Heilbrigðismál. Undirbúningur stjórnvalds vegna tilkynningar til landlæknis. Eftirlit landlæknis. Óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 8715/2015)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði m.a. yfir vinnubrögðum Heilbrigðisstofnunar X í tengslum við tilkynningu X til landlæknis vegna meints ástands A í útkalli. Kvörtunin laut að því að X hefði ekki gefið A kost á að tjá sig um málið áður en því var vísað til landlæknis. Einnig hefði A verið synjað um aðgang að tilteknum gögnum málsins.

Í tilkynningu X til landslæknis var m.a. greint frá upplýsingum sem X hafði borist um meint ástand A í útkallinu. Upplýsingarnar voru taldar varða við tiltekið ákvæði í lögum um heilbrigðisstarfsmenn um að óheimilt væri að starfa undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. A var ekki veittur kostur á að tjá sig um þessar upplýsingar áður en X tilkynnti málið til landlæknis. Þá synjaði X beiðni A um aðgang að tilkynningum þeirra aðila sem veittu upplýsingar um meint ástand hans í útkallinu. Athugun landlæknis á málinu var síðar felld niður eftir fund með A þar sem hann skýrði mál sitt.

Umboðsmaður taldi að tilkynning X til landlæknis hefði ekki verið stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga. Stjórnsýslulögin giltu aðeins um þau mál þar sem til greina kæmi að taka stjórnvaldsákvörðun. Á hinn bóginn þyrfti að gæta að því að við aðrar athafnir stjórnvalda giltu óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar sem hefðu víðtækara gildissvið en stjórnsýslulögin. Áður en heilbrigðisstofnun færi þá leið að beina erindi til landlæknis á þeim grundvelli að heilbrigðisstarfsmaður hefði ekki fylgt reglum í starfi sínu eða vikið frá eðlilegum starfsháttum yrði viðkomandi stofnun almennt að leitast við að upplýsa það nægjanlega hvort tilefni væri til slíkrar tilkynningar og eftir atvikum að veita viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni færi á að skýra atvik málsins frá sínu sjónarhorni. Umboðsmaður taldi með hliðsjón af eðli þeirra upplýsinga sem um ræddi og atvika málsins að X hefði, á grundvelli óskráðra grundvallarreglna um rannsókn máls, borið að upplýsa málið betur með því að gefa A kost á að tjá sig um þær upplýsingar sem bárust um meint ástand hans í útkallinu og tiltekin önnur atriði áður en landlækni var tilkynnt um málið.

Umboðsmaður taldi að um aðgang A að tilkynningum þeirra aðila sem tilkynntu um meint ástand hans í útkallinu færi eftir upplýsingalögum. X hefði því ekki leyst úr beiðni A um aðgang að gögnum málsins á réttum lagagrundvelli. Þar sem A hefði ekki borið synjun X á að veita honum aðgang að gögnum málsins undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að hann gæti fjallað nánar um þennan þátt málsins.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til X að leysa úr beiðni A um aðgang að tilteknum gögnum málsins, ef slík beiðni kæmi frá honum, í samræmi við þau sjónarmið sem lýst væri í álitinu og taka jafnframt að öðru leyti framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem þar kæmu fram. Umboðsmaður ákvað enn fremur að senda velferðarráðuneytinu og landlækni afrit af álitinu. Þá tók hann fram að afriti af álitinu fylgdi bréf sem hann hefði sent velferðarráðuneytinu en bréfið væri birt á heimasíðu embættis hans undir málsnúmeri þessa máls.