[Birt í skýrslu fyrir árið 1997, bls. 21-52.]

Efnisyfirlit I. Yfirlit yfir lyktir mála.
II. Skýringar varðandi einstaka liði.
III. Viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns.
IV. Mál, þar sem stjórnvöld hafa ekki farið að tilmælum umboðsmanns.
V. "Meinbugir á lögum".

I. Yfirlit yfir lyktir mála.

1. Málum lokið eftir frumathugun:
1.1 Mál sem féllu utan starfssviðs umboðsmanns, samtals 219
1.1.1 Störf Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 66
1.1.2 Störf dómstóla, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 75
1.1.3 Ákvarðanir og aðrar athafnir stjórnvalda, sem ætlast er til að menn leiti leiðréttingar á með málskoti til dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum, sbr. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 7
1.1.4 Lögskipti á sviði einkaréttar 31
1.1.5 Önnur atriði, sem féllu utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis 40
1.2 Sá, sem bar fram kvörtun, átti ekki aðild, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 21
1.3 Kæra hafði ekki verið borin fram við æðra stjórnvald, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 372
1.4 Meira en ár var liðið frá því er stjórnsýslugerningur sá, sem kvartað var yfir, hafði verið til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 89
1.5 Kvörtun gaf ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar að lokinni frumathugun, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 209
2. Fallið frá kvörtun
3. Lyktir mála sem tekin voru til nánari athugunar:
3.1 Lokið án athugasemda eftir að fengnar höfðu verið upplýsingar og/eða skýringar stjórnvalda, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997
3.2 Lokið með ábendingum um að leggja þau fyrir dómstóla, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 29
3.3 Felld niður, þar sem stjórnvald leiðrétti þá úrlausn eða háttsemi, sem kvartað var yfir, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 220
3.4 Lokið með áliti á því, hvort athöfn stjórnvalds bryti í bága við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, samtals 443
3.4.1 Ekki tilefni til þess að beina sérstökum tilmælum til stjórnvalds 210
3.4.2 Tilefni til þess að beina sérstökum tilmælum til stjórnvalds um úrbætur 188
3.4.3 Ábendingu komið á framfæri við Alþingi og hlutaðeigandi ráðherra um "meinbugi á lögum", sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997 45
3.5 Enn til meðferðar hjá umboðsmanni 5
Umboðsmaður Alþingis - Afdrif fyrstu 2000 málanna

1. Málum lokið eftir frumathugun.
   Í aðalatriðum má skipta málsmeðferð hjá umboðsmanni í tvo meginþætti, frumathugun og efnismeðferð. Frumathugun umboðsmanns er gerð eftir að kvörtun berst og beinist að því að kanna, hvort efni kvörtunar á undir starfssvið umboðsmanns, eins og það er skilgreint í lögum nr. 85/1997, sem og því, hvort skilyrði 2. mgr. 4. gr. og 6. gr. laganna eru uppfyllt. Þá lýkur umboðsmaður athugun sinni á kvörtun þegar á þessu stigi, ef hann telur, að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar.

1.1. Mál sem féllu utan starfssviðs umboðsmanns.

1.1.1. Störf Alþingis og stofnana þess.
   Samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er löggjafarstarf Alþingis undanskilið starfssviði umboðsmanns. Sama er að segja um stjórnsýslu í þágu Alþingis, sem háð er eftirliti þingforseta, sbr. 9. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, störf þingkjörinna nefnda sem og störf Ríkisendurskoðunar. Af framangreindri takmörkun leiðir, að umboðsmaður lætur almennt ekki uppi álit sitt á því, hvernig til hafi tekist um setningu laga. Undantekningu frá þessu er að finna í 11. gr. laga nr. 85/1997, en samkvæmt ákvæðum hennar skal umboðsmaður tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn, ef hann verður þess var að "meinbugir" séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Í V. kafla hér á eftir eru talin þau mál, þar sem ég hef vakið athygli Alþingis á meinbugum á lögum.

1.1.2. Störf dómstóla.
   Samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis ekki til starfa dómstóla. Umboðsmaður fjallar því hvorki um málsmeðferð dómstóla né niðurstöðu þeirra í dómsmálum.

1.1.3. Leita ber til dómstóla samkvæmt fyrirmælum laga.
   Undir þennan lið eru flokkuð mál, er snerta ákvarðanir og aðrar athafnir stjórnvalda, sem ætlast er til að menn leiti leiðréttingar á með málskoti til dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum, sbr. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Hér má sem dæmi nefna, að ætlast er til að aðfinnslur við störf skiptastjóra séu bornar undir dómstóla skv. 76. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.

1.1.4. Lögskipti á sviði einkaréttar.
   Starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Af þeim sökum fellur utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um starfsemi, sem rekin er af einkaaðilum á grundvelli einkaréttarlegra reglna. Þannig falla því einkaréttarlegar deilur á milli manna utan starfssviðs umboðsmanns. Á hinn bóginn skal áréttað, að starfssvið umboðsmanns getur tekið til starfa einkaaðila, að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

1.1.5. Önnur atriði, sem féllu utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis.
   Undir þennan lið eru flokkuð mál, sem féllu utan starfssviðs umboðsmanns af öðrum ástæðum en þeim, sem flokkar 1.1.1-1.1.4 taka til. Sem dæmi um mál, sem í þennan flokk falla, má nefna kvartanir yfir ákvörðunum stjórnvalda annarra landa eða fjölþjóðlegra stofnana.

1.2. Sá, sem bar fram kvörtun, átti ekki aðild.
   Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá, sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem starfssvið umboðsmanns tekur til, borið fram kvörtun við umboðsmann Alþingis. Ekki geta aðrir borið fram kvörtun en þeir, sem halda því fram, að þeir sjálfir hafi orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtun af hálfu aðila, sem ekki sýnir fram á, að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi, getur þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Er umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997.

1.3. Kæra hafði ekki verið borin fram við æðra stjórnvald.
   Ef kvartað er út af ákvörðunum stjórnvalds og unnt er að skjóta þeirri ákvörðun til æðra setts stjórnvalds, t.d. ráðuneytis, þá verður sá, sem hyggst bera fram kvörtun, að skjóta málinu fyrst til þess stjórnvalds, sem æðra er, áður en hann getur borið fram kvörtun við umboðsmann Alþingis, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ef kvartað er yfir einhverju öðru en ákvörðunum, t.d. töfum á afgreiðslu máls, er unnt að leita beint til umboðsmanns og þarf ekki að snúa sér áður til æðra setts stjórnvalds.

1.4. Meira en ár var liðið frá því er stjórnsýslugerningur sá, sem kvartað var yfir, hafði verið til lykta leiddur.
   Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 skal bera fram kvörtun innan árs frá því, er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Ef um ákvörðun er að ræða, sem hefur verið kærð til æðra setts stjórnvalds, telst ársfresturinn þó frá þeim tíma, er æðra stjórnvald kvað upp úrskurð sinn.

1.5. Kvörtun gaf ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar að lokinni frumathugun.
   Ef umboðsmaður telur ljóst, að efni kvörtunar gefi ekki tilefni til að hann láti ákvörðun eða framkomu stjórnvalds til sín taka, er málið fellt niður, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

2. Fallið frá kvörtun.
   Ef sá, sem ber fram kvörtun, fellur frá kvörtun sinni á einhverju stigi málsins, hættir umboðsmaður yfirleitt umfjöllun sinni um málið. Aðili máls getur fallið frá kvörtun sinni á öllum stigum málsmeðferðarinnar. Algengast er að það gerist, eftir að stjórnvöld hafa gefið skýringar og óskað hefur verið eftir viðhorfi aðila máls til fram kominna skýringa stjórnvalda.

3. Lyktir mála, sem tekin voru til nánari athugunar.
   Þegar frumathugun er lokið, tekur við efnisleg athugun á kvörtunarefninu að öðrum skilyrðum uppfylltum. Þegar efnislegri athugun er lokið, er ráðgert í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, að afdrif máls geti orðið með þeim hætti, sem hér greinir:

3.1. Lokið án athugasemda, eftir að fengnar höfðu verið upplýsingar og/eða skýringar stjórnvalda.
   Hér er yfirleitt um það að ræða, að forsendur ákvörðunar eða aðrar upplýsingar koma ekki skýrt fram í kvörtun og gögnum sem henni fylgja, en skýrast í þeim gögnum og skýringum, sem stjórnvöld láta í té skv. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997.

3.2. Lokið með ábendingum um að leggja þau fyrir dómstóla.
   Í c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er heimild fyrir umboðsmann um að ljúka máli með ábendingu um að leggja kvörtunarefnið fyrir dómstóla. Þessari heimild er einkum beitt, ef gera verður ráð fyrir, að úrlausn máls byggist á öflun gagna og mati á sönnunargildi þeirra, svo sem vitnaskýrslum eða sérfræðilegum matsgerðum. Sama á við, ef úrlausn máls veltur á reglum einkaréttar og skýringu þeirra.

3.3. Felld niður, þar sem stjórnvald leiðrétti þá úrlausn eða háttsemi, sem kvartað var yfir.
   Á sama hátt og þegar stjórnvöld lætur fullnægjandi skýringar í té, sbr. lið 3.1 að ofan, fellir umboðsmaður mál niður, ef stjórnvald gengst fyrir viðhlítandi leiðréttingum eða úrbótum.

3.4. Lokið með áliti á því, hvort athöfn stjórnvalds bryti í bága við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti.

3.4.1. Ekki tilefni til þess að beina sérstökum tilmælum til stjórnvalds.
   Málum, sem lýkur með þessum hætti, má skipta í tvo flokka.
   Annars vegar eru mál, þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð eða niðurstöðu stjórnvalds, en reynt hefur á túlkun réttarreglna eða matsatriði við úrlausn þess, hvort um brot á lögum eða vönduðum stjórnsýsluháttum hafi verið að ræða.
   Hins vegar getur málum lokið án sérstakra tilmæla, þrátt fyrir að umboðsmaður hafi komið með aðfinnslur við málsmeðferð eða efnislega niðurstöðu stjórnvalds. Í tilvikum sem þessum er oft aðeins um að ræða tilmæli almenns eðlis til viðkomandi stjórnvalds um það, hvernig haga beri sambærilegum málum eftirleiðis.

3.4.2. Tilefni til þess að beina sérstökum tilmælum til stjórnvalds um úrbætur.
   Þegar umboðsmaður lætur í ljós þá skoðun sína, að stjórnvald hafi brotið í bága við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti, getur hann jafnframt beint sérstökum tilmælum til stjórnvalda um úrbætur, sbr. lokamálslið b-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
   Í III. kafla hér á eftir er umfjöllun um það, hver viðbrögð stjórnvalda hafa orðið við þeim tilmælum, sem ég hef beint til þeirra í álitum mínum.

3.4.3. Ábendingu komið á framfæri við Alþingi og hlutaðeigandi ráðherra um "meinbugi á lögum".
   Samkvæmt 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skal umboðsmaður tilkynna Alþingi, svo og hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn, eftir því sem við á, verði hann þess var, að "meinbugir" séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Í greinargerð, er fylgdi frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, kemur fram, að meinbugir á lögum geti verið formlegs eðlis, svo sem misræmi milli ákvæða, prentvillur, óskýr texti o.fl. Einnig geti meinbugir verið beinlínis fólgnir í efnisatriðum, svo sem að gerður sé að lögum mismunur milli manna, án þess að til þess liggi viðhlítandi rök, eða að reglugerðarákvæði skorti lagastoð o.fl. Þá hef ég litið svo á, að undir ákvæði 11. gr. falli m.a. þau tilvik, þegar ákvæði laga rekast á eða íslensk lög eru ekki í samræmi við þær skuldbindingar, sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt alþjóðasáttmálum til verndar mannréttindum.
   Í V. kafla hér á eftir er að finna stutta reifun á þeim málum, þar sem ég hef vakið athygli Alþingis á meinbugum á lögum. Í kaflanum er þess einnig getið, hvað gert hefur verið í því skyni að bæta úr hlutaðeigandi annmörkum.

3.5. Enn til meðferðar hjá umboðsmanni.
   Umfjöllun vegna nokkurra þeirra mála, er falla innan marka könnunar þessarar, var ólokið af minni hálfu, þegar ársskýrsla þessi var tilbúin til prentunar í ágúst 1998. Síðustu kvartanirnar í þessum flokki bárust mér í janúar 1997.

Efnisyfirlit

III. Viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns.

   Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða athugasemdum umboðsmanns Alþingis, getur hann jafnframt beint sérstökum tilmælum til stjórnvalds um úrbætur, sbr. lokamálslið b-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
   Eins og rakið var í lið 3.4.1 í II. kafla hér að framan, er ekki alltaf ástæða fyrir umboðsmann til að beina tilmælum af þessu tagi til stjórnvalds, enda þótt fundið hafi verið að störfum þess.
   Niðurstaða umboðsmanns Alþingis í málum, sem hann fær til úrlausnar, er ekki að lögum bindandi fyrir stjórnvöld, en lög um embætti umboðsmanns Alþingis eru tvímælalaust á þeirri forsendu byggð, að stjórnvöld fari að tilmælum og ábendingum umboðsmanns Alþingis. Niðurstaða könnunar á fyrstu 2000 málum, sem komu til afgreiðslu hjá embætti mínu sýnir og, að í yfirgnæfandi tilfella fylgja stjórnvöld niðurstöðu minni. Að því er varðar almenn tilmæli um að gæta tiltekinna sjónarmiða eða fylgja tilteknum starfsháttum, er þó oft ekki unnt að sannreyna með óyggjandi hætti, hvort stjórnvöld hafi farið eftir þeim. Fáein dæmi eru um, að stjórnvöld hafi í fyrstu lýst efasemdum eða jafnvel andstöðu við þá niðurstöðu, sem ég hef komist að, en síðan horfið frá fyrri afstöðu. Einnig eru dæmi um, að stjórnvöldum hafi ekki tekist sem skyldi að koma í kring þeim lagfæringum á stjórnsýsluháttum, sem ábendingar mínar hafa lotið að.
   Í tíu tilvikum hafa stjórnvöld ýmist virt álit mín beinlínis að vettugi eða færst undan því að laga stjórnsýslu að þeim sjónarmiðum, sem fram koma í álitum mínum. Tilvik þessi eru rakin í IV. kafla hér á eftir.
   Nokkuð er misjafnt, hversu skjót viðbrögð stjórnvalda eru við tilmælum mínum. Almennt má segja, að ekki líði langur tími frá því að álit er sent stjórnvaldi, þar til hafist er handa við að framfylgja tilmælum. Dragist aðgerðir á langinn, er manneklu eða ónógum fjárveitingum oftast borið við. Um framvindu vinnu við að framfylgja tilmælum, má lesa í þeim kafla ársskýrslunnar, sem nefnist "upplýsingar vegna áður afgreiddra mála".
   Niðurstöður könnunarinnar um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum mínum eru eftirfarandi:
1.  Mál, þar sem ekki liggur annað fyrir en að stjórnvöld hafi þegar farið að tilmælum  175
2.  Mál, þar sem stjórnvöld hafa tilkynnt, að unnið sé að tillögum um viðbrögð við tilmælum  8
3.  Mál, þar sem stjórnvöld hafa ekki farið að tilmælum  10
4.  Mál, þar sem enn eru ekki komin viðbrögð frá stjórnvöldum  9

Viðbrögð stjórnvalda í málum, sem umboðsmaður hefur lokið með tilmælum um úrbætur, sbr. lið 3.4.2.

