Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Rannsóknarregla.

(Mál nr. 9258/2017)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem staðfest var synjun forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að samantekt um síma- og tölvumál fyrir ráðherra. A taldi m.a. að rannsókn nefndarinnar hefði verið ábótavant þar sem nefndin hefði ekki haft samantektina undir höndum þegar hún úrskurðaði í málinu.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggðist á því að nefndin taldi sig ekki hafa forsendur til að draga í efa að samantektin hefði verið gerð fyrir fund ráðherra og væri þar með undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Umboðsmaður taldi að af þeim gögnum sem nefndin hafði undir höndum þegar hún úrskurðaði í málinu yrði ekki séð að þar hefði komið skýrlega fram að samantektin hefði verið gerð fyrir fund ríkisstjórnar eða ráðherra. Brýnt hefði verið að fá nánari upplýsingar eða skýringar frá ráðuneytinu um þetta atriði og fá skýra afstöðu til þess hvort svo hefði verið og þá eftir atvikum hvaða fund. Slíkar upplýsingar hefðu verið nauðsynlegar til þess að nefndin gæti tekið efnislega rétta ákvörðun í málinu. Þá hefði nefndinni verið fært að óska eftir afriti samantektarinnar. Niðurstaða umboðsmanns var að málsmeðferð nefndarinnar í máli A hefði ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og haga þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu. Jafnframt mæltist hann til þess að nefndin tæki mið af þeim sjónarmiðum í framtíðar störfum sínum.