Börn. Endurgreiðsla meðlags í tilefni af ógildingu á faðernisviðurkenningu. Innheimtustofnun sveitarfélaga. Almennar reglur um endurheimtu ofgreidds fjár.

(Mál nr. 3395/2001)

A kvartaði yfir synjun Innheimtustofnunar sveitarfélaga á kröfu hans um endurgreiðslu á meðlagi í kjölfar dóms þar sem faðernisviðurkenning hans var ógilt vegna þess að sannað þótti að hann væri ekki raunverulegur faðir barnsins.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, og lögskýringargögn. Þá rakti hann ákvæði barnalaga nr. 20/1992. Tók hann fram að ógildingardómurinn hefði haft það í för með sér að öll réttaráhrif faðernisviðurkenningar A hefðu fallið niður. Eftir uppkvaðningu dómsins hefði einnig orðið ljóst að sú forsenda sem upphaflega lá til grundvallar greiðsluskyldu A á meðlaginu hefði verið röng. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til athugasemda við þá afstöðu Innheimtustofnunar sveitarfélaga að endurgreiðsla til A yrði ekki reist á ákvæðum laga nr. 54/1971 eða ákvæðum reglugerðar nr. 491/1996, um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Umboðsmaður taldi hins vegar að stjórn stofnunarinnar kynni að hafa verið skylt á öðrum grundvelli, t.d. almennra reglna kröfuréttar, að fjalla efnislega um hvort rétt hefði verið að verða við beiðni A að hluta eða að öllu leyti. Benti umboðsmaður á að af hálfu fræðimanna hefur verið talið að endurgreiðslukrafa manns, sem hefði ranglega talið sig föður, kunni annað hvort að vera byggð á almennum skaðabótareglum eða almennum reglum um endurheimtu ofgreidds fjár sem greitt hefur verið í rangri trú. Þá taldi umboðsmaður ekki fært að draga aðra ályktun af dómi Hæstaréttar, Hrd. 1998, bls. 408, en að þar hefði Hæstiréttur byggt afstöðu sína í sambærilegu máli á hinum almennu reglum um endurheimtu ofgreidds fjár. Í ljósi þessa tók umboðsmaður fram að hann væri ekki sammála þeirri afstöðu Innheimtustofnunar sveitarfélaga að almennar reglur um endurheimtu ofgreidds fjár gætu ekki eftir atvikum átt við í málum sem þessum.

Það var niðurstaða umboðsmanns að synjun Innheimtustofnunar sveitarfélaga á beiðni A um endurgreiðslu meðlags hefði samkvæmt framangreindu ekki verið reist á réttum lagagrundvelli. Á stofnuninni hefði hvílt sú skylda að taka efnislega afstöðu til beiðni A í samræmi við forsendur í dómi Hæstaréttar, Hrd. 1998, bls. 408, og að virtum almennum reglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár. Umboðsmaður tók fram að með niðurstöðu sinni hefði hann ekki tekið afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði átt að fallast á kröfu A að hluta eða að öllu leyti. Ítrekaði hann að niðurstaða sín hefði fyrst og fremst beinst að því hvort stofnunin hefði leyst úr máli A á réttum lagagrundvelli.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga að taka mál A til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og að fjalla þá um mál hans í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

I.

Hinn 17. desember 2001 leitaði A til mín og kvartaði yfir synjun Innheimtustofnunar sveitarfélaga á kröfu hans um endurgreiðslu á meðlagi sem hann hafði greitt fyrir tímabilið 1. desember 1999 til 1. mars 2001 með meybarni sem X fæddi 3. nóvember 1999. Með dómi frá 19. september 2001 ógilti Héraðsdómur Reykjavíkur viðurkenningu A á því að hann væri faðir barnsins sem hann gaf hjá sýslumanninum á H 21. janúar 2000.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 21. janúar 2003.

II.

Málavextir eru þeir að 21. janúar 2000 undirritaði A faðernisyfirlýsingu hjá sýslumanninum á H þar sem hann viðurkenndi að vera faðir meybarns sem X ól 3. nóvember 1999. Í kjölfar þess staðfesti sýslumaðurinn á H 24. janúar 2000 samkomulag A og X um að A greiddi meðlag með barninu frá 1. desember 1999 til 18 ára aldurs þess. Í janúar 2001 vöknuðu grunsemdir hjá A um að hann væri ekki faðir barnsins og fór hann í kjölfarið fram á að gerð yrði DNA-rannsókn til að skera úr um faðernið. Samkvæmt niðurstöðu álitsgerðar rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði, dags. 1. mars 2001, útilokaðist A frá því að vera faðir meybarns X. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2001 var faðernisviðurkenning A ógilt.

Með bréfi til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 22. október 2001, óskaði lögmaður A eftir því að stofnunin endurgreiddi höfuðstól þeirra greiðslna er A hafði innt af hendi vegna meðlaga frá 1. desember 1999 til 1. mars 2001. Var í því sambandi vísað til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, með síðari breytingum, 14. gr. reglugerðar nr. 491/1996, um innheimtu og skil á meðlögum og dóms Hæstaréttar frá 29. janúar 1998 í máli nr. 95/1997 (Hrd. 1998, bls. 408).

Innheimtustofnun sveitarfélaga svaraði bréfi A með bréfi, dags. 24. október 2001, en í því segir meðal annars svo:

„Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimti þessar kröfur skv. staðfestum samning um meðlag, dags. 24. janúar 2000. Innheimtu var svo hætt eftir að móðir barnsins hafði fallið frá meðlagsgreiðslum í mars 2001. Umbjóðandi yðar hefur greitt allar þær kröfur sem komu til innheimtu frá Tryggingastofnun ríkisins vegna útborgaðs meðlags til framfærslu barnsins.

Eins og kom fram í dómi Hæstaréttar Íslands frá 1998, bls. 408, þá er skýrt tekið fram að umrætt ákvæði 5. mgr. 5. gr. l. nr. 75/1971, sé heimildarákvæði. Eins og málið er lagt fram þá bendir ekkert til þess að endurgreiða eigi umbjóðanda yðar umbeðna fjárhæð. Ekki hefur verið sýnt fram á af hverju ætti að endurgreiða honum, þ.e. að umbjóðandi yðar falli undir þær tilteknu aðstæður sem heimila niðurfellingu, sbr. ofangreindan dóm.