Í næsta kafla er gerð nánari grein fyrir málum, þar sem stjórnvöld hafa ekki farið að tilmælum mínum.

Efnisyfirlit

IV. Mál, þar sem stjórnvöld hafa ekki farið að tilmælum umboðsmanns.

Ársskýrsla 1988, bls. 24 og 32, og 1991, bls. 164.
   Svipting leyfis til aksturs leigubifreiða vegna ákvæða reglugerðar um hámarksaldur leigubifreiðastjóra.
(Mál nr. 20, 22 og 43/1988)

   Í þremur málum, er vörðuðu sviptingu leyfis til leigubifreiðaraksturs vegna aldurs leyfishafa, var það niðurstaða mín, að ákvæði 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 293/1985, um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík, hefði ekki nægilega lagastoð. Hefði sú ákvörðun umsjónarnefndar leigubifreiða, að svipta menn akstursleyfi með vísan til ákvæðis þessa því verið ólögmæt.
   Eftir að álit mitt í hinu fyrsta þessara mála lá fyrir (ársskýrsla 1988, bls. 24, mál nr. 22/1988), ritaði samgönguráðuneytið mér bréf 23. nóvember 1988. Í bréfinu sagði meðal annars:

   "Ráðuneytið mun ekki hlutast til um, að þeir leyfishafar, sem gert var að leggja inn atvinnuleyfi sín fyrir 1. júlí 1988, fái atvinnuleyfi sín á ný og vísar þar til rökstuðnings í bréfi sínu til yðar, dags. 5. september s.l."

   Í áliti mínu í máli nr. 20/1988 (ársskýrsla 1988, bls. 32), tók ég fram, að ég teldi framangreinda afstöðu ráðuneytisins óviðunandi, þar sem ég teldi, að lög hefðu verið brotin á kvartanda.
   Hinn 6. desember 1990 var í bæjarþingi Reykjavíkur kveðinn upp dómur í máli, er A, einn bifreiðarstjóranna þriggja, hafði höfðað gegn umsjónarnefnd leigubifreiða, samgönguráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Í málinu krafðist A þess, að felld yrði úr gildi sú ákvörðun umsjónarnefndarinnar, að svipta hann leyfi til aksturs leigubifreiða til mannflutninga og að honum yrðu greiddar skaða- og miskabætur. Í forsendum og niðurstöðum héraðsdómsins kom meðal annars eftirfarandi fram:

   "Ljóst er að samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar verður að koma til heimild í lögum til þess að binda gildi atvinnuleyfa við aldurshámark eða ótvíræð heimild til þess að kveða á um það í reglugerð að slíkum takmörkunum megi beita. Í því tilviki sem hér er um að ræða er hvorugu til að dreifa og verður því fallist á það með stefnanda [A] að hann hafi verið knúinn til þess að hætta rekstri leigubifreiðar án þess að til þeirrar valdbeitingar hafi verið gild heimild að lögum.
   Þótt rök kunni að hníga í þá átt að réttmætt sé og nauðsynlegt að binda atvinnuleyfi við ákveðinn aldur leyfishafa, þá þykja þau samt sem áður ekki hagga því að hér skortir lagagrundvöll."

   Voru A dæmdar skaðabætur í samræmi við það tjón, sem hann var talinn hafa orðið fyrir, en krafa hans um miskabætur var ekki tekin til greina.
   Dómi þessum var ekki áfrýjað.

Ársskýrsla 1989, bls. 19, og 1994, bls. 415.
   Afhending sjúkraskýrslna.
(Mál nr. 79/1989)

   A leitaði til mín og kvartaði yfir því, að yfirlæknir á tilgreindri geðdeild sjúkrahúss hefði synjað beiðni hans um að fá aðgang að skýrslum úr sjúkraskrá, er snertu vist hans á geðdeild haustið 1970. Í áliti mínu frá 29. desember 1989 komst ég að þeirri niðurstöðu, að réttur aðila til aðgangs að sjúkraskrá skv. ákvæði 16. gr. læknalaga nr. 53/1988 ætti við allar sjúkraskrár, hvort sem þær hefðu verið færðar fyrir eða eftir gildistöku laganna. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu hafði hlutaðeigandi geðlæknir, landlæknir eða heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ekki forgöngu um að afhenda A umrædda sjúkraskrá.
   Með 3. gr. laga nr. 50/1990 breytti Alþingi læknalögum á þá lund, að réttur sjúklings til aðgangs að sjúkraskrá gilti ekki um sjúkraskrár, sem færðar hefðu verið fyrir gildistöku laganna 1. júlí 1988. Þrátt fyrir að A hefði borið fram erindi sitt fyrir gildistöku þessara breytingarlaga, var honum synjað um afrit af umræddri skýrslu í sjúkraskrá sinni, þar sem hún hefði verið færð fyrir gildistöku nefndra laga.
   Með dómi Hæstaréttar frá 26. janúar 1995, (H 1995:167), voru þær kröfur A teknar til greina, að honum bæri réttur til aðgangs að sjúkraskrá sinni. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. svo:

   "Af þeim lagaákvæðum sem rakin hafa verið hér að framan er ljóst að sú meginregla var lögfest 1981 að einstaklingar eigi rétt á að kynna sér þær upplýsingar sem stjórnvöld hafa skráð um einkahagi þeirra nema mikilvægir almannahagsmunir eða hagsmunir einkaaðila mæli því í gegn. Þessi meginregla gildir einnig um sjúkraskrár. Hins vegar gilti það frávik um tilhögun kynningarinnar fyrir gildistöku læknalaga nr. 53/1988 að læknir viðkomandi átti að koma upplýsingunum á framfæri við hann.
   Með lögum nr. 53/1988 var þessari framkvæmd breytt í það horf sem 16. gr. segir fyrir um og var engin undantekning gerð í lögunum um sjúkraskrár sem gerðar höfðu verið fyrir gildistöku þeirra. Var breytingin staðfest í 10. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga þegar þau leystu af hólmi lög nr. 53/1988. Áfrýjandi miðaði beiðni sína við gildistöku laga nr. 53/1988 og hafði margítrekað hana áður en þeim var breytt með lögum nr. 50/1990. Átti hann skýlausan rétt á að stefndi [B] uppfyllti lagaskyldu sína án ástæðulausrar tafar eins og sagði í almenna ákvæðinu um rétt einstaklinga til upplýsinga í 10. gr. laga nr. 39/1985, sem í gildi voru þegar beiðni áfrýjanda kom fram.
   Lög nr. 50/1990 verða ekki skilin á þann veg að þau nái til upplýsinga sem þegar hafði verið óskað eftir fyrir gildistöku þeirra. Reynir því ekki á ákvæði þeirra við úrlausn um fyrrgreinda lagaskyldu stefnda [B].
   Af gögnum málsins kemur fram hver voru viðbrögð stefnda [B] við erindi áfrýjanda. Verður að skilja þau svo að honum hafi þótt vafi leika á um nauðsyn afhendingar gagnanna. Bar honum því að fara að fyrirmælum 2. mgr. 16. gr. laga nr. 53/1988 og afhenda þau landlækni. Átti landlæknir síðan að annast frekari afgreiðslu erindis áfrýjanda. Hins vegar varð stefndi [B] ekki við tilmælum landlæknis, sem fram komu í bréfi þess síðarnefnda frá 23. ágúst 1989, um að afhenda sér skrárnar eða afrit þeirra. Samkvæmt 18. gr. laganna var stefndi [B] háður eftirliti landlæknis og bar landlækni að sjá til þess að hann héldi ákvæði þeirra og knýja hann til þess samkvæmt ákvæðum VII. kafla laganna ef annað dugði ekki til, sbr. einnig I. kafla laga nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu, nú lög nr. 97/1990.
   Samkvæmt þessari niðurstöðu á áfrýjandi rétt á að fá afrit allra sjúkraskráa, sem um hann hafa verið gerðar og eru í vörslum stefnda [B], með þeim hætti sem að neðan greinir. Með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 53/1988, nú 4. mgr. greinarinnar, sbr. lög nr. 50/1990, ber stefnda [B] að framkvæma það með því að skila afriti allra sjúkraskráa hans til landlæknis innan eins mánaðar frá uppsögu dóms þessa að viðlagðri tíu þúsund króna sekt fyrir hvern dag sem líður fram yfir þann tíma [...]".

   Með setningu laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, var sú takmörkun á rétti sjúklinga til aðgangs að eigin sjúkraskrá, sem komið var á með 3. gr. laga nr. 50/1990, felld brott. Hinn 1. júlí 1997, er lög nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, tóku gildi, öðluðust sjúklingar því á ný rétt til aðgangs að þeim hlutum sjúkraskrár, sem færðir höfðu verið fyrir 1. júlí 1988.

Ársskýrsla 1989, bls. 117, og 1992, bls. 189.
   Réttur til að skjóta ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðar félagsmálaráðuneytis.
(Mál nr. 78/1989 og mál nr. 139/1989)

   I.
   Á árinu 1989 bárust mér tvær kvartanir út af álagningu gatnagerðargjalda samkvæmt samþykktum um gatnagerðargjöld, settum með heimild í lögum nr. 51/1974, um gatnagerðargjöld, sbr. lög nr. 31/1975 um breytingu á þeim lögum, og staðfestum af félagsmálaráðuneytinu.
   Í bréfi, er ég ritaði félagsmálaráðherra 29. september 1989, lét ég í ljós það álit, að ágreiningur gjaldanda og sveitarstjórnar um lögmæti álagningar gatnagerðargjalds heyrði undir úrskurðarvald félagsmálaráðuneytisins. Þá beindi ég þeim tilmælum til ráðuneytisins, að það endurskoðaði afstöðu sína í þessu efni og legði úrskurð á framangreind tvö mál.
   Fyrrgreindu bréfi mínu svaraði félagsmálaráðuneytið í bréfi, dags. 25. janúar 1990, en þar segir meðal annars:

   "Bréfum yðar, annarsvegar frá 3. febrúar 1989 og 26. apríl 1989 varðandi kvörtun [A] út af álagningu gatnagerðargjalda á [X] og hins vegar frá 13. júní 1989 varðandi kvörtun [B] út af álagningu gatnagerðargjalda á [Y] hefur ráðuneytið svarað með bréfum dags. 4. apríl 1989, 22. júní 1989 og 26. júní 1989 og vísast til þess sem þar segir, en það er í megindráttum þess efnis að ráðuneytið telji sér hvorki rétt né skylt að skera úr ágreiningi milli gjaldanda og sveitarstjórnar um lögmæti álagningar nema skýlaus kæruheimild til ráðuneytisins sé í þeim lögum sem álagningarheimildin hefur stoð í. Slík heimild sé ekki í lögum um gatnagerðargjöld nr. 51/1974 og því heyri slíkur ágreiningur sem hér um ræðir undir dómstóla.
   Í þessu sambandi vill ráðuneytið sérstaklega taka fram að hvorugur þeirra manna sem hér um ræðir hafa beðið ráðuneytið um álit eða úrskurð vegna meintrar óréttmætrar álagningar gatnagerðargjalda.
   Að því er varðar tilmæli yðar um að ráðuneytið leggi úrskurð á framangreind ágreiningsmál á grundvelli 119. gr. sveitarstjórnarlaga, telur ráðuneytið eigi unnt að leggja þann skilning í greinina hvorki samkvæmt orðanna hljóðan né af athugasemdum með frumvarpinu, að ráðuneytið skuli úrskurða um ágreining gjaldanda og sveitarstjórnar um lögmæti álagningar gatnagerðargjalds.
   Ráðuneytið leggur þann skilning í 119. gr. að með orðunum "framkvæmd sveitarstjórnarmálefna" sé átt við innri málefni sveitarfélags þ.e. að ráðuneytið skuli úrskurða um vafaatriði sem upp kunna að koma við meðferð mála í sveitarstjórnum svo sem hvort gætt hafi verið réttra fundarskapa, fundur hafi verið réttilega boðaður, mál hafi [verið] réttilega fyrir lögð o.s.frv.
   Á liðnum árum hefur ráðuneytið kveðið upp allmarga úrskurði um meðferð mála í sveitarstjórnum á grundvelli sveitarstjórnarlaga en ekki talið sig hafa heimild til að úrskurða um ágreining milli einstaklinga og sveitarstjórna nema sérstök kæruheimild hafi verið fyrir hendi í sérlögum eins og t.d. er í 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978.
   Með vísun til framanritaðs telur ráðuneytið ekki efni til, að óbreyttum lögum, að verða við tilmælum yðar um að úrskurða um kvartanir sem til yðar hafa borist út af álagningu gatnagerðargjalda."

