Skipulags- og byggingarmál. Úrskurðarhlutverk. Rökstuðningur. Rannsóknarregla.

(Mál nr. 9116/2016)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem synjað var kröfu hans um ógildingu byggingarleyfis sveitarfélagsins X. Með úrskurðinum var einnig vísað frá þeim þætti kærunnar sem laut að athugasemdum við deiliskipulag sem var grundvöllur byggingarleyfisins. A byggði meðal annars á því að deiliskipulagið hefði ekki verið birt í Stjórnartíðindum með fullnægjandi hætti þar sem nafn þess svæðis sem skipulagið átti að taka til og landnúmer þess var ranglega tilgreint í auglýsingunni.

Frávísun úrskurðarnefndarinnar á þeim hluta kærunnar sem laut að annmörkum á deiliskipulaginu byggðist á því að kærufrestur vegna skipulagsins hefði verið útrunninn. Að því leyti sem kæran laut að útgáfu byggingarleyfisins tók nefndin hana til efnismeðferðar en taldi að álitamál um deiliskipulagið gætu af framangreindum ástæðum ekki komið til skoðunar við umfjöllun um leyfið.

Settur umboðsmaður Alþingis benti á að deiliskipulagsáætlanir væru að jafnaði lögbundinn réttargrundvöllur byggingarleyfa. Af því leiddi að þegar úrskurðarnefndin hefði til umfjöllunar kæru vegna byggingarleyfis og fyrir lægju upplýsingar um að verulegir annmarkar kynnu að vera á viðkomandi deiliskipulagi, sem haft gætu í för með sér að byggingarleyfið styddist ekki við lögbundinn grundvöll, gæti nefndin ekki vikið sér undan því að taka slíka þætti til nánari skoðunar í ljósi úrskurðarhlutverks síns. Kærufrestir vegna deiliskipulagsins sjálfs breyttu þessu ekki. Settur umboðsmaður gerði athugasemdir við að ekki yrði séð af úrskurðinum hvort nefndin hefði tekið afstöðu til réttaráhrifa annmarka á auglýsingu deiliskipulagsins og þýðingar þeirra fyrir byggingarleyfið. Þar sem formleg afstaða til þess hvort auglýsingin hefði verið birt með fullnægjandi hætti varð ekki ráðin af úrskurðinum var það álit setts umboðsmanns að rökstuðningur nefndarinnar hefði að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög. Þá yrði ekki séð hvort nefndin hefði rannsakað málið með fullnægjandi hætti og reist niðurstöðu sína á réttum lagagrundvelli.

Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og haga þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að hún tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum í störfum sínum.