Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Bótaábyrgð ríkisins. Sanngirnisbætur.

(Mál nr. 12392/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu kæru hjá úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur.  

Þar sem fyrir lá að málið var í farvegi hjá nefndinni og unnið var að því taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. október 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 3. október sl. sem þér beinið að úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur og lýtur að töfum á afgreiðslu kæru yðar til nefndarinnar 7. júlí 2022.

Í upphafi skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til með­ferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna skorts á svörum og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áðurnefnda reglu, verið farin sú leið, og þá með hliðsjón af fyrirliggjandi samskiptum viðkomandi við stjórnvaldið sem á í hlut, að spyrjast fyrir um hvað líði svörum við viðkomandi erindum. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður þá athugun sinni á málinu.

Í máli yðar liggja fyrir samskipti sem farið hafa á milli lögmanns yðar og formanns úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur. Af þeim samskiptum verður ráðið að úrskurðarnefndin hefur nú síðast 5. október sl. óskað eftir tímaskýrslu lögmanns, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 47/2010, um sanngirnisbætur. Með tölvubréfi 8. september sl. upplýsti formaður nefndarinnar jafnframt lögmann yðar um að nefndin hyggðist funda þann sama daga og að „úrskurða mætti vænta fljótlega“. Þar sem fyrir liggur að mál yðar er í farvegi hjá úrskurðarnefndinni og hún hefur nýlega óskað eftir gögnum frá lögmanni yðar sem henni eru nauðsynleg til þess að kveða upp úrskurð í málinu, og fylgdu ekki kæru yðar til nefndarinnar, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu.

Með hliðsjón af framangreindu læt ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég bendi yður hins vegar á, verði frekari tafir á afgreiðslu málsins, að þér getið leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.