   Að fenginni afstöðu ráðuneytisins ákvað ég að fjalla um nefndar kvartanir, sbr. ársskýrslu 1992, bls. 189. Vegna kvartana, sem síðar bárust mér og vörðuðu álagningu gatnagerðargjalda (mál nr. 1349/1995 og 2168/1997), beindi ég enn fyrirspurnum til félagsmálaráðuneytisins um það, hvort það teldi sig bært til að úrskurða í málum þessum. Í svörum félagsmálaráðuneytisins kom fram, að sú afstaða ráðuneytisins væri óbreytt, að það teldi sig ekki vera bært til að úrskurða um lögmæti álagningar gatnagerðargjalds skv. lögum nr. 51/1974.
   Viðurkennt er í lögfræði, að málskotsréttur styðst iðulega við aðrar réttarheimildir en bein ákvæði settra laga. Í umfjöllun um þetta atriði málsins í ársskýrslu 1989, bls. 117-119, gerði ég grein fyrir því, að alveg sérstök rök lægju til þess, að ágreiningi um lögmæti gatnagerðargjalda yrði skotið til félagsmálaráðuneytisins til úrskurðar. Ekki fengi staðist, að ágreiningur milli sveitarstjórnar og gjaldanda út af álagningu gatnagerðargjalda væri "einkaréttarlegs eðlis". Ég taldi orðalag 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 benda til rýmri málskotsréttar en haldið var fram af félagsmálaráðuneytinu. Í greinargerð með frumvarpi til laga um umboðsmann Alþingis var gert ráð fyrir víðtækum málskotsrétti, sbr. Alþt. 1986, A-deild, bls. 2560.
   Ný lög um gatnagerðargjald, lög nr. 17/1996, tóku gildi 1. janúar 1997. Í ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum segir, að hin eldri lög gildi um "innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974, sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku" laganna.
   Ég skrifaði félagsmálaráðuneytinu bréf 28. ágúst 1997 þar sem ég óskaði eftir því að ráðuneytið upplýsti, hvort það teldi sig bært til að úrskurða um lögmæti álagningar gatnagerðargjalda eftir gildistöku laga nr. 17/1996, enda þótt lög nr. 51/1974 giltu um álagningu og innheimtu ákveðinna gjalda skv. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í nýjum lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996. Í svari ráðuneytisins frá 15. september 1997 er vísað til þess, að orðalag 5. gr. laga nr. 17/1996, þar sem kveðið er á um kæruheimild til félagsmálaráðherra, sé með þeim hætti, að aðili máls geti skotið ákvörðun sveitarstjórnar um álagningu gatnagerðargjalds til félagsmálaráðherra, hvort sem um sé að ræða álagningu samkvæmt lögum nr. 51/1974 eða samkvæmt lögum nr. 17/1996. Félagsmálaráðuneytið telur sig því, eftir gildistöku laga nr. 17/1996 1. janúar 1997, bært til að úrskurða um lögmæti álagningar og innheimtu gatnagerðargjalds, hvort sem álagningin er samkvæmt lögum nr. 17/1996 eða eldri lögum nr. 51/1974.

Ársskýrslur 1990, bls. 172, 1992, bls. 326, og 1994, bls. 416.
   Ekki fallist á að staða hefði verið lögð niður.
(Mál nr. 227/1990)

   Í áliti mínu í tilefni af kvörtun A komst ég að þeirri niðurstöðu, að ekki hefði verið staðið löglega að starfslokum A hjá ríkisstofnuninni X. Staða A hjá stofnuninni var lögð niður með ákvörðun samgönguráðuneytisins, að fenginni tillögu forstöðumanns X. Fram kom í málinu, að raunveruleg ástæða starfsloka A hjá stofnuninni hefði verið tilteknar ávirðingar hans í starfi. Ég taldi því, að ekki hefði verið um raunverulega niðurlagningu stöðu að ræða í skilningi 14. gr. þágildandi laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, heldur hefði átt að fara með málið samkvæmt 7.-13. gr. laganna.
   Samgönguráðuneytið rétti ekki hlut A í samræmi við niðurstöðu álitsins. Leitaði A til dómstóla í því skyni að fá greiddar bætur vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Hinn 11. maí 1995 gekk í Hæstarétti dómur í máli, er A hafði höfðað gegn samgönguráðherra f.h. X og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs (H 1995:1347). Í forsendum dómsins sagði svo:

   "Ágreiningslaust er í málinu að stefndi hlaut skipun [...] við [X] á árinu 1965. Erindisbréf til hans [...] var gefið út 1. október 1969. Í héraðsdómi er rakinn aðdragandi þess að stefnda var tilkynnt með bréfi samgönguráðherra 7. september 1989, að starf hans hjá [X] yrði lagt niður frá og með 1. janúar 1990. Eins og málið liggur fyrir verður að telja að afrýjendum hafi ekki tekist að sýna fram á, að aðrar efnislegar forsendur en þær, sem beint tengdust stefnda, hafi ráðið því að staða hans var lögð niður. Að því athuguðu og að öðru leyti með vísan til raka héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans, að staðan hafi ekki verið lögð niður í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
   [...]
   ... þykja bætur til stefnda hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur. Ber að greiða þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi í héraði."

Ársskýrsla 1993, bls. 312, og 1994, bls. 418.
   Stjórn hreindýraveiða. Valdmörk stjórnvalda. Lagaheimild gjaldtöku. Lagaheimild stjórnvaldsfyrirmæla. Veiðiréttur. Eignaskerðing.
(Mál nr. 670/1992)

   Í framhaldi af áliti mínu í ofangreindu máli, dags. 18. maí 1993, ritaði ég umhverfisráðherra bréf, dags. 5. janúar 1995. Þar segir:

   "I.
   Hinn 18. maí 1993 sendi ég yður álit mitt í tilefni af kvörtun [A], sbr. skýrslu mína fyrir árið 1993, bls. 312. Niðurstaða álitsins var meðal annars sú, að lög nr. 28/1940, sbr. lög nr. 72/1954, hefðu ekki að geyma lagaheimild til heimtu gjalds fyrir hreindýraveiðileyfi í því skyni að standa straum af kostnaði við nánar tilgreind verkefni veiðistjóraembættisins, en til þess hefði þurft sérstaka lagaheimild. Þá var einnig bent á, að óheimilt væri að nota gjöld þessi til greiðslu kostnaðar af hreindýraráði, enda færi það ótvírætt í bága við 2. gr. laga nr. 28/1940, þar sem sérstaklega var ákveðið, að greiða skyldi úr ríkissjóði kostnað vegna þeirra manna, sem ráðnir yrðu til aðstoðar yfirvöldum landsins við eftirlit með því að lögunum yrði hlítt og til þess að hafa að öðru leyti eftirlit með hreindýrum.

   II.
   Hinn 5. nóvember 1993 ritaði ég ráðuneyti yðar bréf og óskaði eftir upplýsingum um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af umræddu áliti mínu. Svör ráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 7. febrúar 1994, og eru þau rakin á bls. 324-325 í skýrslu minni fyrir árið 1993. Í bréfinu segir meðal annars:

   "Ráðuneytið tekur sérstaklega fram að eining hefur ríkt um stjórn hreindýraveiða á Austurlandi fyrir utan kvörtun [A] og taldi ráðuneytið því afar óheppilegt að breyta stjórn hreindýraveiða sumarið og haustið 1993."

   Í framhaldi af svörum ráðuneytisins ritaði ég því enn á ný bréf, dags. 17. febrúar 1994, og spurðist fyrir um, hvort skilja bæri ummælin svo, að gjaldtöku þeirri, sem fjallað var um í fyrrnefndu áliti mínu, hefði verið haldið áfram árið 1993, án þess að tryggð hefði verið nægjanleg lagaheimild til að verja gjöldunum til að greiða kostnað af hreindýraráði og kostnað við tiltekin verkefni veiðistjóraembættisins. Svör ráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 17. maí 1994. Þar segir:

   "Ráðuneytið hélt áfram umræddri gjaldtöku sumarið og haustið 1993, því eins og áður hefur komið fram taldi ráðuneytið afar óheppilegt að breyta stjórn hreindýraveiða, þar sem fyrirhugað var að leggja fram á Alþingi þá um haustið frumvarp til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðrum en hvölum, sem síðar var gert."

   Í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 1. desember 1994, voru framangreindar upplýsingar um gjaldtöku á árinu 1993 staðfestar.

   III.
   Í skýrslu minni fyrir árið 1992, bls. 9, vakti ég athygli Alþingis á því, að stjórnvöld virtust oft grípa til setningar reglugerða eða annarra ráðstafana, þótt til þess væri ekki viðhlítandi grundvöllur í lögum. Væru ýmis mál á sviði gjaldtöku og skattheimtu dæmi um slíkt.
   Samkvæmt 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, svo og þeirri grundvallarreglu íslensks réttar, að stjórnsýslan sé bundin af lögum, er það aðeins á valdi Alþingis að ákveða með lögum, hvenær innheimtir skuli skattar og þjónustugjöld. Ef stjórnvald hefur ekki viðhlítandi lagaheimild, er því óheimilt að heimta gjald af borgurunum og skiptir ekki máli, þótt stjórnvald telji slíka gjaldheimtu "heppilega". Það samrýmist því hvorki nefndri grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar né vönduðum stjórnsýsluháttum, að umhverfisráðuneytið skuli hafa haldið áfram óbreyttri ráðstöfun umrædds gjalds, án þess að hafa til þess viðhlítandi lagaheimild, sérstaklega þegar þess er gætt, að í framangreindu áliti mínu hafði athygli ráðuneytisins verið vakin á því, að ráðstöfun gjaldsins hefði ekki lagastoð og færi í bága við lög."

Ársskýrsla 1995, bls. 214.
   Frjálsi lífeyrissjóðurinn. Staðfesting reglugerðar. Lögmætisregla.
(Mál nr. 1204/1994 og 1754/1996)

   Í áliti mínu í máli nr. 1204/1994 var komist að þeirri niðurstöðu, að synjun fjármálaráðuneytisins um staðfestingu á breyttri reglugerð fyrir Frjálsa lífeyrissjóðinn hefði verið ólögmæt. Beindi ég þeim tilmælum til ráðuneytisins, að það tæki erindi Frjálsa lífeyrissjóðsins til meðferðar að nýju og leysti úr því í samræmi við niðurstöðu framangreinds álits, ef ósk kæmi fram um það frá fyrirsvarsmönnum sjóðsins.
   Með bréfi, dags. 27. mars 1996, sendi Frjálsi lífeyrissjóðurinn mér á ný erindi, en bréfinu fylgdi bréf fjármálaráðuneytisins frá 14. mars 1996. Þar segir:

   "Ráðuneytið vísar til erindis yðar dags. 31. október og 10. janúar s.l. varðandi staðfestingu á reglugerð sjóðsins.
   Í reglugerðinni er gert ráð fyrir því að sjóðnum verði skipt í deildir eftir fjárfestingastefnu. Ráðuneytið hafði áður hafnað sams konar beiðni. Sú synjun var borin undir umboðsmann Alþingis sem taldi í áliti sínu frá 6. október s.l. að synjunin væri ekki lögmæt.
   Eins og yður mun kunnugt skipaði fjármálaráðherra nefnd s.l. haust um lífeyrismál. Nefndin hefur að undanförnu unnið að samningu frumvarps um rekstur og fjárfestingu lífeyrissjóða og er sú vinna langt komin. Í frumvarpið verða m.a. settar ítarlegar reglur um fjárfestingar lífeyrissjóða, rekstur þeirra og innra eftirlit. Ráðuneytið hefur af þeim sökum ákveðið að samþykkja ekki breytingar á reglugerðum lífeyrissjóða af því tagi sem hér um ræðir enda má ætla að innan tíðar verði tekið á umræddum atriðum með lagasetningu.
   Að lokum er beðist velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur [á] að svara erindinu."

   Ég lauk umfjöllun minni um þessa síðari kvörtun Frjálsa lífeyrissjóðsins, sem snerti í raun sama mál og áður hafði verið fjallað um, með áliti dags. 8. janúar 1998 (mál nr. 1754/1996).
   Í álitinu hnykkti ég á þeirri niðurstöðu minni í fyrra áliti mínu, dags. 6. október 1995, að ákvarðanir fjármálaráðuneytisins varðandi staðfestingar á reglugerðum fyrir lífeyrissjóði yrðu að eiga sér fullnægjandi lagagrundvöll. Yrði þar að byggja á þeim lagaákvæðum, sem um þetta efni fjölluðu á hverjum tíma. Hefði þetta í meginatriðum verið viðurkennt af hálfu fjármálaráðuneytisins. Varðandi þann þátt málsins, er varðaði viðbrögð fjármálaráðuneytisins við fyrra áliti mínu, benti ég á, að við meðferð á nýju erindi Frjálsa lífeyrissjóðsins hefði ráðuneytið horfið frá fyrri afstöðu og synjað um staðfestingu reglugerðar sjóðsins á þeirri forsendu einni, að löggjöf um lífeyrissjóði væri í sjónmáli. Miðað við þá afstöðu, sem fram kom í bréfum fjármálaráðuneytisins til Frjálsa lífeyrissjóðsins og til mín, hafi orðið að líta svo á, að ráðuneytið hefði ákveðið að skjóta því á frest að afgreiða erindi sjóðsins með formlegum hætti, uns fyrir lægi, hvort sett yrði almenn löggjöf um lífeyrisréttindi og starfsemi lífeyrissjóða. Ég tók fram, að borgararnir ættu rétt á því, að stjórnvöld afgreiddu mál þeirra svo fljótt sem unnt væri á grundvelli þeirra laga og stjórnvaldsfyrirmæla, sem í gildi væru, þegar þeir bæru fram erindi sín við stjórnvöld, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það væri almennt ekki á valdi stjórnvalda að ákveða að bíða með afgreiðslu mála langtímum saman, þar til settar hefðu verið nýjar reglur, heldur yrðu stjórnvöld að beita þeim réttarheimildum, sem í gildi væru á hverjum tíma við úrlausn mála. Auk þess hefði fjármálaráðuneytið á engan hátt byggt á því við fyrri meðferð á máli Frjálsa lífeyrissjóðsins, að ákvæði í löggjöf, sem síðar kynnu að verða sett, ættu að skipta máli við afgreiðslu erindisins. Þvert á móti hefði afstaða ráðuneytisins ótvírætt verið sú, bæði við meðferð á erindi Frjálsa lífeyrissjóðsins í hið fyrra sinn og við afgreiðslu mína á kvörtun sjóðsins, að við ákvörðun um staðfestingu á reglugerð fyrir sjóðinn yrði einungis horft til gildandi réttarreglna. Ég taldi því ástæðu til að finna að því, að fjármálaráðuneytið skyldi síðar hafa tekið aðra afstöðu.
   Í niðurstöðu álits míns sagði m.a. svo:

   "Fyrir liggur samkvæmt framansögðu, að fjármálaráðuneytið hefur virt álit mitt frá 6. október 1995 að vettugi, svarar ekki erindum mínum, þrátt fyrir endurteknar ítrekanir, fyrr en liðið er á annað ár, eftir að ég hef óskað skýringa í tilefni af kvörtun, gefur engar skýringar á drættinum, þótt eftir þeim sé leitað, og þegar svör loks berast, eru þau ófullnægjandi. Að mínum dómi má telja, að fjármálaráðuneyti skeri sig að þessu leyti verulega úr miðað við önnur stjórnvöld. Af þessum sökum tel ég rétt að gera forsætisráðherra og forseta Alþingis grein fyrir þessu máli með því að senda þeim þetta álit mitt.
   [...]
   Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að sú ákvörðun fjármálaráðuneytisins, að afgreiða ekki erindi Frjálsa lífeyrissjóðsins um staðfestingu á reglugerð fyrir sjóðinn með formlegum hætti á grundvelli gildandi laga, hafi verið ólögmæt.
   Þá tek ég eftirfarandi fram:
   Með viðbrögðum sínum við áliti mínu frá 6. október 1995 í máli Frjálsa lífeyrissjóðsins og erindum mínum í tilefni af kvörtun sjóðsins í kjölfar álitsins og með afstöðu sinni hefur fjármálaráðuneytið, að mínum dómi, gert hvorttveggja í senn, aukið rangindi þau, sem það hafði áður beitt Frjálsa lífeyrissjóðinn, og lagt stein í götu starfs umboðsmanns Alþingis. Af þeim sökum sendi ég forsætisráðherra og forseta Alþingis þetta álit mitt."