Vinsamlegast leggið því fram gögn máli umbjóðanda yðar til stuðnings, en að óbreyttu er endurgreiðslubeiðni yðar hafnað.“

Hinn 14. nóvember 2001 ritaði lögmaður A á ný bréf til Innheimtustofnunar sveitarfélaga þar sem ítrekuð er beiðnin um að stofnunin endurgreiði honum höfuðstól greiddra meðlagsgreiðslna að fjárhæð 213.612 krónur. Með bréfi, dags. 3. desember 2001, svaraði Innheimtustofnun sveitarfélaga bréfi lögmannsins með svohljóðandi hætti:

„Mál umbjóðanda yðar er nokkru frábrugðið dómi Hæstaréttar Íslands 1998:408. Í þeim dómi er fundinn réttur faðir barnsins og er greiðsluskylda felld á hann.

Að svo komnu hefur ekki verið staðfest hver er réttur faðir [...] og því ekki hægt að fella greiðslur eða meðlagsskyldu á neinn. Þegar sá aðili finnst, ber hann ábyrgð á þessum greiðslum eða framfærslu barnsins og á því að beina endurgreiðslukröfu á þann aðila, en ekki Innheimtustofnun sveitarfélaga, eins og gert er.

Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimti þessar kröfur skv. löglegum heimildum og starfaði í góðri trú gagnvart umbjóðanda yðar. Innheimtustofnunin getur ekki borið ábyrgð á röngum faðernisviðurkenningum sem upp kunna að koma og því verður að ítreka að beina eigi endurgreiðslukröfu á réttan föður [Z].“

III.

Ég ritaði stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga bréf, dags. 11. janúar 2002, og óskaði eftir að stjórnin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og afhenti mér gögn málsins, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í bréfi mínu segir meðal annars:

„Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 54/1971 er það hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlög sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Með breytingu sem gerð var á 5. gr. laga nr. 54/1971 með lögum nr. 71/1996 var stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga heimilað að afskrifa og endurgreiða höfuðstól skulda sem stofnast hefur eftir að niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir og/eða mál hefur verið höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu eða til vefengingar á faðerni barns. Tekið er fram að heimildin til afskriftar og endurgreiðslu sé þó bundin því skilyrði að niðurstaða dómsmáls leiði í ljós að skuldari sé ekki faðir viðkomandi barns. Þá segir að nánari ákvæði um framkvæmd skuli sett í reglugerð.

Framangreint lagaákvæði var til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 29. janúar 1998 og eftir að gerð hefur verið grein fyrir tilurð ákvæðisins og efni þess segir í dómi Hæstaréttar:

„Hér er um að ræða heimildarákvæði við tilteknar aðstæður, og er ekki fallist á það, að heimilt sé að gagnálykta frá því á þann veg, að óheimilt sé, hvernig sem á stendur, að fella niður skuld, sem stofnast hefur, áður en niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir eða ógildingardómur hefur gengið.“

Síðan er tekið fram að faðernisviðurkenning þess sem krafðist niðurfellingar á skuld sinni við Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði verið ógilt með dómi uppkveðnum 25. nóvember 1993 en tryggingastofnun hafði stöðvað meðlagsgreiðslur til móður barnsins 1. desember 1992. Síðan segir í dóminum:

„Annar maður er nú löglegur faðir barnsins og greiðir með því meðlag. Er því ekki lengur grundvöllur til að innheimta framangreinda skuld hjá aðaláfrýjanda.“

Hæstiréttur féllst þannig á kröfu um niðurfellingu meðlagsskuldarinnar. Af dóminum verður ráðið að um var að ræða skuld vegna tímabilsins fyrir 1. desember 1992. Þá kemur fram að annar maður hafi gengist við barninu að lokinni blóðrannsókn og samþykkt að greiða meðlag með því frá 1. desember 1992. Af lýsingu á atvikum málsins verður því ekki annað ráðið en Hæstiréttur hafi fellt niður umrædda meðlagsskuld þótt ekki lægi fyrir samþykki þess sem síðar gekkst við faðerni barnsins um greiðslu meðlags fyrir þann tíma sem meðlagsskuldin var frá.

Með tilliti til framangreindrar túlkunar Hæstaréttar óska ég eftir að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga skýri viðhorf sitt, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, til kvörtunar [A] og afhendi mér gögn málsins. Ég óska jafnframt sérstaklega eftir að stjórnin láti mér í té skýringar og upplýsingar um eftirfarandi:

1. Í bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 3. desember 2001, kemur ekki fram að stjórn stofnunarinnar hafi fjallað um beiðni [A]. Ég óska því eftir upplýsingum um hvort stjórnin hafi fjallað um beiðni [A] og þá afriti af fundargerð stjórnarinnar þar sem fjallað var um málið. Hafi málið ekki verið lagt fyrir stjórnina óska ég eftir skýringum hennar á því hvernig sú meðferð málsins samrýmist ákvæði 5. mgr. 5. gr. l. nr. 54/1971, með síðari breytingum, og 15. gr. reglugerðar nr. 491/1996.

2. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. desember 2001, segir að mál [A] sé „nokkru frábrugðið dómi Hæstaréttar Íslands 1998:408“ en í þeim dómi hafi verið fundinn réttur faðir barnsins og greiðsluskylda sé felld á hann. Ég vek athygli á því að í umræddu dómsmáli var ekki fjallað um hugsanlega greiðsluskyldu hins „rétta föður“ vegna þeirrar meðlagsskuldar sem felld var niður heldur segir þar aðeins að hann greiði meðlag og annars staðar segir að hann hafi samþykkt að greiða meðlag með barninu frá 1. desember 1992. Ég óska því eftir nánari skýringum stofnunarinnar á því hvernig það samrýmist umræddum dómi Hæstaréttar að synja endurgreiðslukröfu [A] á þeim grundvelli að ekki hafi verið staðfest hver sé réttur faðir dóttur [X]. Jafnframt óska ég eftir upplýsingum um hvort afstaða stofnunarinnar til kröfu [A] hefði orðið önnur ef faðernisviðurkenning annars hefði legið fyrir og í hvaða mæli það hefði áhrif ef þeim manni hefði verið gert að greiða meðlag með barninu í heild eða hluta þess tíma sem [A] greiddi og gerði kröfu um að fá endurgreitt.

