Lög nr. 85/1997 afmarka hvert er starfssvið umboðsmanns Alþingis og þar er sett sú meginregla að starfssvið umboðsmanns Alþingis taki til allrar opinberrar stjórnsýslu, hvort sem hún er hjá ríki eða sveitarfélögum. Starfssvið umboðsmanns tekur þannig að meginstefnu eingöngu til starfa handhafa framkvæmdarvalds, en hvorki til starfa handhafa löggjafarvalds né dómsvalds í skilningi 2. gr. stjórnarskrárinnar. Umboðsmaður á að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga. Þá er tekið fram í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 að starfssvið umboðsmanns taki einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði þessu er ætlað að tryggja samræmi á milli starfssviðs umboðsmanns Alþingis annars vegar og gildissviðs stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og upplýsingalaga, nr. 50/1996, hins vegar. Tekið er fram að til umboðsmanns geti hver sá kvartað er telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum.
Það eru því einkum athafnir stjórnvalda sem falla undir starfssvið umboðsmanns. Eins og ljóst er af greinargerð, sem fylgdi frumvarpi því sem síðar urðu lög nr. 13/1987, fjallar umboðsmaður ekki aðeins um ákvarðanir og úrlausnir stjórnvalda, heldur einnig málsmeðferð þeirra og framkomu starfsmanna. Einnig er tvímælalaust að ýmiss konar opinber þjónusta er á starfssviði umboðsmanns.
Í athugasemdum sem fylgdu því frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 85/1997 var tekið fram að gengið væri út frá því, eins og í þágildandi lögum, að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Aftur á móti falla ákvarðanir og athafnir kirkjunnar er snerta kenningar hennar og trúariðkun utan starfssviðs umboðsmanns.
Hér á eftir verður fjallað nokkru nánar um afmörkun viðfangsefna umboðsmanns.