   Hinn 23. janúar 1998 bárust mér afrit bréfa, er fjármálaráðherra sendi forsætisráðherra og forseta Alþingis, ásamt sérstakri greinargerð ráðuneytisins í tilefni af framangreindu máli. Í greinargerð þessari segir m.a. um viðbrögð ráðuneytisins við álitum mínum:

   "Þeim skýringum, sem réðu efnislegri afstöðu fjármálaráðuneytisins í tilvitnuðum málum og raktar eru síðar í greinargerðinni, er á engan hátt ætlað að bera í bætifláka fyrir ráðuneytið vegna málsmeðferðar og annmarka í samskiptum við umboðsmann Alþingis. Fjármálaráðuneytið viðurkennir réttmæti þeirrar gagnrýni og þau mistök, sem því hefur orðið á, í efnistökum og málsmeðferð."

   Hinn 29. janúar 1998 átti ég fund með fjármálaráðherra ásamt ráðuneytisstjóra og yfirlögfræðingi fjármálaráðuneytisins um framangreint mál. Á fundinum voru samskipti ráðuneytisins og embættis umboðsmanns Alþingis rædd. Af hálfu ráðherra var gefin yfirlýsing um það, að í framtíðinni yrði hraðað svörum við bréfum umboðsmanns Alþingis.
   Með bréfi, dags. 3. febrúar 1998, tilkynnti ég ráðuneytinu, með vísan til þeirra fyrirheita, sem gefin voru á framangreindum fundi, að afskiptum mínum af málinu væri lokið.

Efnisyfirlit

V. "Meinbugir á lögum".

Í ársskýrslum mínum fyrir árin 1988 til 1997 er að finna 42 mál, þar sem ég hef vakið athygli Alþingis á "meinbugum á lögum" á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Hér á eftir fer stutt reifun á þessum málum, auk umfjöllunar um 3 mál, sem ekki hafa birst í ársskýrslum. Jafnframt er þess getið, hvað gert hefur verið í því skyni að bæta úr hlutaðeigandi annmörkum.

1. Ársskýrsla 1988, bls. 23, mál nr. 35/1988.
         Ábending um breytingar á lagareglum um gjafsókn.
   Hinn 20. september 1988 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf og vakti athygli hans á því, að í 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, væri kveðið svo á, að snerti kvörtun réttarágreining, sem ætti undir dómstóla og eðlilegt væri að þeir leystu úr, gæti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Væri umboðsmanni heimilt að leggja til við dómsmálaráðuneytið að það veitti gjafsókn í því skyni. Í nefndaráliti allsherjarnefndar um fyrrnefndar reglur kemur meðal annars fram, að nefndin leggi mikla áherslu á, að umboðsmaður Alþingis fái heimild til að veita gjafsókn, þar sem um nýtt embætti sé að ræða, sem ætlað sé að stuðla að réttarbótum í þjóðfélaginu og treysta rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Gerði nefndin að tillögu sinni, að næsta reglulega Alþingi tæki til sérstakrar athugunar ákvæði XI. kafla laga nr. 85/1936, um gjafsókn (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 3896). Af þessari endurskoðun varð hins vegar ekki.
   Með lögum nr. 91/1991 voru sett ný lög um meðferð einkamála. Ákvæði um gjafsókn er að finna í XX. kafla laganna. Þar er heldur ekki ákvæði, sem veitir dóms- og kirkjumálaráðherra heimild til þess að veita gjafsókn að tillögu umboðsmanns Alþingis.
   Í d-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er nú heimild til handa umboðsmanni til að leggja til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli, sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar.

2. Ársskýrsla 1988, bls. 45, mál nr. 70/1988.
         Mannréttindaákvæði í íslenskum lögum.
   Hinn 29. desember 1988 ritaði ég forsætisráðherra og forsetum Alþingis samhljóða bréf. Þar var vakin athygli þeirra á ófullkomnum ákvæðum til verndar mannréttindum í íslenskum lögum. Þannig vantaði í íslensku stjórnarskrána almenn ákvæði um veigamikil mannréttindi, svo sem skoðanafrelsi, jafnrétti, bann við afturvirkum refsilögum, vernd fjölskyldulífs og rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Ákvæði íslensku stjórnarskárinnar um félagsleg mannréttindi væru og fábrotin. Þá væru mörg mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar ófullkomin, svo sem um trúfrelsi, rétt handtekinna manna, friðhelgi heimilis, prentfrelsi og um félagafrelsi. Tilgreindi ég nokkur dæmi þess, sem betur mætti fara. Vísaði ég til þess, að Ísland væri aðili að þýðingarmiklum alþjóðasamningum um mannréttindi, en íslensk lög gengju a.m.k. að ýmsu leyti skemmra í vernd mannréttinda en þeir. Gæti þetta valdið vanda í lagaframkvæmd hér á landi og jafnframt orðið til þess að íslenska ríkið yrði dregið til ábyrgðar fyrir þeim alþjóðastofnunum, sem ætlað væri að framfylgja nefndum mannréttindasamningum. Benti ég á, að úrbætur gætu orðið með endurskoðun mannréttindaákvæða íslensku stjórnarskrárinnar en einnig kæmi til greina að taka umrædda mannréttindasáttmála eða hluta þeirra í íslensk lög.
   Með lögum nr. 62/1994 var Mannréttindasáttmála Evrópu veitt lagagildi á Íslandi. Að þessu er vikið í ársskýrslu 1993, bls. 9. Með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 voru mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar endurskoðuð.

3. Ársskýrsla 1989, bls. 7, mál nr. 224/1989.
         Setning stjórnsýslulaga.
   Ég vakti að eigin frumkvæði athygli forsætisráðherra á því, hvort ekki væri tímabært að leggja fyrir Alþingi frumvarp til stjórnsýslulaga. Í bréfi, sem ég skrifaði forsætisráðherra af þessu tilefni hinn 29. desember 1989, benti ég á, að samhliða frumvarpi til laga um umboðsmann Alþingis hefði á sínum tíma verið lagt fram frumvarp til stjórnsýslulaga, en það hefði ekki orðið útrætt. Taldi ég af ýmsum ástæðum brýnt, að stjórnsýslulög yrðu sett. Til dæmis benti ég á, að í skráðum lögum væri ekki til að dreifa almennum reglum um rétt manna til að kynna sér gögn í vörslu stjórnvalda. Ekki væru í skráðum lögum almennar reglur um hæfi innan stjórnsýslunnar og á ýmsum sviðum stjórnsýslu væri ekki svo skýrt sem skyldi, hvaða rétt menn ættu til að skjóta máli sínu til æðra stjórnvalds.
   Hinn 18. desember 1992 lagði forsætisráðherra fram frumvarp til stjórnsýslulaga og var það samþykkt sem lög frá Alþingi og birt sem lög nr. 37/1993.

4. Ársskýrsla 1989, bls. 90, mál nr. 83/1989.
         Sáttaumleitan vegna hjónaskilnaðar.
   Með lögum nr. 28/1981, um breytingu á lögum nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, voru sáttanefndir lagðar niður. Af þeim sökum var þess ekki kostur, að fólk gæti leitað til aðila, sem ekki starfaði í tengslum við trúfélög, um sáttatilraun vegna hjónaskilnaðar, en 44. gr. laga nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, voru hins vegar reist á því meginsjónarmiði, að þess skyldi völ. Ég taldi, að um væri að ræða meinbugi á gildandi lögum og að nauðsynlegt væri að úr því yrði bætt.
   Með lögum nr. 132/1989, um breyting á lögum um stofnun og slit hjúskapar, var ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna breytt á þá lund, að auk þess að geta leitað til presta og löggiltra forstöðumanna trúfélaga gætu hjón, ef annað eða bæði væru utan trúfélaga, leitað til yfirvalds um sættir, áður en til skilnaðar kæmi samkvæmt ákvæðinu. Ákvæði hliðstæðs efnis er nú í 4. mgr. 42. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993.

5. Ársskýrsla 1990, bls. 87, mál nr. 104/1989.
         Tegundarprófun símtækja.
   Með fjarskiptalögum nr. 73/1984 var innflutningur og verslun með notendabúnað gefinn frjáls. Póst- og símamálastofnuninni var með lögum þessum falið eftirlit með því að seldur búnaður uppfyllti tæknikröfur, en stofnunin jafnframt skylduð til að hafa sjálf slíkan búnað á boðstólum. Ég benti á, að ástæða væri til að þessi skipan yrði endurskoðuð með hliðsjón af þeim viðhorfum, sem fram kæmu í lögum nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, svo og einnig jafnræðisreglum stjórnarfarsréttar.
   Eins og nánar greinir í ársskýrslu 1992, bls. 326, voru sett lög nr. 32/1993, um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 73/1984. Með þessum lögum var sett á fót sérstök stofnun, Fjarskiptaeftirlit ríkisins, sem falið var meðal annars að annast tegundarprófun símtækja.

6. Ársskýrsla 1990, bls. 93, mál nr. 102/1989.
         Tannlæknakostnaður fanga.
   Fanginn A kvartaði yfir því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði synjað að greiða kostnað við tannviðgerðir fanga. Það var niðurstaða mín í málinu, að ákvæði 5. tölul. 2. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, legðu þá skyldu á fangelsismálastofnun að sjá til þess, að í fangelsum væri veitt sú heilbrigðisþjónusta, sem lög nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, kvæðu á um, þ. á m. þjónusta tannlækna. Aftur á móti kom ekki fram í lögum, hver greiða ætti fyrir heilsugæslu fanga. Ég vakti athygli Alþingis, dóms- og kirkjumálaráðherra, svo og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á þessum meinbugum á lögum.
   Eins og nánar er gerð grein fyrir í ársskýrslu 1996, bls. 648, hefur Fangelsismálastofnun sett reglur um tannlæknisþjónustu við fanga og greiðslu kostnaðar af henni.

7. Ársskýrsla 1990, bls. 97, mál nr. 170/1989.
         Agaviðurlög í fangelsum.
   Ég taldi, að ákvörðun um agaviðurlög í fangelsum samkvæmt 26. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, gæti hæglega farið í bága við ákvæði 5. og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Kom ég þeirri ábendingu á framfæri við dóms- og kirkjumálaráðherra og Alþingi, að samræma þyrfti ákvæði íslenskra laga fyrrnefndum ákvæðum sáttmálans. Væri þá jafnframt rétt að taka almennt til athugunar á ný, hvernig haga bæri ákvörðun agaviðurlaga á hendur föngum meðal annars með tilliti til sjónarmiða um samkvæmni, sanngirni og réttaröryggi.
   Eins og nánar er gerð grein fyrir í ársskýrslu 1991, bls. 170, voru sett lög nr. 31/1991, um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, þar sem breytt var meðal annars ákvæðum 26. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist.

8. Ársskýrsla 1990, bls. 129, mál nr. 171/1989.
         Ákvörðun ríkissaksóknara um niðurfellingu máls.
   Ég taldi, að ekki væru rök til að finna að þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að fella niður mál án frekari rannsóknar, þar sem hæpið væri að í gildandi lögum hefði verið viðhlítandi heimild til refsingar fyrir þá háttsemi, sem læknirinn X var sakaður um. Aftur á móti vakti ég athygli Alþingis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og landlæknis á því, að í lög skorti viðhlítandi heimildir til að refsa fyrir misneytingu læknis gagnvart sjúklingi með hliðstæðum hætti og væri, ef brot læknisins væri í opinberu starfi. Taldi ég, að ástæða væri til að endurskoða refsiákvæði læknalaga í þessu ljósi.
   Með bréfi, dags. 22. maí 1998, greindi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mér frá þeirri niðurstöðu sinni, að eftir þær breytingar, sem orðið hefðu á ákvæðum almennra hegningarlaga með lögum nr. 40/1992, teldi ráðuneytið ekki þörf á sérstakri breytingu á ákvæðum læknalaga, til þess að heimilt yrði að refsa lækni fyrir misneytingu gagnvart sjúklingi, hvort sem brot væri framið í opinberu starfi eða ekki. Með bréfinu fylgdi álit Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem ráðuneytið hafði aflað af þessu tilefni. Í álitinu kemur m.a. fram, að með áorðinni breytingu á ákvæðum almennra hegningarlaga falli misneyting læknis gagnvart sjúklingi undir XXII. kafla laganna og sé því sérstök lagabreyting nú óþörf.

9. Ársskýrsla 1990, bls. 197, mál nr. 86/1989.
         Vextir og verðbætur á ofgreiddu skattfé.
   Það var niðurstaða mín í máli þessu, að því er snerti endurgreiðslu á ofgreiddu staðgreiðslufé og vexti og verðbætur í því sambandi, að lagareglur, sem um þetta giltu, gætu leitt til mismununar eftir því, hvort um væri að ræða endurgreiðslu á staðgreiðslu skv. 18. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, eða endurgreiðslu að lokinni álagningu, sbr. 34. gr. sömu laga og 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Taldi ég nauðsynlegt að leitað yrði leiða til þess að ráða bót á þessu.
   Með lögum nr. 31/1995, um breytingar á lögum er varða rétt til endurgreiðslu og vaxta af ofteknum sköttum og gjöldum, voru samræmdar betur reglur um vexti og verðbætur á ofgreiddu skattfé í lögum nr. 45/1987, með síðari breytingum, og lögum nr. 75/1981, með síðari breytingum.