3. Þá óska ég eftir að stofnunin skýri á hvaða lagagrundvelli hún telji að [A] geti í samræmi við niðurlag í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. desember 2001, beint endurgreiðslukröfu „á réttan föður [Z]“.

Svarbréf Innheimtustofnunar sveitarfélaga barst mér 25. janúar 2002. Í bréfinu er rakið að málið hafi verið tekið fyrir á fundi stjórnar stofnunarinnar 17. desember 2001 og þar bókað að lagt hefði verið fram bréf frá lögmönnum A og málinu frestað til næsta fundar. Er áréttað að lögmanni hans hafi verið kunnugt um þessa fyrirtekt og að næsti fundur stjórnarinnar verði 28. janúar 2002. Í lok bréfsins er vakin athygli á 14. gr. reglugerðar nr. 491/1996.

Hinn 5. febrúar 2002 barst mér bréf frá Innheimtustofnun sveitarfélaga þar sem fram kemur að stjórn stofnunarinnar hefði falið lögmanni sínum málið og óskað eftir „lögfræðilegri skýringu á málinu, með sérstöku tilliti til athugunar á hlutverki stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga við beitingu 14. gr. reglugerðar nr. 491/1996.“

Á fundi stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga 22. apríl 2002 var endurgreiðslubeiðni A hafnað með svohljóðandi rökum, sbr. fundargerð stjórnarinnar sem vísað er til í bréfi stofnunarinnar til lögmanns A, dags. 29. apríl 2002:

„Ákvæði 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga, sbr. lög nr. 71/1996 er heimildarákvæði. Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga fer með þessa heimild og í samræmi við markmið laganna og reglugerðar nr. 491/1996, þá verður ekki séð að [A] eigi við sérstaka félagslega- eða fjárhagslega örðugleika að stríða sem styðji kröfu hans um endurgreiðslu kr. 213.612,- vegna meðlagsgreiðslna.

Kröfu yðar um endurgreiðslu er því hafnað.“

Í bréfi stofnunarinnar, dags. 29. apríl 2002, er þar að auki vísað til þess að kynfaðir barnsins sé Y. Þá segir að kynfaðir barnsins sé „meðlagsskyldur frá fæðingu þess skv. barnalögum nr. 20/1992.“

Með bréfi til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 6. maí 2002, ítrekaði ég þau tilmæli mín til stofnunarinnar að hún léti mér í té gögn og skýrði eftir atvikum viðhorf sitt til kvörtunar A með hliðsjón af því sem beðið hefði verið um í fyrra bréfi mínu.

Svarbréf stofnunarinnar barst mér 7. júní 2002. Í bréfinu er lýst bókun stjórnarinnar frá 22. apríl 2002 þar sem kröfu A var hafnað. Kemur þar fram að á þeim fundi hafi verið lögð fram greinargerð lögmanns stofnunarinnar um mál A. Einnig er rakið í bréfinu að bókað hafi verið að kynfaðir barnsins væri nú Y og ítrekað í bréfinu að hann sé því „meðlagsskyldur frá fæðingu þess skv. barnalögum nr. 20/1992“. Í bréfinu er síðan lýst að bréf mitt frá 6. maí 2002 hafi verið tekið fyrir á stjórnarfundi 21. maí 2002 og bókað að lögmönnum stofnunarinnar yrði falið að svara því í samræmi við áðurnefnda bókun stjórnarinnar frá 22. apríl 2002. Áréttað er að lögmönnum A hafi verið tilkynnt um niðurstöðu stjórnar stofnunarinnar strax og ákvörðun var tekin. Þá segir meðal annars svo í bréfi stofnunarinnar til mín:

„Það er viðhorf stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga að hún hafi öruggar réttarheimildir til þess að byggja á ákvarðanir sínar í málum sem þessum sbr. 5. gr. laga nr. 54/1971 eins og hún er nú sbr. breytingu 71/1996 og 14. gr. og 15. gr. reglugerðar nr. 491/1996.

Hæstaréttardómur sem kveðinn var upp 29. janúar 1998 veitir ekki slíkt fordæmi að heimildir stjórnar í skyldum málum séu ónýtar. Ef svo væri þyrfti að breyta lögum til þess að opinberu fé sé ekki útausið.

[…]

Við athugun á skattframtölum kom í ljós að efnahagur [A] er traustur og tekjur ágætar. Skattframtal 2001 fylgir.

Hinn 21. janúar 2002 staðfesti sýslumaðurinn á [H] að [Y], kt. […] hefði gengist við barninu [Z] kt. […] með yfirlýsingu dags. 15. janúar 2002. Staðfestingin ásamt fylgiskjölum, þ.m.t. meðlagsúrskurði, fylgir.

Viðhorf stjórnar Innheimtustofnunar er byggt á þremur meginþáttum:

1. Stjórnin hefur traustar réttarheimildir til þess að styðja ákvarðanir sínar í málum sem þessum þ.e. 5. gr. laga nr. 54/1971 og 14. gr. rgl. nr. 491/1996 sbr. 15. gr. sömu rgl. þrátt fyrir margnefndan dóm Hæstaréttar.

2. Kynfaðir barnsins [Z], kt. […], [Y], kt. […] er fundinn og greiðir meðlag.

3. Tekjur og efnahagur [A], kt. […], er með ágætum sbr. skattframtal 2001.

Það er álit Innheimtustofnunar sveitarfélaga að almennar reglur kröfuréttarins um „condictio indebiti“ eigi ekki við í meðlagsmálum sem þessum.“

Með bréfi, dags. 10. júní 2002, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við skýringar stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Svarbréf hans barst mér með bréfi 14. s.m.

IV.

