Menntamál. Framhaldsskólar. Ótímabundin brottvísun. Meðalhófsregla. Leiðbeiningarskylda. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Réttur manns til að teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð með dómi. Málshraðaregla. Svör stjórnvalda til umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 8749/2015)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Menntaskólans X um að vísa honum úr skólanum á vorönn 2015 og úrskurði mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem sú ákvörðun var staðfest. Brottvísunin byggðist á því að A hefði orðið uppvís að því að bera hníf í skólanum og birta óviðeigandi mynd af skólasystur sinni á lokaðri Facebook-síðu. Að mati stjórnvalda var um svo alvarlega háttsemi að ræða að rétt væri að vísa honum úr skólanum út önnina.
Settur umboðsmaður taldi með vísan til atvika málsins, þess að A var ólögráða barn að lögum þegar þau áttu sér stað, sjónarmiða um eðli brotanna, lögbundins réttar nemenda til skólagöngu í framhaldsskóla allt til 18 ára aldurs, hlutverks og markmiða framhaldsskólamenntunar sem og eðlis úrræða til að takast á við hegðunarvanda nemanda að ákvörðun X um að vísa A ótímabundið úr skólanum hefði ekki verið í samræmi við meðalhófsreglur stjórnsýslulaga og laga um framhaldsskóla. Settur umboðsmaður taldi því að úrskurður ráðuneytisins þar sem ákvörðun skólans var staðfest hefði ekki verið í samræmi við lög.
Jafnframt var talið að þær leiðbeiningar sem A voru veittar af hálfu ráðuneytisins um að bíða með að sækja um skólavist á ný á meðan málið væri til meðferðar hjá ráðuneytinu hefðu ekki verið í samræmi við lög. Þá taldi settur umboðsmaður að sá þáttur í meðferð málsins sem laut að því að útvega A skólavist að nýju hefði ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.
Þá var það álit setts umboðsmanns að tiltekið orðalag sem viðhaft var í umsögn lögmanns Menntaskólans X um stjórnsýslukæru A, sem gerð var fyrir hönd framhaldsskólans, hefði ekki samrýmst ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um að hver sá sem borinn væri sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Settur umboðsmaður taldi að ráðuneytinu hefði borið, á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna, að koma á framfæri ábendingum til Menntaskólans X um orðalag í umsögn lögmannsins sem sett var fram í nafni skólans.
Loks var talið að málsmeðferð ráðuneytisins á stjórnsýslukæru A hefði ekki verið í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga og jafnframt taldi hann að sá dráttur sem varð á svörum ráðuneytisins við bréfi hans hefði ekki samrýmst lögum.
Þeim tilmælum var beint til ráðuneytisins að leitað yrði leiða til að rétta hlut A. Þá var mælst til þess að ráðuneytið gerði ráðstafanir til að tryggja að nemendur, yngri en 18 ára, sem vísað væri ótímabundið úr framhaldsskóla, fengju skólavist að nýju og tæki til skoðunar hvort tilefni væri til að móta verklag og áætlun til að fyrirbyggja og bregðast við málum af því tagi sem um ræddi í álitinu og upp kæmu í framhaldsskólum. Loks var því beint til ráðuneytisins að það tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.