10. Ársskýrsla 1990, bls. 202, mál nr. 176/1989.
         Skráning og gjaldskylda færanlegra krana.
   Ég vakti athygli á því, að af hálfu stjórnvalda væru færanlegir kranar bæði taldir ökutæki og vinnuvélar. Það leiddi til þess að tryggja þurfti kranann ábyrgðartryggingu í sama flokki og vörubifreið. Jafnframt var kraninn tryggður sem vinnuvél. Þá þurfti einnig að greiða þungaskatt af krananum og gjöld til Vinnueftirlits ríkisins.
   Dóms- og kirkjumálaráðuneytið tilkynnti mér með bréfi, dags. 13. janúar 1992, að reglugerð um gerð og búnað ökutækja hefði verið breytt, og sett í hana nýtt ákvæði, er snerti skilgreiningu ökutækja. Ákvæðinu væri ætlað að vera til skýringar og fyllingar við flokkun ökutækja, þ. á m. um það, hvort ökutæki teldist bifreið eða vinnuvél.

11. Ársskýrsla 1991, bls. 17, mál nr. 80/1989.
         Valdsvið framkvæmdastjórnar Ferðamálaráðs.
   Ég taldi ástæðu til þess að vekja athygli Alþingis og samgönguráðherra á því, að þörf væri á að endurskoða lög um skipulag ferðamála með það fyrir augum að setja skýrari fyrirmæli um valdsvið framkvæmdastjórnar Ferðamálaráðs. Í lögunum væri aðeins fjallað um skipan framkvæmdastjórnarinnar, en ekki um hlutverk og valdsvið hennar gagnvart Ferðamálaráði eða ferðamálastjóra. Væri þessi annmarki til þess fallinn að valda réttaróvissu.
   Sett hafa verið lög nr. 117/1994, um skipulag ferðamála. Í þeim eru ákvæði um hlutverk og valdsvið framkvæmdastjórnar Ferðamálaráðs.

12. Ársskýrsla 1991, bls. 26, mál nr. 384/1991.
         Afturköllun löggildingar vigtarmanns.
   Ég taldi, að lög nr. 60/1915, um löggilta vigtarmenn, væru ófullkomin. Þar væri til dæmis ekki fjallað um þau hæfisskilyrði, sem maður yrði að uppfylla til þess að geta fengið og haldið löggildingu sem vigtarmaður, og ekki væru þar heldur neinar reglur um réttindi og skyldur vigtarmanna. Slík atriði væri mun eðlilegra að hafa í lögum en í stjórnvaldsfyrirmælum. Taldi ég því að endurskoða bæri lög nr. 60/1915.
   Eins og fram kemur í ársskýrslu 1992, bls. 327, voru sett nánari ákvæði um löggilta vigtarmenn í IV. kafla laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.

13. Ársskýrsla 1991, bls. 104, mál nr. 365/1990.
         Afhending pósts til annarra en skráðra viðtakenda.
   Ég taldi, að í ákvæðum 22., 86. og 88. gr. gjaldþrotalaga nr. 6/1978 fælist nægjanleg heimild, samkvæmt undirstöðurökum þeirra, fyrir skiptaráðanda til að gera ráðstafanir til að fá afhentan frá Póst- og símamálastofnun póst þrotamanns, sem teldist til þeirra eigna hans, er féllu undir skiptin. Hins vegar væri hvorki í póstlögum nr. 33/1986 né gjaldþrotalögum viðhlítandi lagastoð fyrir fyrirmælum í reglugerð nr. 161/1990, um póstþjónustu, um heimild póstyfirvalda til að afhenda skiptaráðendum póst þrotamanns. Taldi ég þörf á því að endurskoða gildandi póstlög með það fyrir augum að setja skýrari ákvæði í lög um heimild Póst- og símamálastofnunar til þess að afhenda póstsendingar öðrum en skráðum viðtakendum. Mæltist ég til þess að samgönguráðuneytið og Póst- og símamálastofnunin hygði að breytingum á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum í þeim efnum.
   Eins og fram kemur í ársskýrslu 1996, bls. 649, hafa verið sett lög nr. 142/1996, um póstþjónustu. Í 3. mgr. 33. gr. þeirra er heimild til að afhenda skiptastjórum póstsendingar til þrotamanna.

14. Ársskýrsla 1991, bls. 116, mál nr. 293/1990.
         Kaupskrárnefnd.
   Í máli, er snerti úrskurði Kaupskrárnefndar um starfsmenn Varnarliðsins, vakti það athygli mína, að reglur skorti um starfssvið Kaupskrárnefndar og málsmeðferð hjá henni. Ég vakti athygli Kaupskrárnefndar og utanríkisráðherra á þessu og beindi þeim tilmælum til þeirra að tekið yrði til athugunar, hvort ekki væri rétt að setja reglur um þessi atriði.
   Af framangreindu tilefni setti utanríkisráðherra reglur nr. 708/1994, um kaupskrárnefnd varnarsvæða.

15. Ársskýrsla 1992, bls. 40, mál nr. 497/1991.
         Frestun á réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar samkvæmt byggingarlögum.
   Ég tók fram í áliti mínu varðandi meðferð umhverfisráðuneytisins á kæru vegna byggingarleyfis, að í ólögfestum tilvikum yrði að telja, að æðra stjórnvald hefði oft heimild til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, á meðan kæra væri til meðferðar hjá því, ef sérstakar ástæður mæltu með því. Taldi ég að slík heimild væri t.d. fyrir hendi, þegar hvort tveggja væri, að heimild væri til kæru máls til æðra stjórnvalds og hið æðra stjórnvald færi jafnframt með yfirstjórn þeirra mála, sem um væri að ræða, og gæti í sumum tilvikum tekið upp mál til meðferðar að eigin frumkvæði. Þegar æðra stjórnvald hefði slíkt vald og gæti bæði fellt ákvörðun lægra stjórnvalds úr gildi og tekið nýja ákvörðun, yrði að líta svo á, að æðra stjórnvald gæti þá gert það, sem minna væri, að fresta réttaráhrifum ákvarðana lægra stjórnvalds, á meðan mál væri til kærumeðferðar hjá því, ef sérstakar ástæður mæltu með því. Þar sem telja yrði, að umhverfisráðuneytið hefði að meginstefnu slíka stöðu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, yrði að líta svo á, að það hefði heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar lægra stjórnvalds í byggingarmálum, á meðan þau væru til kærumeðferðar í ráðuneytinu, ef sérstakar ástæður mæltu með því. Í því sambandi væri ástæða til að árétta, að kæruheimild til ráðuneytisins yrði í sumum tilvikum þýðingarlaus í raun, væri frestunarheimild ekki til að dreifa. Ég vakti athygli Alþingis og umhverfisráðherra á því, að ekki væri skýrt ákvæði í byggingarlögum um slíka frestunarheimild umhverfisráðherra á kærðum ákvörðunum. Þar þyrfti að taka af allan vafa.
   Í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur verið sett almennt ákvæði um heimild til þess að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, á meðan kæra er til meðferðar, þegar ástæður mæla með því.
   Með nýjum skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála komið á fót. Kveður nefnd þessi upp fullnaðarúrskurði um ágreiningsmál á sviði skipulags- og byggingarmála. Í 5. mgr. 8. gr. laganna er ákvæði, sem heimilar nefndinni að kveða upp úrskurð um stöðvun framkvæmda, sem kærðar hafa verið til hennar.

16. Ársskýrsla 1992, bls. 111, mál nr. 436/1991.
         Lagaákvæði um skemmtanaleyfi.
   Ég rakti í áliti mínu lagareglur um skemmtanaleyfi, m.a. ákvæði reglugerðar nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, en reglugerðin var sett með stoð í 8. og 11. gr. laga nr. 56/1972, um lögreglumenn, og 1. gr. laga nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma. Vakti ég athygli Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra á því, að lagaákvæði um skemmtanaleyfi væru ófullkomin og að nauðsynlegt væri að framangreind reglugerð hefði skýra lagastoð. Vísaði ég í því sambandi til þess, að ákvæði reglugerðinnar gætu í sumum tilvikum verið mjög íþyngjandi í garð borgaranna. Þá taldi ég, að mörg af ákvæðum reglugerðarinnar væri eðlilegra að hafa í lögum en í reglugerð. Þyrfti þannig að koma fram í lögum, í hvaða tilvikum þyrfti skemmtanaleyfi, hvaða almenn skilyrði þyrfti að uppfylla til þess að fá skemmtanaleyfi, hvaða sérstökum skilyrðum heimilt væri að binda skemmtanaleyfi, í hvaða tilvikum afturkalla mætti slíkt leyfi og hvaða heimild lögregluyfirvöld skyldu hafa til að slíta skemmtunum. Þá væri æskilegt, ef ætlunin væri að láta leyfishafa greiða einhvern kostnað af löggæslu, að setja mun skýrari og ítarlegri reglur um það en kæmu fram í 8. gr. laga nr. 56/1972, um lögreglumenn.
   Með 34. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 hafa verið sett ákvæði um sérstakan löggæslukostnað. Samkvæmt ákvæðinu er lögreglustjóra heimilt að binda skemmtanaleyfi því skilyrði, að lögreglumenn verði á skemmtistað og jafnframt að leyfishafi greiði kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum, sem dómsmálaráðherra setur.
   Með bréfi, dags. 15. júlí 1996, tilkynnti dóms- og kirkjumálaráðuneytið mér, að hinn 20. september 1995 hefði dóms- og kirkjumálaráðherra skipað nefnd til að gera tillögur um endurskoðun á gildandi lagareglum um skilyrði fyrir veitingu leyfis til áfengisveitinga og um rekstur skemmtistaða. Hefði nefndinni einnig verið falið að gera tillögur um eftirlit með áfengisveitingahúsum og gjaldtöku í því sambandi. Þá væri það m.a. hlutverk nefndarinnar að gera tillögur um endurskoðun reglna um skemmtanaleyfi. Fyrirhugað væri að nefndin skilaði drögum að lagafrumvarpi, er lyti að þeim atriðum, sem fram kæmu í framangreindu áliti í ágústmánuði 1996. Yrðu þá tillögur nefndarinnar teknar til athugunar í ráðuneytinu.
   Með bréfi, dags. 21. apríl 1998, tilkynnti dóms- og kirkjumálaráðuneytið mér, að síðastliðið haust hefði dómsmálaráðherra mælt fyrir frumvarpi til áfengislaga á Alþingi, sem meðal annars hefði verið samið til að koma til móts við sjónarmið mín í umræddu máli. Enn væri unnið að frumvarpi til laga um skemmtanahald, og væri stefnt að því að unnt yrði að leggja það fyrir Alþingi á komandi hausti.
   Framangreint frumvarp til áfengislaga varð að lögum nr. 75/1998. Í V. kafla laganna er ákvæði um vínveitingaleyfi og skilyrði fyrir útgáfu þeirra.

17. Ársskýrsla 1992, bls. 151, mál nr. 382/1991.
         Bótaréttur þess sem ranglega er gengið framhjá við stöðuveitingu.
   Ég komst að þeirri niðurstöðu í áliti mínu, að við ráðningu tiltekins manns í tollvarðarstöðu hefði ákvörðun veitingarvaldsins verið ótæk bæði um undirbúning og niðurstöðu, þar sem í veigamiklum atriðum hefði verið brotið í bága við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Vísaði ég til þess, að þegar gengið væri fram hjá þeim umsækjanda, sem hæfastur væri, gæti það bakað stjórnvaldi bótaskyldu gagnvart honum, ef fjártjón sannaðist. Slíkur bótaréttur væri umsækjanda hins vegar oft haldlítill, þar sem iðulega væri aðeins um miska að ræða. Í lögum væri ekki að finna viðhlítandi lagaheimild til að bæta miska í slíkum tilvikum, þegar frá væru talin lög nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Taldi ég, að í lögum ætti að vera víðtækari heimild til að bæta miska, þegar stjórnvöld hefðu brotið rétt á mönnum við stöðuveitingar.
   Eins og nánar greinir í ársskýrslu 1992, bls. 158, ritaði fjármálaráðuneytið mér bréf, dags. 12. mars 1993, þar sem fram kemur, að í tengslum við heildarendurskoðun á lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, yrði athugað sérstaklega, hvort ástæða væri til að setja í lög heimildir til að bæta miska, þegar stjórnvöld hafa brotið rétt á mönnum við stöðuveitingar.
   Með lögum nr. 70/1996 voru sett ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þeim er ekki heimild til að bæta miska við framangreindar aðstæður.
   Ég ritaði fjármálaráðherra bréf, dags. 8. apríl 1998. Óskaði ég þar eftir upplýsingum um, hvort tekin hafi verið afstaða til þess við samningu framangreinds frumvarps, hvort taka bæri í lög almennt ákvæði um rétt til miskabóta.
   Í svari fjármálaráðuneytisins, dags. 8. júní 1998, kemur meðal annars fram, að settar hafi verið reglur um auglýsingar á lausum störfum (nr. 464/1996), sem leggi ríkari skyldur á stjórnvöld um auglýsingar á lausum störfum en áður hafi verið. Sá rammi, sem reglurnar, auk stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og upplýsingalaga nr. 50/1996, setji stjórnvöldum um veitingu starfa, eigi að tryggja að rétt sé að málum staðið. Hafi því ekki verið talin sérstök þörf á að gera ráð fyrir því í frumvarpinu, að réttur yrði brotinn á mönnum í þessum efnum, þ.e. með því að lögfesta almennt ákvæði um rétt til miskabóta.