1.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, er barnsföður skylt að endurgreiða stofnuninni meðlag með barni sínu, skilgetnu sem óskilgetnu, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamanni barnsins, þegar og með þeim hætti sem stofnunin krefst. Í lögum nr. 54/1971 er ekki afmarkað með nánari hætti hver telst meðlagsskyldur en um það fer eftir barnalögum nr. 20/1992. Í 1. mgr. 5. gr. þeirra laga segir að þegar karlmaður, sem kona kennir barn sitt, sbr. 4. gr., gengst við faðerni þess með skriflegri yfirlýsingu sinni fyrir presti eða sýslumanni eða bréflega og vottfast telst hann faðir barnsins. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 20/1992 er foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, skylt að framfæra barn sitt. Í 14. gr. laga nr. 20/1992 segir að meðlag skuli greiða mánaðarlega fyrir fram nema annað sé löglega ákveðið. Þá segir í 28. gr. laganna að um skyldu foreldris til að greiða Innheimtustofnun sveitarfélaga meðlög og um innheimtuúrræði þeirrar stofnunar fari eftir lögum um stofnunina, sbr. nú lög nr. 54/1971.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 54/1971 er það hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga að innheimta meðlög hjá þeim foreldrum sem eru meðlagsskyldir. Í lögunum sjálfum er ekki að finna nánari ákvæði um það hvernig meðlagsinnheimta fer fram en samkvæmt 7. gr. skal með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Núgildandi reglugerð er nr. 491/1996, um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun ríkisins senda Innheimtustofnun sveitarfélaga alla meðlagsúrskurði, skilnaðarleyfisbréf og skilnaðarsamninga sem skylda foreldris um meðlagsgreiðslur er byggð á. Þá skal tryggingastofnun, sbr. 3. mgr. 1. gr. sömu reglugerðar, tilkynna meðlagsskyldu foreldri bréflega um greiðsluskyldu þess um leið og fyrsta meðlag er greitt, sbr. 59. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Að fengnum framangreindum gögnum frá Tryggingastofnun ríkisins um meðlagsskyldu er það hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga að gera nauðsynlegar ráðstafanir til innheimtu meðlags hjá meðlagsskyldu foreldri, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 491/1996.

Af þessu verður ráðið að lög nr. 54/1971, barnalög nr. 20/1992, lög nr. 117/1993, um almannatryggingar, og reglugerð nr. 491/1996 gera ráð fyrir því að það sé alfarið á hendi Innheimtustofnunar sveitarfélaga að eiga í samskiptum við þá sem meðlagsskyldir eru og innheimta hjá þeim meðlagsgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Af ákvæðum laga nr. 54/1971, sem að framan hafa verið rakin, og reglugerðar nr. 491/1996 verður jafnframt ráðið að stofnunin eignast á grundvelli faðernisviðurkenningar og meðlagsgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins lögvarða kröfu á hendur meðlagsskyldu foreldri.

Ég bendi á að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 54/1971, sbr. ákvæði 4. gr. laga nr. 43/1984, skal Innheimtustofnun sveitarfélaga skila Tryggingastofnun ríkisins innheimtufé mánaðarlega eftir því sem það innheimtist og skal það ganga upp í meðlagsgreiðslur tryggingastofnunar. Það sem á vantar að tryggingastofnun hafi fengið meðlög að fullu endurgreidd með slíkum skilum skal Innheimtustofnun sveitarfélaga greiða, sbr. 1. mgr. 4. gr., innan tveggja mánaða frá því að meðlag var greitt. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 54/1971, sbr. 5. gr. laga nr. 43/1984, greiðir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga Innheimtustofnun sveitarfélaga það sem á vantar að tekjur hennar nægi til endurgreiðslu til tryggingastofnunar, sbr. 3. gr., og greiðslu rekstrarkostnaðar hennar. Þá segir í sömu grein að greiðslur Jöfnunarsjóðs skuli inntar af hendi það tímanlega að Innheimtustofnun sveitarfélaga getið staðið í skilum við Tryggingastofnun ríkisins á réttum gjalddögum samkvæmt 3. gr. Í ljósi þessa skal Innheimtustofnun sveitarfélaga láta Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í té fyrir 30. apríl hvert ár reikninga stofnunarinnar fyrir næstliðið ár, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 54/1971. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafa gert fullnaðarskil til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 4. gr., fyrir 1. júní ár hvert miðað við reikningsskil í lok undanfarandi árs.

Í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/1971 segir meðal annars svo:

„[...]

Frumvarp þetta felur í sér gagngerðar breytingar á lagaákvæðum um meðlagsgreiðslur. Þó verða engar breytingar á núverandi fyrirkomulagi, að því er barnsmæður snertir. Þær geta eftir sem áður snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið þar greidd meðlög gegn framvísun yfirvaldsúrskurðar eða skilnaðarleyfisbréfs, án tillits til þess, hvort meðlögin innheimtast hjá barnsfeðrum eða ekki. [...]

Ljóst er, að aldrei verður unnt að innheimta meðlög að fullu, þegar á heildina er litið, og vaknar þá sú spurning, hver eigi að bera mismuninn – það, sem ekki innheimtist. Eðlilegast og einfaldast virðist, að þeim mismun, sem ekki innheimtist, verði jafnað niður á öll sveitarfélög landsins í hlutfalli við íbúafjölda þeirra, þ.e. að þessi mismunur verði greiddur af óskiptu fé Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem er sameignarsjóður allra sveitarfélaga landsins.“ (Alþt. 1970, A-deild, bls. 596.)

Í athugasemdum greinargerðarinnar með 3. gr. frumvarpsins sem varð að sama ákvæði í lögum nr. 54/1971 segir ennfremur meðal annars svo:

„[...]

Í 3. gr. 1. mgr. eru einnig ákvæði um, hvernig endurgreiðslum og reikningsskilum Innheimtustofnunarinnar við Tryggingastofnun ríkisins skuli háttað. Að sjálfsögðu má um það deila, hvernig slíkum samskiptum skuli háttað í einstökum atriðum, en höfuðatriðið er þó, að um þessi atriði séu ákveðnar reglur í lögunum, þannig að báðar stofnanirnar viti fyrir fram, hverjar skyldur þeirra eru og réttindi. Eftir að lögin verða komin til framkvæmda, þarf Tryggingastofnun ríkisins aðeins að snúa sér til eins aðila um endurgreiðslur barnsmeðlaga, þ.e. til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, í stað fjölmargra einstakra sveitarstjórna áður. Mun þetta því verða til mikils hagræðis fyrir Tryggingastofnunina. Í þessu sambandi er einnig rétt að vekja athygli á því, að með lögfestingu þessa frumvarps félli niður skylda ríkissjóðs til að ábyrgjast gagnvart Tryggingastofnuninni endurgreiðslur meðlaga til hennar af hálfu einstakra sveitarstjórna.“ (Alþt. 1970, A-deild, bls. 597.)

