Reglur nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, með síðari breytingum.

1. gr.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að gæta þess að stjórnvöld virði rétt einstaklinga og samtaka þeirra. Hann hefur í því skyni eftirlit með því að jafnræði sé virt í stjórnsýslustörfum og að stjórnsýsla sé að öðru leyti í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.

2. gr.

Starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga með þeim undantekningum sem taldar eru í 3. gr.

3. gr.

Starfssvið umboðsmanns nær ekki til eftirtalinna starfa:
1. Starfa Alþingis og stjórnsýslu í þágu Alþingis sem háð er eftirliti þingforseta, [samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis] .
2. Starfa nefnda sem Alþingi kýs og skila eiga Alþingi skýrslu til umfjöllunar.
3. Starfa yfirskoðunarmanna ríkisreikninga og Ríkisendurskoðunar, sbr. lög nr. [86/1997], um Ríkisendurskoðun.
4. Dómsathafna.
5. Ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda sem bera skal undir dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum.
6. Stjórnsýsla sveitarfélaga, nema ákvarðana sem skjóta má til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins.

4. gr.

Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða að eigin frumkvæði. Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar samkvæmt eigin ákvörðun í tilefni af kæru sem ekki fullnægir skilyrðum 2. og 3. liðar 5. gr. í reglum þessum eða er ekki höfð uppi af réttum aðila.

5. gr.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem hefur á hendi stjórnsýslu getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns enda sé eftirtöldum skilyrðum fullnægt:
1. Að kvörtunarefni sé á starfssviði umboðsmanns, sbr. 2. og 3. gr. reglna þessara.
2. Að máli hafi verið skotið til æðsta stjórnvalds sem bært er til að fjalla um málið ef þess er kostur.
3. Að kvörtun sé borin upp við umboðsmann innan árs frá því að lokaákvörðun var tekin í málinu, sbr. 2. lið þessarar greinar.
Kvörtun skal vera skrifleg og þar skal greina nafn, heimilisfang og kennitölu þess sem kvartar. Kvörtun skal undirrituð af þeim sem hana ber fram eða umboðsmanni hans, enda fylgi þá kvörtun skriflegt umboð. Umboðsmaður getur ákveðið að kvörtun skuli skilað á sérstöku eyðublaði sem skrifstofa umboðsmanns lætur í té.
Sá sem sviptur er frelsi á rétt til að bera mál undir umboðsmann í lokuðu bréfi.
Í kvörtun skal lýst þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar. Kvörtun skal fylgja rökstuðningur og þau sönnunargögn sem tiltæk eru og máli skipta.
Starfslið á skrifstofu umboðsmanns skal, eftir því sem við verður komið, veita aðstoð við samningu kvörtunar ef þess er óskað.

6. gr.

Umboðsmaður getur krafið stjórnvöld um þær upplýsingar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal um hvers konar skýrslur, skjöl, bókanir og önnur gögn sem mál varða.
Umboðsmanni er heimilt að kveðja stjórnsýslustarfsmenn á sinn fund til viðræðna um málefni sem eru á starfssviði umboðsmanns og til að veita munnlega upplýsingar og skýringar er varða einstök mál.
Umboðsmaður á frjálsan aðgang að starfsstöðvum stjórnvalda til athugana í þágu starfs síns og skulu starfsmenn láta honum í té alla nauðsynlega aðstoð af því tilefni.
Umboðsmaður getur ekki krafist upplýsinga sem varða öryggi ríkisins eða utanríkismál, er leynt skulu fara, nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.

7. gr.

Umboðsmaður getur óskað þess við [héraðsdómara] að hann kveðji mann fyrir dóm til að bera vitni um atvik sem máli skipta að dómi umboðsmanns. Við þá skýrslugjöf skal fara eftir reglum [laga um meðferð opinberra mála] , eftir því sem við á. Heimilt er þeim manni, sem mál varðar sérstaklega, að vera viðstaddur skýrslugjöfina. Honum skal, ef þörf krefur, skipa réttargæslumann skv. [lögum um meðferð opinberra mála]3 á kostnað ríkissjóðs. Ákveða má að skýrsla sé gefin fyrir luktum dyrum.
Umboðsmanni er heimilt að leita aðstoðar sérfræðinga, þegar sérstaklega stendur á, og afla nauðsynlegra sérfræðilegra gagna.