18.-21. Ársskýrsla 1992, bls. 189, árskýrsla 1994, bls. 239, 244 og 254, mál nr. 78/1989, 714/1992, 840/1993, 826/1993.
         Gatnagerðargjöld.
   Ég taldi, að ekki væri lagaheimild til að leggja á og innheimta svonefnt B-gatnagerðargjald, fyrr en lokið væri þeim framkvæmdum, sem greindi í 4. gr. laga nr. 51/1974, um gatnagerðargjöld. Þá væri ekki í lögum heimild til álagningar og innheimtu sérstaks gatnagerðargjalds, ef það væri lagt á í einu lagi bæði vegna slitlags og lagningar gangstéttar, fyrr en báðum þessum verkþáttum væri lokið. Ég taldi, að verulegur vafi léki á, að fyrirmæli í 1. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 319/1981, um gatnagerðargjöld í Siglufirði, fengju yfirleitt samrýmst 4. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 51/1974. Sami vafi risi um gildi samskonar eða svipaðra ákvæða í mörgum öðrum reglugerðum um gatnagerðargjöld. Þar við bættist, að ákvæði 4. og 5. gr. laga nr. 51/1974 um fjárhæð gjalds, sem innheimta mætti samkvæmt 3. gr., væru ekki skýrt orðuð og tengsl milli efnisreglna þeirra óljós. Ég taldi, að óviðunandi óvissa væri um skilyrði laga til álagningar og heimtu sérstaks gatnagerðargjalds samkvæmt 3. gr. laga nr. 51/1974 og ýmsum reglugerðum settum með heimild í þeim lögum. Þá væri sá galli á stjórnsýsluframkvæmd, að vegna afstöðu félagsmálaráðuneytisins ættu gjaldendur þess engan kost að skjóta álagningu gatnagerðargjalds til æðra stjórnvalds. Taldi ég, að brýnt væri að endurskoða lög nr. 51/1974 og vakti athygli Alþingis og félagsmálaráðherra á því. Ítrekaði ég þessa afstöðu síðar í þremur málum, sem fjallað er um í ársskýrslu 1994, bls. 239, 244 og 254.
   Sett voru ný heildarlög um gatnagerðargjöld með lögum nr. 17/1996. Samkvæmt 5. gr. laganna getur aðili máls skotið ákvörðun sveitarstjórnar um álagningu gatnagerðargjalds til úrskurðar félagsmálaráðherra. Lög þessi tóku gildi 1. janúar 1997.
   Hins vegar er í lögunum ákvæði til bráðabirgða þess efnis, að eldri lög skuli gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974, sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku hinna nýju laga. Ákvæði eldri laga um álagningu gjalda vegna slíkra framkvæmda gilda þó einungis um lóðir, sem úthlutað hefur verið eða veitt hefur verið byggingarleyfi til að byggja á fyrir gildistöku nýrri laganna. Ég hef ákveðið að taka þessa tilhögun varðandi gildistöku laganna til athugunar að eigin frumkvæði vegna hugsanlegra meinbuga á lögum.

22. Ársskýrsla 1992, bls. 230, mál nr. 649/1992.
         Gjald fyrir löggildingu endurskoðenda.
   Í álitinu tók ég fram, að þau mistök hefðu orðið við setningu laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, að kveðið væri á um gjald fyrir löggildingu endurskoðenda á tveimur stöðum, annars vegar í 10. tl. 10. gr. laganna, þar sem gjaldið var tiltekið 25.000 kr., og hins vegar í 9. tl. 10. gr. laganna, þar sem gjaldið var tiltekið 75.000 kr. Væru þessar reglur ósamrýmanlegar. Í niðurstöðu álitsins komst ég að þeirri niðurstöðu, að taka bæri 25.000 kr. fyrir löggildingu endurskoðenda skv. 10. tl. 10. gr. laga nr. 88/1991. Vakti ég athygli forseta Alþingis og fjármálaráðherra á þeim "meinbugum", sem væru á 9. og 10. tl. 10. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.
   Með lögum nr. 51/1994, um breyting á lögum n. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, var ákvæði 10. gr. laganna breytt. Eftir lagabreytinguna þarf að greiða 5.000 kr. fyrir útgáfu leyfa og skírteina vegna veitingar atvinnuréttinda og tengdra réttinda.

23. Ársskýrsla 1992, bls. 304, mál nr. 481/1991.
         Tollverð notaðra bifreiða.
   Í álitinu rakti ég þær skýringar fjármálaráðuneytisins varðandi reglur um tollverð notaðra bifreiða, að þar sem töluverð brögð hefðu verið að því, að upp hefðu verið gefnar rangar upplýsingar um kaupverð slíkra ökutækja við innflutning, hefðu verið settar reglur, sem viku frá þeirri meginreglu tollalaga, að vörureikningur skyldi lagður til grundvallar tollverði. Þeirri skipan var komið á, að tollverð skyldi vera matsverð bifreiðar að viðbættu flutningsgjaldi til landsins, vátryggingargjaldi svo og öðrum kostnaði. Matsverð skyldi vera fob-verð nýjustu árgerðar ökutækis af sömu tegund að frádreginni fyrningu, sem væri reiknaður hundraðshluti fyrir hvern aldursmánuð ökutækis. Af þessum sökum þurfti að veita innflytjendum notaðra ökutækja upplýsingar um fob-verð nýrra bifreiða. Ég taldi, að slíkar upplýsingar yrði almennt að telja þess eðlis, að réttmætir hagsmunir bifreiðaumboða krefðust þess, að leynd hvíldi um slík viðskiptakjör þeirra. Ég benti hins vegar á, að innflytjendur notaðra ökutækja hefðu hagsmuni af því, að ekki léki vafi á, hvert tollverð ökutækis væri, en til þess að reikna mætti það út, samkvæmt fyrrnefndum reglum, yrðu upplýsingar um fob-verð nýjustu árgerða ökutækja af sömu tegund að vera aðgengilegar. Árekstrar milli þessara andstæðu hagsmuna væru því óhjákvæmilegir. Tók ég fram, að eitt af markmiðum tollalaga nr. 55/1987 hefði einmitt verið að eyða óvissu um tollverð vara í samræmi við 7. gr. GATT-samkomulagsins og Tollverðssamþykktarinnar, og samrýmdist því þessi skipan illa markmiði tollalaganna. Tollyfirvöld höfðu brugðist við þessum vanda með því að takmarka heimild starfsmanna tollyfirvalda til að veita upplýsingar um fob-verð nýrra bifreiða og sett starfsreglur í því sambandi. Ég benti hins vegar á, að framkvæmd tollyfirvalda í landinu virtist ekki hafa verið samræmd um það, í hvaða tilvikum slíkar upplýsingar skyldu veittar. Af þessum sökum beindi ég þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins, að réttarreglur um tollverð notaðra ökutækja yrðu teknar til endurskoðunar með það fyrir augum að leysa framangreind vandamál. Færi hins vegar svo, að fjármálaráðuneytið teldi óhjákvæmilegt að miða tollverð notaðra bifreiða við fob-verð nýrra bifreiða, bæri brýna nauðsyn til að settar yrðu skýrar reglur um það, hverjum veita mætti upplýsingar um þetta verð og þá nánar í hvaða tilvikum og með hvaða hætti.
   Eins og nánar greinir í ársskýrslu 1994, bls. 417, var 2. mgr. 12. gr. laga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987, felld úr gildi með 5. gr. laga nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Brast þar með lagastoð fyrir reglugerð nr. 261/1991, um tollverð notaðra ökutækja. Við álagningu aðflutningsgjalda ber því að gildandi lögum að leggja til grundvallar viðskiptaverð hinnar notuðu bifreiðar.

24. Ársskýrsla 1992, bls. 312, mál nr. 621/1992.
         Stjórnsýslukæra til ríkistollanefndar.
   Ég tók að eigin frumkvæði til athugunar skilyrði stjórnsýslukæru til ríkistollanefndar. Tilefnið var, að ég hafði orðið þess var við athuganir á kvörtunum og ábendingum, sem mér höfðu borist, hve þröng kæruheimild innflytjenda væri skv. 100. og 101. gr. tollalaga nr. 55/1987. Meðal skilyrða þess, að ríkistollanefnd tæki mál til efnismeðferðar, væri að tollstjóri hefði kveðið upp úrskurð í málinu skv. 100. gr. tollalaga. Til að tollstjóri tæki mál til kæranlegs úrskurðar, yrði hins vegar sending eða vara að vera í vörslu farmflytjanda eða póststofnunar, eða tollstjóri að hafa veitt sérstaka heimild til afhendingar hennar þrátt fyrir framkomna kæru, sbr. 2. málsl. 100. gr. tollalaga. Skilyrði þetta var rökstutt með því, að illmögulegt gæti verið að staðreyna, hvernig vara hefði verið úr garði gerð, er hún var tekin til tollmeðferðar, en aðflutningsgjöld miðuðust við tollflokkun á því tímamarki. Ég taldi skilyrðið ganga mun lengra en nauðsyn væri til. Benti ég á í því sambandi, að ágreiningur, sem borinn væri undir tollyfirvöld, væri ekki alltaf um gerð vöru, og jafnvel þegar svo stæði á, kynni innflytjandi að geta framvísað vörunni og sýnt fram á með nokkuð tryggum hætti, að hún hefði ekki tekið breytingum. Taldi ég því æskilegt, að umrædd skilyrði 2. málsl. 100. gr. tollalaga yrðu tekin til endurskoðunar. Þá taldi ég þörf á að kanna, hvort ekki væri ástæða til að heimila kæru á ákvörðunum ríkistollstjóra skv. 142. gr. tollalaga nr. 55/1987, þ.e. bindandi upplýsingum ríkistollstjóra um tollflokkun vöru samkvæmt ósk innflytjanda. Ég áleit einnig nauðsyn bera til að endurákvarðanir tollstjóra á tolli, skv. 99. gr. tollalaga nr. 55/1987, yrðu kæranlegar til ríkistollanefndar.
   Með lögum nr. 69/1996, um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, var breytt ákvæðum laga um skilyrði kæru til tollstjóra og stjórnsýslukæru til ríkistollanefndar. Lög nr. 69/1996 hafa í för með sér, að heimilt verður að kæra til ríkistollanefndar endurákvörðun ríkistollstjóra skv. 35. gr. tollalaga og ákvörðun tollstjóra um bindandi upplýsingar um tollflokkun vöru skv. 142. gr. tollalaga.

25. Ársskýrsla 1993, bls. 83, mál nr. 753/1993.
         Viðmiðunarreglur gjafsóknarnefndar.
   Ég vakti í áliti mínu athygli Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra á því, að lagaheimild skorti til að setja í reglugerð skýr viðmiðunarmörk um fjárhag umsækjanda sem skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar. Það skilyrði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sem lyti að efnahag umsækjanda, væri annað af tveimur viðbótarskilyrðum laganna fyrir veitingu gjafsóknar. Ákvæðið hefði komið í stað 2. tl. 1. mgr. 172. gr. laga nr. 85/1936, sem setti það að skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar, að umsækjandi væri svo illa stæður fjárhagslega, að hann mætti ekki vera án þess fjár, sem til málarekstursins færi. Ákvæði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 veittu nánari leiðbeiningar en áður um það, við hvað mat á efnahag umsækjanda gæti miðast. Þó væru hvorki í lögunum, eða reglugerð þeim tengdri, sett frekari viðmiðunarmörk um efnahag umsækjanda, svo sem um ákveðin tekju- eða eignamörk. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 91/1991 væri vísað til frumvarps til laga um opinbera réttaraðstoð, sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi 1990, en var ekki afgreitt. Samkvæmt því frumvarpi var gert ráð fyrir, að sett yrði reglugerð til viðmiðunar um tekju- og eignamörk, til leiðbeiningar fyrir gjafsóknarnefnd. Slík heimild væri ekki í lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Taldi ég rök til þess að taka slíkt heimildarákvæði í lög, þar sem það yrði umsækjendum um gjafsókn til leiðbeiningar.
   Með 4. gr. laga nr. 38/1994, um breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, var bætt ákvæði við 2. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991, þess efnis, að dóms- og kirkjumálaráðherra gæti sett nánari reglur í reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar, þar á meðal um viðmiðunarmörk í mati hennar á skilyrðum fyrir gjafsókn skv. a-lið 1. mgr. 126. gr.

26. Ársskýrsla 1993, bls. 249, mál nr. 820/1993.
         Endurgreiðsla oftekins fjár.
   Ég vakti athygli Alþingis og fjármálaráðherra á því, að ekki nyti við settra lagareglna um endurgreiðslu ofgreiddra opinberra gjalda. Fyrir lægju úrlausnir Hæstaréttar, þar sem endurgreiðslukröfu þess, sem ranglega hefði greitt opinber gjöld til ríkissjóðs, var hafnað, þar sem greiðslan hefði verið innt af hendi án fyrirvara. Ég tók fram, að enda þótt færa mætti veigamikil rök að því að slík regla væri ekki eðlileg í samskiptum ríkisins við greiðendur opinberra gjalda, yrði að ætla, að um gildandi rétt væri að ræða, nema honum yrði breytt með lögum eða niðurstöðu dómstóla.
   Með lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, voru lögfest þau nýmæli, að stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, skyldu endurgreiða það fé, sem ofgreitt reyndist lögum samkvæmt ásamt vöxtum, óháð því hvort gjaldandi hefði greitt með fyrirvara eða ekki. Skulu stjórnvöld hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum, þegar þeim verður ljóst, að ofgreitt hefur verið.

27. Ársskýrsla 1994, bls. 41, mál nr. 1071/1994.
         Atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs.
   Ég vakti athygli Alþingis og samgönguráðherra á því, að ég teldi, að við endurskoðun laga nr. 77/1989 ætti að taka til rækilegrar athugunar, hvort nægileg rök væru til að setja skilyrði um aldurshámark manna, sem leyfi hafa til leiguaksturs á svæðum þar sem takmarkanir gilda, en ekki annarra atvinnubifreiðastjóra. Þá taldi ég, að í því samhengi ætti að taka til sérstakrar athugunar stöðu þeirra, er fengið hefðu án fyrirvara og nýtt sér átölulaust í framkvæmd svokölluð "útgerðarleyfi", en í þeim fólst að leyfishafi hefði heimild til að ráða annan mann til aksturs leigubifreiðar hans, í skjóli eigin leyfis. Loks ítrekaði ég mikilvægi þess að stjórnsýsluframkvæmd, sem varðaði mikilvæg réttindi manna, væri skýr og örugg, svo og mikilvægi þess, að lög, sett af Alþingi væru skýr og ótvíræð og reglur þær, sem lögfestar væru, almennar, skýrar og fyrirsjáanlegar og hefðu ekki afturvirk réttaráhrif til óhagræðis fyrir þá, sem réttinda nytu, er ný lög tækju gildi.
   Með 5. tölul. 3. gr. laga nr. 61/1995, um leigubifreiðar, var lögfest, að þeir, sem ækju bifreið í leiguakstri skyldu vera 70 ára eða yngri. Samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 7. gr. laganna er þó heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa, ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar eftir því sem nánar sé ákveðið í reglugerð. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða skyldu þeir, sem stunduðu leiguakstur á fólksbifreið utan takmörkunarsvæða við gildistöku laganna, uppfylla skilyrði þeirra og afla sér atvinnuleyfis á árinu 1995.