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður dregin sú ályktun af 3. og 4. gr. laga nr. 54/1971 og lögskýringargögnum að engu máli skiptir fyrir Tryggingastofnun ríkisins eða forráðamann barns hvernig til tekst um innheimtu Innheimtustofnunar sveitarfélaga hjá meðlagsskyldu foreldri. Ef Innheimtustofnun sveitarfélaga tekst ekki að innheimta hjá meðlagsskyldu foreldri að hluta eða að öllu leyti þá fjárhæð, sem stofnunin hefur greitt til Tryggingastofnunar ríkisins, er það Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sem á endanum fjármagnar þann kostnað sem af því hlýst. Gagnvart hinu meðlagsskylda foreldri er innheimta Innheimtustofnunar sveitarfélaga á grundvelli lögbundinnar greiðsluskyldu foreldrisins samkvæmt þessu í eðli sínu sambærileg við aðra innheimtustarfsemi af hálfu hins opinbera. Ég vek í þessu sambandi athygli á því að af hálfu dómstóla hefur verið lagt til grundvallar að samkvæmt lögum nr. 54/1971 beri ekki að líta svo á að meðlagsgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins til forráðamanns barns sé, eins og var fyrir gildistöku laganna, „þeginn sveitastyrkur“ til hins meðlagsskylda foreldris, sbr. dóm Hæstaréttar 24. ágúst 1999 í máli nr. 254/1999, Hrd 1999, bls. 3079. Vek ég hér einnig athygli á athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 62/2000 sem bætti við nýrri 10. málsgrein við 5. gr. laga nr. 54/1971 og mælir meðal annars fyrir um 10 ára fyrningartíma krafna um endurgreiðslu barnsmeðlaga sem greidd eru fyrir milligöngu opinberra aðila og endurgreiða ber að lögum. (Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 4451-4453.)

Enda þótt ekki verði talið að kröfuréttarsamband á milli Innheimtustofnunar sveitarfélaga og meðlagsskylds foreldris sé sambærilegt venjulegum viðskiptakröfum, sjá hér Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 4452, tel ég samkvæmt framangreindu að ekki verði leitt af fyrirkomulagi laga nr. 54/1971 einu og sér, eins og síðar verður nánar rakið, að almennar reglur kröfuréttar, meðal annars um endurheimtu ofgreidds fjár, geti ekki átt við, a.m.k. í ákveðnum tilvikum, um endurgreiðslukröfu manns sem greitt hefur í rangri trú um að hann sé meðlagsskylt foreldri. Ég ítreka að ekki verður séð að sérstök sjónarmið um framfærslu barnsins hafi þýðingu samkvæmt lögum nr. 54/1971 í réttarsambandi Innheimtustofnunar sveitarfélaga og hins meðlagsskylda foreldris.

2.

Eins og áðurnefnd ákvæði barnalaga nr. 20/1992 bera með sér er faðernisviðurkenning, sbr. 4. og 5. gr. sömu laga, grundvöllur skyldu föðurs til greiðslu meðlags með barni, þegar faðirinn og móðirin hafa aldrei verið í hjúskap eða í sambúð. Ég minni á að af gögnum málsins má ráða að A undirritaði faðernisyfirlýsingu 21. janúar 2000 í kjölfar þess að X hafði kennt honum barnið Z sem þá var nýfætt. Þá gerðu þau með sér samning, dags. 24. janúar 2000, um greiðslu meðlags frá og með 1. desember 1999 sem var staðfestur af fulltrúa sýslumannsins á Akranesi, sbr. 17. gr. barnalaga nr. 20/1992. Að auki er að finna í gögnum málsins tilkynningu frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 27. janúar 2000, þar sem A er kynnt að honum beri að greiða meðlag frá 1. desember 1999 og skorað á hann að beina greiðslum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

Samkvæmt því sem að framan er rakið varð skylda A til greiðslu meðlags til Innheimtustofnunar sveitarfélaga virk þegar Tryggingastofnun ríkisins greiddi X meðlag með barninu Z á grundvelli faðernisviðurkenningar hans, dags. 21. janúar 2000, auk þess samkomulags um greiðslu meðlags sem hann undirritaði 24. janúar 2000 og staðfest var af sýslumanni með tilvísun til viðurkenningar A á faðerninu. Var honum þannig í krafti réttaráhrifa faðernisviðurkenningarinnar skylt að greiða umrætt meðlag til Innheimtustofnunar sveitarfélaga enda er ljóst að stofnunin hefði ekki átt neina kröfu að lögum til að innheimta hjá A umrætt meðlag ef hennar hefði ekki notið við.

Faðernisviðurkenning er almennt endanleg og verður ekki afturkölluð, sjá hér t.d. Davíð Þór Björgvinsson: Barnaréttur, Reykjavík 1995, bls. 108. Í 53. gr. barnalaga segir þó að komi fram nýjar upplýsingar sem sýna að sá sem viðurkenndi faðernið geti ekki verið faðir barns megi höfða dómsmál til ógildingar á faðernisviðurkenningunni. Á grundvelli þessa lagaákvæðis höfðaði A mál á hendur ætlaðri barnsmóður sinni og barni hennar til ógildingar á faðernisviðurkenningu hans frá 21. janúar 2000. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2001 féllst dómurinn á kröfu A. Í kjölfarið fór hann fram á það við Innheimtustofnun sveitarfélaga að hún endurgreiddi honum þá fjárhæð sem hann hafði greitt í meðlag frá 1. desember 1999.

Ógildingardómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli A hafði það í för með sér að öll réttaráhrif viðurkenningar hans á faðerni barnsins féllu niður. Eftir uppkvaðningu dómsins var einnig ljóst að sú forsenda sem lá upphaflega til grundvallar því að A var gert að lögum að greiða Innheimtustofnun sveitarfélaga umrætt meðlag var röng. Faðernisviðurkenning A, sem hafði gert hina lögbundnu meðlagsskyldu virka, hafði þannig verið reist á rangri forsendu um að hann væri í raun og veru faðir barnsins. Fór hann af því tilefni fram á það við Innheimtustofnun sveitarfélaga að hún endurgreiddi honum það meðlag sem hann hafði greitt stofnuninni á grundvelli þeirrar lagaskyldu. Í þessu sambandi tek ég fram að dómstólar og fræðimenn hafa lagt til grundvallar að það sé forsenda þess að faðir geti endurkrafið meðlag sem hann hefur þegar greitt að dómur um ógildingu á faðernisviðurkenningu hafi gengið, sjá hér Hrd. 1983, bls. 1280 og Davíð Þór Björgvinsson: áður tilvitnað rit, bls. 137.

