Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Almannatryggingar. Endurhæfingarlífeyrir.

(Mál nr. 12362/2023)

Kvartað var yfir töfum á málsmeðferð hjá Tryggingastofnun vegna umsókna um bætur úr almannatryggingakerfinu vegna veikinda.  

Þar sem fyrir lá að málið var til meðferðar hjá Tryggingastofnun og áframhald þess háð því að viðkomandi afhenti tiltekin gögn taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. október 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 8. september sl. en af henni varð ráðið að hún beindist að töfum á málsmeðferð vegna umsókna yðar um bætur úr almannatryggingakerfinu vegna veikinda yðar.

Í tilefni af kvörtuninni var Tryggingastofnun ritað bréf 14. september sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort stofnunin hefði til meðferðar mál yðar og, ef svo væri, hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra.

Svar Tryggingastofnunar barst 29. september sl. en þar kemur fram að þér hafið sótt um bæði endurhæfingar- og örorkulífeyri hjá stofnuninni. Í bréfinu kemur einnig fram að þér hafið hlotið endurhæfingarlífeyri í 13 mánuði en umsóknum yðar um örorkulífeyri hafi öllum verið synjað. Að endingu er því lýst í bréfinu að til meðferðar hjá stofnuninni sé umsókn yðar um endurhæfingarlífeyri frá 9. ágúst sl. Í tilefni af þeirri umsókn hafi yður verið ritað bréf 23. sama mánaðar þar sem þér voruð beðnir um að afhenda stofnuninni formlega endurhæfingaráætlun, sem væri enda skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, en sú áætlun hafi ekki borist.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi þess að mál yðar er til meðferðar hjá Tryggingastofnun og áframhald þess er samkvæmt ofangreindu bréfi háð því að þér afhendið tilgreind gögn tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.