28. Ársskýrsla 1994, bls. 104, mál nr. 818/1993.
         Eftirlit Húsnæðisstofnunar ríkisins með framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga.
   Ég vakti athygli Alþingis og félagsmálaráðherra á því, að ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993, er mæltu fyrir um eftirlit Húsnæðisstofnunar ríkisins með framkvæmdum og húsbyggingum byggingarsamvinnufélaga, væru ekki nægilega skýr, og því til þess fallin að valda réttaróvissu. Taldi ég brýnt, að ákvæði þessi yrðu endurskoðuð, sem og ákvæði reglugerðar nr. 90/1985, um byggingarsamvinnufélög, sem um þetta fjalla. Ég taldi sérstaka ástæðu til að árétta, að mikilvægt væri að lagaákvæði um opinbert eftirlit gæfu ávallt skýrlega til kynna, að hvaða þáttum eftirlitið skyldi snúa, hvernig haga bæri eftirlitinu, þ. á m. um upplýsingaöflun, og loks til hvaða úrræða stjórnvald gæti gripið, ef í ljós kæmi að eftirlitsskyld starfsemi væri ekki í samræmi við lög. Ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 97/1993 uppfylltu ekki framangreind skilyrði.
   Með 5. gr. laga nr. 150/1995, um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, sbr. lög nr. 12/1994 og nr. 58/1995, var umrædd málsgrein felld brott.

29. Ársskýrsla 1994, bls. 172, mál nr. 931/1993.
         Skráning mannanafna í þjóðskrá Hagstofu Íslands.
   Fram kom, að nokkur munur væri við framkvæmd löggjafar um mannanöfn, þar sem full nöfn þeirra einstaklinga, sem heita mjög löngum nöfnum eða mörgum eiginnöfnum, yrðu ekki skráð í þjóðskrá. Ég taldi nauðsyn bera til, að tekið yrði til athugunar, hvort fært væri að breyta þessu. Yrði slíkum breytingum ekki komið við, taldi ég nauðsynlegt að settar yrðu skýrar reglur um það, með hvaða hætti skyldi brugðist við, þegar fullt nafn yrði ekki skráð í þjóðskrá.
   Í áliti mínu tók ég fram, að samkvæmt 21. gr. laga nr. 37/1991, um mannanöfn, gæti Hagstofa Íslands heimilað að nafnritun væri breytt, án þess að um eiginlega nafnbreytingu væri að ræða, og skyldi við slíka breytingu á nafnritun farið eftir reglum, sem Hagstofan setti að höfðu samráði við mannanafnanefnd. Slíkar reglur höfðu ekki verið settar, en framkvæmd Hagstofu Íslands hafði verið fastmótuð um árabil. Ég taldi nauðsynlegt að slíkar reglur yrðu settar sem fyrst, þannig að þær væru aðgengilegar almenningi og að ekki ríkti óvissa um gildandi reglur á þessu sviði. Beindi ég þeim tilmælum til Hagstofu Íslands að slíkar reglur yrðu settar.
   Eins og nánar er vikið að í árskýrslu 1994, bls. 179, gerði ráðherra Hagstofu Íslands mér grein fyrir því, að unnið væri að gerð nýs tölvukerfis fyrir Hagstofu Íslands og væri stefnt að því að stafarými fyrir nöfn yrði án takmarkana, en það var ekki raunhæfur kostur, er núverandi tölvukerfi var tekið upp.
   Í ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 45/1996, um mannanöfn, er kveðið svo á, að Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, skuli við gildistöku laganna setja reglur um skráningu nafna, þegar ekki er unnt að skrá nafn manns að fullu í þjóðskrá og ekki næst samkomulag um, hvernig með skuli fara.

30. Ársskýrsla 1994, bls. 261, mál nr. 877/1993.
         Málskotsréttur til óháðs úrskurðaraðila (yfirskattanefndar).
   Í áliti mínu rakti ég ákvæði um kæruheimild út af álagi á vanskilafé í staðgreiðslu, svo og ákvæði laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Ég tók fram, að þrátt fyrir það að úrskurðarvald í ágreiningsmálum út af staðgreiðslu opinberra gjalda og vald til ákvörðunar sekta hefði verið lagt undir yfirskattanefnd, er hún var sett á stofn, hefði ekki verið hróflað við 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Taldi ég það þó orka tvímælis, að sú lagagrein gengi framar yngri almennum ákvæðum um kæruheimild, svo sem byggt virtist á í úrskurði yfirskattanefndar. Í því sambandi benti ég sérstaklega á valdsvið yfirskattanefndar, eins og það væri ákveðið í lögum, og stöðu nefndarinnar sem óháðs úrskurðaraðila á stjórnsýslustigi. Benti ég á, að sérstök og rík ástæða væri til málskotsréttar til óháðs úrskurðaraðila á borð við yfirskattanefnd í málum út af álagi á vanskilafé, þar sem álag þetta væri refsikennd viðurlög. Var það niðurstaða mín, að nauðsyn bæri til að taka til athugunar að fela yfirskattanefnd með ótvíræðum hætti að fjalla um niðurfellingu álags samkvæmt 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987.
   Með 2. gr. laga nr. 139/1995, um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, var 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 felld brott.

31. Ársskýrsla 1994, bls. 295, mál nr. 761/1993.
         Stjórnsýsla í grunnskóla.
   Ég taldi þörf á því, að reglugerð nr. 512/1975, um skólareglur o.fl. í grunnskóla, yrði endurskoðuð með tilliti til þess, að fylgja bæri ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning og meðferð máls, svo og við ákvarðanir, sem telja yrði stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Þá yrði að telja, að ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 512/1975, þar sem mælt er fyrir um málskot til barnaverndarnefndar, skorti lagastoð.
   Með 3. mgr. 41. gr. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, er nú lögfest að málskot í framangreindum málum sé til menntamálaráðuneytis í stað barnaverndarnefndar.
   Sett hefur verið reglugerð nr. 385/1996, um skólareglur og aga í grunnskólum, í stað ofangreindrar reglugerðar nr. 512/1975. Í reglugerðinni er m.a. mælt fyrir um þær málsmeðferðarreglur, sem fylgja ber, þegar tekin er ákvörðun um, hvort víkja beri nemanda úr skóla. Þá er svo um mælt í 4. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, að óheimilt sé að víkja nemanda að fullu úr skóla, nema honum hafi verið tryggt annað úrræði.

32. Ársskýrsla 1995, bls. 97, mál nr. 1189/1994.
         Úrlausn um rof skilyrða reynslulausnar.
   Fangelsismálastofnun og dóms- og kirkjumálaráðuneytið lýstu því, vegna ákvörðunar um afplánun eftirstöðva dæmdrar refsingar, að hinn dæmdi hefði rofið skilorð með því að hafa gerst sekur um ótvíræð hegningarlagabrot. Ég taldi yfirlýsinguna ekki samræmast 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem dómur hefði ekki gengið um þessa háttsemi hins dæmda. Tók ég fram, að ákvarðanir fangelsismálastofnunar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefðu verið teknar, áður en Mannréttindasáttmáli Evrópu öðlaðist lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994. Taldi ég, að með lögfestingu sáttmálans hefði verið tekið af skarið um, að í rökstuðningi með úrlausn um reynslulausn mætti ekki lýsa því yfir, að fangi hefði gerst sekur um ótvírætt refsilagabrot, ef dómur hefði ekki gengið vegna sakarefnisins. Hins vegar tók ég fram, að mannréttindasáttmálinn útilokaði ekki, að í þessu efni væri byggt á því að rökstuddur grunur lægi fyrir um refsivert brot. Beindi ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það beitti sér fyrir því,að rökstuðningur í málum sem þessum samrýmdist 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, og tæki til athugunar, hvaða lagabreytingar væru nauðsynlegar í þessu sambandi.
   Dóms- og kirkjumálaráðuneytið tilkynnti með bréfi dags. 6. mars 1996, að fangelsismálastofnun hefði að svo stöddu hætt að taka ákvarðanir um skilorðsrof. Hefði lagaskrifstofu ráðuneytisins verið falið það verkefni að undirbúa breytingu á hegningarlögum og reglugerð.
   Með bréfi, dags. 17. apríl 1998, upplýsti ráðuneytið að ákvæði 2. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga hefði ekki verið endurskoðað. Ráðuneytið hafi hins vegar beint því til refsiréttarnefndar, að málefnið yrði tekið til athugunar svo fljótt sem unnt væri.

33. Ársskýrsla 1995, bls. 151, mál nr. 1302/1994.
         Málskot til barnaverndarráðs.
   Ég tók til umfjöllunar, hvort ákvörðun barnaverndarnefndar um tímabundið fóstur tilgreindra barna, sem tvímælalaust var stjórnvaldsákvörðun, væri kæranleg til barnaverndarráðs sem æðra stjórnvalds, enda þótt ákvörðunin hefði ekki verið tekin í formi úrskurðar. Í 1. mgr. 49. gr. laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, væri mælt fyrir um heimild til að skjóta úrskurðum barnaverndarnefndar til fullnaðarúrskurðar barnaverndaráðs og jafnframt lögbundið, hvaða ákvörðunum skyldi ráðið til lykta með úrskurði, sbr. 45. gr. laganna. Var það skilningur félagsmálaráðuneytisins, að ákvæði 49. gr. fælu í sér tæmandi talningu á því, hvaða ákvörðunum barnaverndarnefnda yrði skotið til barnaverndarráðs, en aðrar stjórnvaldsákvarðanir en þær, sem teknar væru með úrskurði, yrðu kærðar til félagsmálaráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og 3. gr. laga nr. 58/1992. Ég tók fram, að með lögum nr. 22/1995 hefði barnaverndarlögum verið breytt og sett á fót undirstofnun félagsmálaráðuneytisins, barnaverndarstofa, sem hefði samkvæmt lögunum það hlutverk að veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf, auk þess að hafa eftirlit með störfum þeirra, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1992. Þeim ákvörðunum barnaverndarnefndar, sem ekki væru teknar með formlegum úrskurði, yrði því skotið til barnaverndarstofu og þaðan til úrlausnar félagsmálaráðuneytisins. Með hliðsjón af tilgangi breytinga á barnaverndarlöggjöfinni með lögum nr. 58/1992, sem var meðal annars að skilja að þau fyrri ólíku hlutverk barnaverndarráðs, að veita barnaverndarnefndum ráðgjöf annars vegar og fara með úrskurðarvald sem æðra stjórnvald hins vegar, var það niðurstaða mín, að það samrýmdist ekki þessum tilgangi, að barnaverndarstofa færi nú með bæði þessi hlutverk. Þá taldi ég það ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, að sitt hvort stjórnvaldið kæmi fram sem æðra stjórnvald gagnvart barnaverndarnefndum, eftir því hvaða reglur giltu um form ákvörðunar, og að það þjónaði betur sjónarmiðum um réttaröryggi, að ákvörðunum yrði skotið til barnaverndarráðs, sem væri sérstaklega skipað með tilliti til sérþekkingar ráðsmanna á málefnum barna. Af þessum sökum taldi ég að skýring ráðuneytisins á 1. mgr. 49. gr. orkaði tvímælis. Þá tók ég fram, að ákvæði greinarinnar væru ekki eins skýr, einföld og aðgengileg og æskilegt væri um málskotsheimild í lögum. Taldi ég rétt að ákvæðið yrði endurskoðað og vakti af þessum sökum athygli Alþingis og félagsmálaráðuneytisins á málinu.
   Félagsmálaráðuneytið gerði mér grein fyrir því, að skipuð hefði verið nefnd til að endurskoða lög um vernd barna og ungmenna. Hefði nefndinni sérstaklega verið falið að huga að endurskoðun á reglum um kæruheimildir á umræddu sviði.
   Í bréfi félagsmálaráðuneytisins til mín, dags. 27. apríl 1998, kemur m.a. fram, að framangreind nefnd hafi skilað tillögum sínum í formi frumvarps 26. maí 1997. Að fenginni umsögn barnaverndarstofu um frumvarpsdrögin, sem og því að ný lögræðislög hafi tekið gildi, hafi ráðuneytið talið þörf á frekari endurskoðun laga um vernd barna og ungmenna. Hafi ráðherra með bréfi, dags. 16. desember 1997, skipað nefnd til að endurskoða lögin í heild sinni. Væri gert ráð fyrir því að nefndin þyrfti a.m.k. eitt til tvö ár til að vinna verk sitt.

34. Ársskýrsla 1995, bls. 260, mál nr. 1169/1994.
         Almannafriður á helgidögum þjóðkirkjunnar. Skemmtanaleyfi.
   A hf. kvartaði yfir því, að sýslumaðurinn á Akureyri hefði synjað félaginu um að hafa veitingahúsið X opið eftir miðnætti aðfaranótt laugardagsins 2. apríl 1994, að liðnum föstudeginum langa, og frá kl. 00:05 aðfaranótt annars í hvítasunnu. Í málinu kom fram, að þær reglur, sem fylgt var um opnunartíma veitingastaða að því er snerti áfengisveitingar og skemmtanahald um stórhátíðar, voru ekki samræmdar í löggæsluumdæmum landsins. Það voru tilmæli mín til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það hygði að samræmi í stjórnsýslu á þessu sviði og tæki jafnframt til athugunar, hvort ástæða væri til breytinga á lögum nr. 45/1926. Ég vakti athygli á því, að úrbætur í þessum efnum væru ekki aðeins nauðsynlegar til að tryggja festu í stjórnsýslu og vandaða stjórnsýsluhætti, heldur einnig stöðu þeirra fyrirtækja, sem málið snerti, í samkeppni á markaði, sbr. samkeppnislög nr. 8/1993 og þá löggjafarstefnu, sem þar kæmi fram.
   Þá taldi ég ástæðu til að árétta þá niðurstöðu í máli nr. 436/1991, sbr. ársskýrslu 1992, bls. 111, að ákvæði laga um skemmtanaleyfi, sem reglugerð nr. 587/1987, um löggæslu á skemmtunum og slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, væri byggð á, væru mjög ófullkomin og að mörg ákvæði reglugerðarinnar væri eðlilegra að hafa í lögum.
   Sett hafa verið lög nr. 32/1997, um helgidagafrið. Þar er m.a. að finna tæmandi talningu þeirra daga, sem teljast helgidagar, auk þess sem skýrari reglur eru settar um það, hvaða starfsemi sé óheimil á helgidögum.