Í bréfi stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga til A, dags. 22. apríl 2002, er synjun stofnunarinnar á beiðni hans um endurgreiðslu rökstudd með því að tilvitnuð 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 sé heimildarákvæði. Stjórnin fari með þessa heimild og í samræmi við markmið laganna og reglugerðar nr. 491/1996 verði „ekki séð að [A] eigi við sérstaka félagslega eða fjárhagslega örðugleika að stríða sem styðji kröfu hans um endurgreiðslu kr. 213.612,- vegna meðlagsgreiðslna“. Þá segir í skýringum stjórnar stofnunarinnar til mín, sem bárust mér 7. júní 2002 í kjölfar þess að beiðni A um endurgreiðslu var hafnað, að stjórnin telji sig hafa „öruggar réttarheimildir til þess að byggja á ákvarðanir sínar í málum sem þessum, sbr. 5. gr. laga nr. 54/1971 […] og 14. og 15. gr. reglugerðar nr. 491/1996.“ Þá segir enn fremur í bréfi stofnunarinnar að „Hæstaréttardómur sem kveðinn var upp 29. janúar 1998 [veiti] ekki slíkt fordæmi að heimildir stjórnar í skyldum málum séu ónýtar. Ef svo væri þyrfti að breyta lögum til þess að opinberu fé sé ekki útausið“. Jafnframt kemur fram í bréfinu að það sé álit stofnunarinnar að almennar reglur um endurheimtu ofgreidds fjár („condictio indebiti„) „eigi ekki við í meðlagsmálum sem þessum“.

Í 5. gr. laga nr. 54/1971 er að finna ýmis ákvæði sem heimila Innheimtustofnun sveitarfélaga að gera ráðstafanir í tilefni af greiðsluerfiðleikum meðlagsgreiðanda, t.d. um gerð tímabundinna samninga um greiðslu lægri upphæðar en meðlagið hljóðar um eða jafnvel um afskriftir á höfuðstól skuldar að hluta eða að öllu leyti, sbr. 4. mgr. 5. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 71/1996. Að undanskildri 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 eiga öll þessi ákvæði það sameiginlegt að í þessum tilvikum hefur ekki verið dregið í efa að meðlagsskylda skuldara sé byggð á réttum grundvelli að lögum. Ákvæði 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 71/1996, er hins vegar svohljóðandi en samhljóða ákvæði er í 14. gr. reglugerðar nr. 491/1996:

„Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að afskrifa og endurgreiða höfuðstól skuldara sem stofnast hefur eftir að niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir og/eða mál hefur verið höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu eða til vefengingar á faðerni barns. Heimildin til afskriftar og endurgreiðslu er þó bundin því skilyrði að niðurstaða dómsmáls leiði í ljós að skuldari er ekki faðir viðkomandi barns. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett í reglugerð.“

Í bréfi stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga til A virðist stjórnin hafa byggt á því að það sé skilyrði fyrir beitingu tilvitnaðrar 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 að fyrir hendi séu hjá meðlagsgreiðanda „sérstakir félagslegir eða fjárhagslegir örðugleikar“. Hvorki af orðalagi ákvæðisins né lögskýringargögnum verður sú ályktun dregin að það sé skilyrði fyrir afskriftum eða niðurfellingu skuldar, sem stofnast hefur við þau sérstöku atvik sem þarna er fjallað um, að fyrir hendi séu „sérstakir félagslegir eða fjárhagslegir erfiðleikar“ hjá þeim sem um ræðir. Ég vek athygli á því að 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 kom inn í frumvarp það er varð að lögum nr. 54/1971 að tillögu félagsmálanefndar Alþingis. Af hálfu nefndarinnar voru lagðar til breytingar á frumvarpinu sem „annars vegar [lutu] að því að skilgreina hvað átt [væri] við með félagslegum erfiðleikum skuldara“. Þá sagði í áliti nefndarinnar að „hins vegar“ væri lagt til að lögfest yrði framangreind heimild sem síðar varð 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, sjá Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 4964. Samkvæmt framangreindu fæ ég ekki annað séð en að í bréfinu til A hafi stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga byggt synjun sína á forsendu sem ekki er efnisþáttur eða skilyrði samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971.

Af skýringum stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga og öðrum gögnum málsins verður ekki annað séð en að það sé afstaða stjórnarinnar að atvik þessa máls séu með þeim hætti að stofnunin hafi ekki haft heimild í lögum nr. 54/1971, hvorki í nefndri 5. mgr. 5. gr. né í öðrum ákvæðum, til þess að verða við ósk A um endurgreiðslu. Þá er það eins og fyrr er rakið afstaða stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga að almennar reglur um endurheimtu ofgreidds fjár eigi ekki við í málum sem stofnunin fjallar um.

Ég tek fram að miðað við orðalag 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 og skýringar á því ákvæði í dómi Hæstaréttar 29. janúar 1998 í máli nr. 95/1997, Hrd. 1998, bls. 408, tel ég ekki tilefni til athugasemda við þá afstöðu stjórnar innheimtustofnunarinnar að endurgreiðsla til A verði ekki reist á því ákvæði eða 14. gr. reglugerðar nr. 491/1996. Ég tel hins vegar að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga kunni að hafa verið skylt á öðrum grundvelli, t.d. almennra reglna kröfuréttar, að fjalla efnislega um hvort rétt væri að verða við beiðni A að hluta eða að öllu leyti. Í þessu sambandi bendi ég á að af hálfu fræðimanna hefur verið á því byggt að endurgreiðslukrafa manns, sem ranglega taldi sig föður, kunni annað hvort að vera byggð á almennum skaðabótareglum eða almennum reglum um endurheimtu ofgreidds fjár sem greitt hefur verið í rangri trú, sjá hér Davíð Þór Björgvinsson: Barnaréttur. Reykjavík 1995, bls. 258. Ég bendi á að það er meginregla kröfuréttar að sá sem hefur greitt umfram lagaskyldu, eða án þess að slík skylda hafi í raun verið til staðar, á að jafnaði rétt til endurgreiðslu hins ofgreidda fjár enda séu ekki fyrir hendi sérstakar aðstæður sem valda því að endurgreiðsla telst ósanngjörn eða of íþyngjandi fyrir kröfuhafa, sjá hér til hliðsjónar Bernhard Gomard: Obligationsret. 3. del. 1. útgáfa Kaupmannahöfn 1993, bls. 171. Þegar óskráðar réttarreglur kunna eftir atvikum að veita borgurunum kröfu til ákveðinnar peningagreiðslu á hendur stjórnvöldum verður að miða við að kveðið sé á um það í lögum ef ætlunin er að afnema slíkan rétt, sbr. til hliðsjónar Jens Garde ofl: Forvaltningsret – Almindelige emner, 3. útgáfa Kaupmannahöfn 1997, bls. 151 o.áfr., sbr. einnig Eckhoff, T: Forvaltningsrett, 5. útgáfa Osló 1994, bls. 145-146. Ég bendi á að löggjafinn kann að meta það svo að vegna hagsmuna annarra einstaklinga eða mikilvægra hagsmuna hins opinbera sé rétt að takmarka með lögum að hluta eða að öllu leyti möguleika borgaranna til að krefja stjórnvöld um endurgreiðslu í tilefni af ákveðinni lögbundinni greiðsluskyldu sem síðar reynist vera byggð á röngum forsendum.

