi þess að A hefur þegar afplánað hluta vararefsingarinnar í fangelsi og greitt eftirstöðvar sektarinnar tel ég ekki tilefni til að beina því til ráðuneytisins að taka mál hans til nýrrar meðferðar. Telji A að framangreindur annmarki eigi að leiða til bótaskyldu ríkisins verður það að vera verkefni dómstóla að skera úr um það.

Ég beini því þó til ráðuneytisins að gæta framvegis betur að þeim sjónarmiðum sem gerð er grein fyrir í álitinu. Jafnframt hef ég ákveðið að senda afrit af álitinu til fangelsismálastofnunar og sýslumannsins á Norðurlandi vestra, sem hefur nú með höndum það verkefni að innheimta sektir og sakarkostnað.

VI Viðbrögð stjórnvalda

Í bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 16. mars 2017, í tilefni af fyrirspurn um málið, kemur fram að ráðuneytið muni eftirleiðis gæta þeirra sjónarmiða sem fram koma í álitinu.