35. Ársskýrsla 1995, bls. 313, mál nr. 1097/1994.
         Starfsumsóknir þeirra, sem óska nafnleyndar.
   Ég vakti athygli Alþingis og forsætisráðherra á því, að brýnt væri að Alþingi tæki með lögum af skarið um, hvort veita bæri almenningi upplýsingar um þá, sem sækja um opinber störf. Ég tók hins vegar ekki afstöðu til þess, hvernig rétt væri að skipa þessum málum í lögum. Með vísan til 1. og 2. tölul. 2. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, var athygli forsætisráðherra einnig vakin á því, að brýnt væri, á meðan Alþingi hefði ekki tekið afstöðu til þessa, að tekin yrði ákvörðun í Stjórnarráði Íslands um, hvort umsækjendur um opinberar stöður gætu óskað nafnleyndar og gætt þess síðan að framkvæmd mála yrði samræmd.
   Hinn 18. janúar 1996 barst mér bréf frá forsætisráðherra, þar sem fram kom, að stjórnarráðinu hefðu verið settar reglur um aðgang almennings að upplýsingum um umsækjendur um opinberar stöður.
   Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er kveðið svo á, að skylt sé að veita almenningi aðgang að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda, þegar umsóknarfrestur er liðinn, komi fram ósk um það.
   Í 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er kveðið svo á, að almenningur eigi ekki rétt til aðgangs að gögnum um umsóknir um störf hjá ríki eða sveitarfélögum svo og öðrum gögnum, sem þær varða. Þó sé skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda, þegar umsóknarfrestur er liðinn.

36. Ársskýrsla 1995, bls. 360, mál nr. 1084/1994.
         Lögræðislög. Skipan lögráðamanna.
   Í tilefni af erindi A tók ég til athugunar, að eigin frumkvæði, skipun lögráðamanna lögræðissviptra manna samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 68/1984. A hafði verið sviptur sjálfræði með dómi í október 1993, en lögráðamaður var ekki skipaður fyrr en í maí 1994, eftir að eftirgrennslan mín hófst. Óskaði ég eftir upplýsingum frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti um, hvort fylgst væri með skipun lögráðamanna af hálfu ráðuneytisins. Í svari ráðuneytisins kom fram, að svo hefði ekki verið, en að ráðuneytið hefði ákveðið að fylgjast framvegis með skipun lögráðamanna. Í tilviki A virtist sem úrskurður um sjálfræðissviptingu hefði ekki borist sýslumanni á þeim stað, þar sem A átti lögheimili. Í kjölfar þessa sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið öllum héraðsdómstólum bréf með tilmælum um, að endurrit úrskurða yrði sent sýslumanni í ábyrgðarpósti eða með öðrum jafn tryggum hætti, sem og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þá fór ráðuneytið þess á leit við alla sýslumenn, að þeir tilkynntu ráðuneytinu bréflega um allar skipanir lögráðamanna. Ég taldi að aðgerðir þær, sem ráðuneytið greip til, hefðu verið fullnægjandi til að tryggja eðlilega framkvæmd laganna. Hins vegar benti ég á, að mikilvægt væri, að lög, sem kveða á um íhlutun í persónuréttindi manna, mæli með skýrum hætti fyrir um framkvæmd laganna, og taldi, að taka ætti í lög skýrari ákvæði um skrá um lögræðissvipta menn og tilkynningar um lögræðissviptingar. Mæltist ég til þess, að þessi atriði yrðu tekin til athugunar við samningu frumvarps til nýrra lögræðislaga, og var álitið af þessu tilefni sent Alþingi til athugunar.
   Ákvæði um birtingu lögræðissviptingarúrskurða og skrá yfir lögræðissvipta menn eru nú í 14. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

37. Ársskýrsla 1995, bls. 364, mál nr. 928/1993.
         Nauðungarvistun á sjúkrahúsi.
   Í áliti mínu rakti ég ákvæði lögræðislaga um ákvarðanir dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um nauðungarvistun. Fram kom, að tilkynna skyldi þeim, sem beiðni bar fram, ákvörðunina og jafnframt yfirlækni á hlutaðeigandi stofnun, ef beiðnin væri samþykkt. Í lögræðislögum voru hins vegar ekki ákvæði um tilkynningu til yfirlæknis um að krafa hefði verið gerð fyrir dómi um sjálfræðissviptingu manns, sem vistaður hefði verið á sjúkrahúsi. Það upplýstist, að ekki væri föst framkvæmd á því, að læknum væri tilkynnt um beiðni um sjálfræðissviptingu sjúklings, sem vistaður væri á sjúkrahúsi. Ég taldi, að sú framkvæmd væri á engan hátt fullnægjandi eða í samræmi við réttaröryggi sjúklinga, að það hvíldi á aðstandendum að tilkynna yfirlæknum sjúkrahúss, að krafa hefði verið gerð fyrir dómi um sjálfræðissviptingu. Taldi ég tryggara að setja það skilyrði fyrir áframhaldandi vistun sjúklinga, að yfirlækni hefði borist staðfesting frá héraðsdómi á því, að slík krafa hefði verið gerð. Beindi ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það athugaði, hvort ekki væri ástæða til að mæla fyrir um þetta atriði í lögræðislögum. Þá beindi ég þeim tilmælum til ráðuneytisins, að það fylgdi eftir þeim ráðstöfunum, sem það hafði þegar gert, til að tryggja að mál þessi væru í löglegu horfi, og að það tæki við undirbúning nýrra lögræðislaga tillit til þeirra sjónarmiða, sem rakin voru í álitinu.
   Í III. kafla nýrra lögræðislaga nr. 71/1997 eru nú ákvæði um nauðungarvistun. Er þar meðal annars mælt fyrir um tilkynningar til yfirlæknis á hlutaðeigandi sjúkrahúsi um það, ef beiðni um nauðungarvistun hefur verið samþykkt.

38. Ársskýrsla 1995, bls. 394, mál nr. 1063/1994.
         Gjaldtaka samkvæmt lögum nr. 57/1988, um framhaldsskóla.
   Það var niðurstaða mín, að gjöld, sem innheimt voru af nemendum Fjölbrautaskólans við Ármúla árið 1993, hefðu verið þjónustugjöld, sem heimilt hefði verið að leggja á nemendur samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla. Tók ég fram, að við innheimtu þjónustugjalda væri brýnt að tilgreina þjónustugjöld með sama nafni og í lagaheimild, sem þau ættu stoð í, og að æskilegt væri, að lagaheimildar þjónustugjalda væri getið á kvittunum eða gíróseðlum, þannig að gjaldendur gætu sjálfir kannað lagagrundvöll gjaldanna. Ég taldi ekki tilefni til að endurskoða útreikning á fjárhæð innritunargjaldanna, en beindi þeim tilmælum til menntamálaráðuneytisins, að haft yrði eftirlit með ákvörðun á fjárhæð þessara gjalda, sem gætu verið mismunandi eftir skólum. Að lokum benti ég á, að ákvæði 3. mgr. 8. gr. framhaldsskólalaga fæli í sér undantekningu frá þeirri lögfestu meginreglu, að kennsla væri veitt ókeypis í öllum opinberum skólum. Taldi ég að tilefni væri til að endurskoða þetta ákvæði og að þá mætti tilgreina skýrar, til hvaða þarfa innheimta mætti gjöld, eða að öðrum kosti ákveða fjárhæð gjaldanna beinlínis í lögum. Af síðastgreindu tilefni var álitið sent Alþingi.
   Með 7. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, hafa verið sett ný ákvæði um þjónustugjöld, sem heimilt er að innheimta af framhaldsskólanemum.

39. Óbirt álit, dags. 15. maí 1996, mál nr. 1392/1995.
         Framlög til jarðabóta.
   Í máli, er varðaði greiðslur ríkisframlaga til jarðabóta samkvæmt jarðræktarlögum nr. 56/1987, vakti skipaður umboðsmaður Alþingis athygli Alþingis og landbúnaðarráðherra á því, að skýrar reglur skorti um það, hvernig ráðstafa skyldi því fé, sem veitt væri til jarðræktarframlaga á fjárlögum, þegar fjárveitingin hrykki ekki að öllu leyti til.
   Með bréfi, dags. 20. maí 1998, tilkynnti landbúnaðarráðuneytið mér, að nefnd hefði verið skipuð til þess að endurskoða jarðræktar- og búfjárræktarlög í heild sinni. Endurskoðuðum ákvæðum laganna hefði verið skipað í einn lagabálk, sem lagður hefði verið fyrir yfirstandandi Alþingi og væri nú í meðförum þingsins. Frumvarp þetta varð að búnaðarlögum nr. 70/1998.

40. Ársskýrsla 1996, bls. 468, mál nr. 1265/1994.
         Réttur til að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla.
   Ég taldi, að regla 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 97/1995, gæti falið í sér sjálfstæðan rétt til þess að fá máli um frelsissviptingu skotið til dómstóla, þrátt fyrir að ekki væri kveðið á um slíkan rétt í sérlögum, svo sem lögræðislögum. Ég taldi þó eðlilegt að skýr ákvæði um þetta efni yrðu sett í lögræðislög, og mælt fyrir um það, að sá, sem sviptur væri frelsi samkvæmt 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga, ætti rétt á að bera lögmæti þeirrar ákvörðunar undir dómstóla, auk þess sem kveðið væri á um skjóta meðferð slíkra mála fyrir dómi.
   Í 30. og 31. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 eru nú ákvæði um rétt sjálfráða manns til að bera ákvörðun um nauðungarvistun og þvingaða meðferð á sjúkrahúsi undir dómstóla, svo og ákvæði um málsmeðferð fyrir dómi.

41. Ársskýrsla 1996, bls. 474, mál nr. 1249/1994.
         Umsýslugjald.
   Í frumkvæðismáli varðandi innheimtu umsýslugjalds samkvæmt reglugerð nr. 484/1994, um lögboðna brunatryggingu húseigna, komst ég meðal annars að þeirri niðurstöðu, að eftir setningu 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem breytti 77. gr. stjórnarskrárinnar, væri óheimilt að framselja stjórnvöldum ákvörðun um það, hvort umsýslugjald yrði innheimt. Vakti ég athygli Alþingis og viðskiptaráðherra á því, að nauðsynlegt væri að koma töku umsýslugjalds á vandaðri lagagrundvöll.
   Með lögum nr. 131/1996, um breyting á lögum nr. 48/1994, um brunatryggingar, var bætt inn í lögin beinu ákvæði um álagningu umsýslugjalds, ákvörðun fjárhæðar þess og innheimtu.

42. Ársskýrsla 1996, bls. 601, mál nr. 1132/1994.
         Valdmörk á milli tollgæslustjóra og ríkistollstjóra.
   Ég taldi, að í tollalögum nr. 55/1987 væri ekki með skýrum hætti tekið af skarið um stöðu tollgæslustjóra gagnvart ríkistollstjóra. Taldi ég því nauðsynlegt, að ákvæði tollalaga yrðu tekin til endurskoðunar, og vakti af því tilefni athygli Alþingis og fjármálaráðherra á málinu.
   Með lögum nr. 69/1996, um breyting á tollalögum, var embætti tollgæslustjóra lagt niður, ásamt því að ýmsar aðrar breytingar voru gerðar á stjórn tollgæslumála.

43. Ársskýrsla 1996, bls. 617, mál nr. 1394/1995.
         Heimild til að kæra ákvarðanir bankaeftirlits Seðlabankans.
   A hf. kvartaði meðal annars undan því, að viðskiptaráðuneytið hefði vísað frá kæru félagsins vegna ákvörðunar bankaeftirlits Seðlabankans. Ég taldi, að óvissa væri um heimild til að kæra ákvarðanir bankaeftirlitsins, og vakti athygli Alþingis og viðskiptaráðherra á nauðsyn þess, að málskotsrétti yrði komið á tryggan lagagrundvöll.
   Sett hafa verið lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í lögunum er kveðið á um nýja stofnun, Fjármálaeftirlitið, sem ætlað er að taka við þeirri starfsemi, sem nú er í höndum bankaeftirlitsins og Vátryggingareftirlitsins. Samkvæmt 17. gr. laganna verður ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins skotið til sérstakrar kærunefndar. Úrskurðir kærunefndarinnar eru ekki kæranlegir til viðskiptaráðherra. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

44. Óbirt álit, dags. 13. febrúar 1998, mál nr. 1820/1996.
         Hæfi stjórnarmanna í verkefnisstjórn vistfræðirannsókna sjávar samkvæmt lögum um Lýðveldissjóð.
   Í tilefni af kvörtun yfir úthlutun úr Lýðveldissjóði komst ég m.a. að þeirri niðurstöðu, að ekki væri ljóst, hvort það hefði verið ætlan löggjafans við setningu laga nr. 125/1994, um Lýðveldissjóð, að víkja frá hæfisreglum stjórnsýslulaga. Af því tilefni taldi ég rétt að vekja athygli Alþingis á málinu.
   Samkvæmt 1. gr. laga nr. 125/1994 nær starfstími Lýðveldissjóðs aðeins fram til ársloka 1999, og mun mestum hluta ráðstöfunarfjár sjóðsins nú þegar hafa verið ráðstafað.

45. Óbirt álit, dags. 13. apríl 1998, mál nr. 1815/1996.
         Ákvæði almannatryggingalaga um réttindi til elli- og örorkulífeyris.
   Í máli, er varðaði skerðingu tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar, taldi ég, að réttindi þau til elli- og örorkulífeyris, sem fjallað er um í II. kafla laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og reglugerð nr. 485/1985, um tekjutryggingu samkvæmt lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar, teldust til réttinda, sem tryggja skyldi í lögum samkvæmt 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Taldi ég, að gildandi lagaákvæði um þetta efni væru ekki nægilega aðgengileg og skýr, meðal annars um það, hvaða takmörkunum mætti binda slík réttindi. Af því tilefni vakti ég athygli Alþingis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á málinu. Ég hafði áður gert svipaðar athugasemdir við sambærileg ákvæði í eldri lögum um almannatryggingar, lögum 67/1971 (sjá ársskýrslu 1988, bls. 33, mál nr. 26/1988).
   Með bréfi, dags. 15. október 1998, tilkynnti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mér, að undirbúnar hefðu verið breytingar á lögum um almannatryggingar, auk nýrrar reglugerðar um tekjutryggingu, til þess að mæta framangreindum athugasemdum mínum. Jafnframt væri unnið að efnislegum breytingum á reglum er varða skerðingu tekjutryggingar örorkulífeyrisþega vegna tekna maka. Ákveðið hafi verið í ráðuneytinu að frumvarp til laga um breytingar varðandi framangreint efni yrði lagt fyrir 123. löggjafarþing.

Efnisyfirlit