Opinberir starfsmenn. Endurupptaka. Andmælaréttur. Eftirlit landlæknis. Svör stjórnvalds við meðferð eftirlitsmáls hjá landlækni.

(Mál nr. 8820/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Landspítalans um að synja beiðni hennar um endurskoðun á ákvörðun um að veita henni áminningu í starfi sem hjúkrunarfræðingur. Beiðni A um endurskoðun málsins byggði á niðurstöðu landlæknis í eftirlitsmáli þar sem ekki var talið tilefni til að gera athugasemdir við viðbrögð A við því atviki sem lá til grundvallar áminningunni. Kvörtunin laut m.a. að því að A hefði ekki fengið að tjá sig um upplýsingar sem spítalinn aflaði áður en beiðni hennar um endurskoðun var synjað.

Umboðsmaður taldi að erindi A hefði falið í sér beiðni um endurupptöku áminningarmálsins og borið hefði að fylgja stjórnsýslulögum við meðferð þess. Í málinu lá fyrir að þegar beiðni barst um endurupptöku málsins aflaði Landspítalinn álits læknis innan spítalans, sérfræðings á sviði smitsjúkdóma og sýkingavarna, til að leggja mat á það atvik sem lá til grundvallar áminningunni og niðurstöðu landlæknis. A fékk ekki að kynna sér álitið og tjá sig um það áður en Landspítalann synjaði beiðni hennar um endurskoðun málsins. Umboðsmaður taldi að með öflun sérfræðiálitsins hefðu nýjar upplýsingar og gögn bæst við málið sem A hefði verið ókunnugt um. Einnig væri ótvírætt að álit læknisins hefði að geyma upplýsingar sem væru A í óhag og þá hefðu þær haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Með vísan til þessa var það niðurstaða umboðsmanns að um nýja málsmeðferð hefði verið að ræða í tilefni af beiðni A um endurupptöku málsins og borið hefði að gefa henni færi á að tjá sig um sérfræðiálitið áður en ákvörðun var tekin í málinu. Þar sem það var ekki gert hefði meðferð málsins ekki verið í samræmi við andmælareglu stjórnsýslulaga.

Við meðferð málsins hjá landlækni var Landspítalanum bent á að lýsing A á málsatvikum væri frábrugðin lýsingu stjórnenda spítalans á þeim og var m.a. óskað eftir afstöðu spítalans til þessa. Í svari Landspítalans var í engu vikið að þessu atriði málsins. Umboðsmaður taldi að skortur á viðbrögðum og svörum af hálfu Landspítalans við beiðnum landlæknis um frekari upplýsingar um málsatvik hefði ekki verið í samræmi við ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Landspítalans að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk um það frá henni, og leysa þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Jafnframt beindi hann því til Landspítalans að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. Umboðsmaður ákvað enn fremur að senda velferðarráðuneytinu og landlækni afrit af álitinu. Þá tók hann fram að afriti af álitinu fylgdi bréf sem hann hefði sent velferðarráðuneytinu en bréfið væri birt á heimasíðu embættis hans undir málsnúmeri þessa máls.