Enda þótt hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé að innheimta meðlög hjá meðlagsskyldum foreldrum leiðir það eins og fyrr er rakið af fyrirkomulagi laga nr. 54/1971 að úrlausn um skyldur og réttindi hins meðlagsskylda foreldris gagnvart Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur að lögum hvorki áhrif á rétt barnsins til greiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins né á kröfu tryggingastofnunar til endurgreiðslu frá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Sérsjónarmið sem taka ber tillit til samkvæmt almennum reglum um endurheimtu ofgreidds fjár þegar um er að ræða framfærslukröfur barna eiga því almennt ekki við í réttarsambandi meðlagsskylds foreldris og Innheimtustofnunar sveitarfélaga á grundvelli laga nr. 54/1971. Ég tek fram að ég fæ ekki annað ráðið af dómi Hæstaréttar, Hrd. 1998, bls. 408, en að þar hafi 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 ekki staðið því í vegi að Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi verið heimilt að lögum að fella niður skuld hjá manni sem greitt hafði meðlag í þeirri röngu trú að hann væri meðlagsskylt foreldri. Ég tel ekki fært að draga aðra ályktun af þeim dómi en að þar hafi Hæstiréttur byggt afstöðu sína á hinum almennu reglum um endurheimtu ofgreidds fjár. Innheimtustofnun sveitarfélaga kunni því að vera skylt að fella niður skuld manns, sem greitt hefur meðlag í þeirri röngu trú að hann sé faðir og fengið hefur faðernisviðurkenningu sína ógilta með dómi, eða jafnvel að endurgreiða honum það sem hann hefur greitt. Í dóminum segir Hæstaréttur meðal annars:

„[Ákvæði 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 er] heimildarákvæði við tilteknar aðstæður, og er ekki fallist á það, að heimilt sé að gagnálykta frá því á þann veg, að óheimilt sé, hvernig sem á stendur, að fella niður skuld, sem stofnast hefur, áður en niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir eða ógildingardómur hefur gengið.

Eins og að framan greinir, var faðernisviðurkenning aðaláfrýjanda ógilt með dómi 25. nóvember 1993, en tryggingastofnunin stöðvaði meðlagsgreiðslur til stefndu 1. desember 1992. Annar maður er nú löglegur faðir barnsins og greiðir með því meðlag. Er því ekki lengur grundvöllur til að innheimta framangreinda skuld hjá aðaláfrýjanda“.

Ég legg á það áherslu að tilvitnaðar forsendur í dómi Hæstaréttar voru settar fram í tilefni af dómsmáli sem höfðað var á hendur móður barns og Innheimtustofnun sveitarfélaga en stefnandi hafði greitt meðlag í þeirri röngu trú að hann væri faðir barnsins. Tilvitnaðar forsendur koma í kjölfar þeirrar niðurstöðu Hæstaréttar að sýkna móðurina af kröfum föðurins sem byggðu á almennum skaðabótareglum og fjalla þær um kröfugerð föðurins á hendur stofnuninni. Ég fæ því ekki annað séð en að forsendurnar feli í sér afstöðu Hæstaréttar til þess að ekki verði gagnályktað frá 5. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 þannig að stofnuninni sé í öllum tilvikum óheimilt að „fella niður skuld, sem stofnast hefur, áður en niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir eða ógildingardómur hefur gengið“, enda þótt ekki sé beinlínis mælt fyrir um það tilvik í lögum nr. 54/1971. Í því tilviki sem um ræðir í þessu máli er aðstaðan sú sama og lá til grundvallar framangreindri niðurstöðu í dómi Hæstaréttar að því undanskildu að krafa A hljóðar um „endurgreiðslu“ þegar greidds meðlags en ekki „niðurfellingu skuldar“. Ég tek fram að ég fæ ekki séð að það atriði eitt og sér að um endurgreiðslukröfu er að ræða, en ekki kröfu um að felld verði niður skuld, feli í sér að eðlismunur sé á því máli sem hér um ræðir og því tilviki sem dæmt var um í ofangreindum dómi Hæstaréttar. Það er í reynd enginn eðlismunur á því hvort Innheimtustofnun sveitarfélaga ákveður að fella niður skuld sem þegar hefur stofnast eða endurgreiðir meðlag sem þegar hefur greitt, hvorki gagnvart meðlagsgreiðanda né Tryggingastofnun ríkisins. Það kunna hins vegar eftir atvikum að vera mismunandi atriði sem koma til skoðunar við mat á því hvort stjórnvaldi er rétt að fallast á endurgreiðslukröfu á óskráðum grundvelli annars vegar eða að fella niður skuld hins vegar. Það sem hér skiptir máli er að ekki er rökrétt að líta svo á að forsendur Hæstaréttar um þá heimild sem stofnunin kann að hafa í slíkum tilvikum séu takmarkaðar við að um niðurfellingu skuldar sé að ræða.