8. gr.

Telji umboðsmaður að kvörtun fullnægi ekki lagaskilyrðum til að hljóta nánari athugun og meðferð skv. 9. gr. reglna þessara eða að kvörtun gefi ekki tilefni til þess af öðrum ástæðum skal hann tilkynna þeim, sem kvartað hefur, þá niðurstöðu. Er málinu þá lokið af hálfu umboðsmanns.

9. gr.

Ákveði umboðsmaður að taka mál til meðferðar skal hann skýra því stjórnvaldi, sem í hlut á, frá efni þess nema hætta sé á að rannsókn kunni að torveldast af þeim sökum.
Umboðsmanni er rétt að leggja fyrir stjórnvöld að afhenda gögn og láta í té aðrar upplýsingar sem mál varða, svo og að skýra viðhorf sitt til málsins. Hann getur sett stjórnvaldi ákveðinn frest í þessu skyni.
Eftir því sem ástæða þykir til kynnir umboðsmaður þeim, sem kvartað hefur, þau gögn sem greinir í 2. mgr. nema um sé að ræða gögn er leynt eiga að fara samkvæmt þeim reglum er gilda um það stjórnvald sem málið varðar.
Jafnan skal gefa stjórnvaldi, sem mál beinist að, kost á að skýra málið fyrir umboðsmanni áður en hann lýkur málinu með álitsgerð skv. b-lið 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

10. gr.

Hafi umboðsmaður tekið mál til meðferðar, sbr. 9. gr. reglna þessara, er honum heimilt að ljúka því með eftirfarandi hætti:
1. Hann getur látið mál niður falla að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds.
2. Hann lætur í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum. Ef því er að skipta getur hann látið í ljós þá skoðun að stjórnvald hafi við mat, sem er í valdi þess, brotið bersýnilega gegn kröfum um sanngirni eða góða stjórnsýsluhætti.
3. Varði kvörtun réttarágreining, sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr, getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Honum er heimilt að leggja til við dómsmálaráðuneyti að það veiti gjafsókn í því skyni.
Telji umboðsmaður að um sé að ræða brot í starfi er varði viðurlögum samkvæmt lögum skal hann gera viðeigandi yfirvöldum viðvart.

11. gr.

Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða starfsháttum í stjórnsýslu skal hann tilkynna það Alþingi og jafnframt hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn eftir því sem við á.

12. gr.

[Umboðsmaður skal fyrir 1. september ár hvert gefa Alþingi skýrslu um starf sitt á liðnu almanaksári. Skýrsluna skal prenta og birta opinberlega] .
Ef umboðsmaður verður áskynja stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds getur hann gefið Alþingi eða hlutaðeigandi ráðherra sérstaka skýrslu um málið. Ef starfsmaður sveitarstjórnar á í hlut getur umboðsmaður gefið sveitarstjórn sérstaka skýrslu.
Umboðsmaður ákveður sjálfur hvort hann gefur opinbera tilkynning um mál og á hvern hátt hann gerir það.
Ávallt er umboðsmaður lætur frá sér fara tilkynningu um mál skal hann greina hvað stjórnvald það, sem hlut á að máli, hefur fært fram sér til varnar.

13. gr.

Umboðsmaður ræður sjálfur starfsmenn sína eftir því sem fjárveitingar leyfa. Umboðsmanni er með sama skilorði heimilt að ráða menn til að vinna að einstökum verkefnum.
Forsetar Alþingis hafa aðild og úrskurðarvald um réttindi og skyldur starfsmanna umboðsmanns sbr. lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gera kjarasamninga við starfsmenn umboðsmanns, sbr. 3. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

14. gr.

Ef umboðsmaður víkur sæti við meðferð einstaks máls skipa forsetar Alþingis mann til að fara með það mál.

15. gr.

Umboðsmanni ber að gæta þagnarskyldu um þau atvik sem honum verða kunn í starfi og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Sama gildir um starfsmenn umboðsmanns. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

16. gr.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.