Í tilefni af tilvísun í dómi Hæstaréttar til þess að „annar maður sé nú löglegur faðir barnsins og [greiði] með því meðlag“ minni ég á að með yfirlýsingu til sýslumanns, dags. 21. janúar 2002, viðurkenndi Y að hann væri faðir Z og hefur hann þegar hafið greiðslu meðlags. Þá legg ég á það áherslu að af dóminum verður ráðið að þar var um að ræða skuld vegna tímabilsins fyrir 1. desember 1992. Þá kemur fram að annar maður hafi gengist við barninu að lokinni blóðrannsókn og samþykkt að greiða meðlag með því frá 1. desember 1992. Af lýsingu á atvikum málsins verður því ekki annað ráðið en að Hæstiréttur hafi fellt niður umrædda meðlagsskuld þótt ekki lægi fyrir samþykki þess sem síðar gekkst við faðerni barnsins um greiðslu meðlags fyrir þann tíma sem meðlagsskuldin var frá. Samkvæmt því sem að framan er rakið tel ég að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafi hvorki í bréfi sínu til A né í skýringum sínum til mín fært fram fullnægjandi rök til stuðnings þeirri afstöðu að ekki hafi verið skilyrði til að fjalla um mál A í samræmi við umræddan dóm Hæstaréttar.

Ég minni á að eftir uppkvaðningu héraðsdóms um ógildingu á faðernisviðurkenningu A var ljóst að sú forsenda sem lá upphaflega til grundvallar því að A var gert að lögum að greiða Innheimtustofnun sveitarfélaga meðlag var röng. Faðernisviðurkenning A, sem hafði gert hina lögbundnu meðlagsskyldu virka, hafði þannig verið reist á rangri forsendu um að hann væri í raun og veru faðir barnsins. Endurgreiðslukrafan var þannig byggð á því að hann hefði frá 1. desember 1999 greitt meðlag án þess að honum væri það í raun skylt að lögum. Ég ítreka að ekki verður annað séð en að forsendur í dómi Hæstaréttar, Hrd. 1998, bls. 408, séu í góðu samræmi við almennar reglur um endurheimtu ofgreidds fjár. Hvorki í lögum nr. 54/1971 né öðrum lögum er kveðið á um takmarkanir á möguleikum Innheimtustofnunar sveitarfélaga til að fjalla um og verða eftir atvikum við endurgreiðslukröfu föður, sem greitt hefur meðlag á röngum forsendum um faðerni barns, enda liggi fyrir dómur um ógildingu á faðernisviðurkenningu hans. Ég tek fram að þegar svo háttar til að löggjafinn hefur ekki talið þörf á að þrengja hinn almenna rétt til endurheimtu ofgreidds fjár hjá tilteknu stjórnvaldi er ekki sjálfgefið að áhættan á því að stjórnvöld innheimti ranglega lögbundnar greiðslur á borð við meðlag verði lögð á borgarann. Það kann því eftir atvikum að vera betur í samræmi við sjónarmið sem búa að baki almennum reglum um endurheimtu ofgreidds fjár, sem greitt hefur verið til stjórnvalda á grundvelli lagaskyldu sem í raun var ekki til staðar, að stjórnvaldið verði að bera hallann af slíkri aðstöðu. Samrýmist þessi afstaða einnig betur þeim sjónarmiðum um réttaröryggi sem stjórnvöld verða ávallt að taka mið af í störfum sínum. Ég bendi til hliðsjónar á þá löggjafarstefnu sem leiðir af lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er ég ekki sammála þeirri afstöðu Innheimtustofnunar sveitarfélaga að almennar reglur um endurheimtu ofgreidds fjár geti ekki eftir atvikum átt við í málum eins og því er hér um ræðir. Ég tel að eins og lögum nr. 54/1971 er nú háttað verði almennt að ganga út frá því að slíkar almennar reglur kröfuréttar eigi við þegar maður, sem greitt hefur meðlag í rangri trú, setur fram kröfu gagnvart Innheimtustofnun sveitarfélaga um endurgreiðslu meðlagsins í tilefni af dómi þar sem faðernisviðurkenning hans hefur verið ógilt. Ég legg á það áherslu að þessi afstaða mín er takmörkuð við að slíkar reglur komi almennt til skoðunar í slíkum tilvikum. Um það hvort og þá að hvaða marki þær eiga í raun að leiða til þess að fallist er á kröfu um endurgreiðslu í einstökum tilvikum fer hins vegar eftir atvikum hverju sinni.

Með vísan til þessa er það niðurstaða mín að forsendur þær sem fram komu í bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til A, þar sem honum var synjað um endurgreiðslu, beri með sér að ekki hafi verið leyst úr máli hans á réttum lagagrundvelli. Á stofnuninni hvíldi sú skylda að taka efnislega afstöðu til beiðni A í samræmi við forsendur í dómi Hæstaréttar frá 29. janúar 1998 í máli nr. 95/1997 og að virtum almennum reglum um endurheimtu ofgreidds fjár. Ég tek fram að með niðurstöðu minni hér að framan hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi átt að fallast á kröfu A að hluta eða að öllu leyti.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að synjun Innheimtustofnunar sveitarfélaga á beiðni A um endurgreiðslu meðlags hafi ekki verið reist á réttum lagagrundvelli. Á stofnuninni hvíldi sú skylda að taka efnislega afstöðu til beiðni A í samræmi við forsendur í dómi Hæstaréttar frá 29. janúar 1998 í máli nr. 95/1997, Hrd. 1998, bls. 408, og að virtum almennum reglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Ég tek fram að með niðurstöðu minni hér að framan hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi átt að fallast á kröfu A að hluta eða að öllu leyti. Ég ítreka að niðurstaða mín hefur fyrst og fremst beinst að því hvort Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi leyst úr máli hans á réttum grundvelli.

Ég beini þeim tilmælum til stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga að hún taki mál A til endurskoðunar, komi fram beiðni þess efnis frá honum, og fjalli þá um mál hans í samræmi við þau sjónarmið sem að framan eru rakin.

VI.

Hinn 20. júní 2003 barst mér bréf Innheimtustofnunar sveitarfélaga þar sem fram kemur að mál A hafi verið tekið fyrir á stjórnarfundi stofnunarinnar 16. sama mánaðar. Með bréfinu fylgdi afrit af bréfi Innheimtustofnunar sveitarfélaga til lögmanna A þar sem tilkynnt var um afgreiðslu erindis hans. Í bréfinu kemur fram að samþykkt hafi verið að endurgreiða A höfuðstól meðlagsgreiðslna ásamt vöxtum og kostnaði.