Heilbrigðismál. Bólusetningar. Börn. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 12398/2023)

Kvartað var yfir mismunun vegna aldurs hvað snerti gjaldfrjálsar bólusetningar í grunnskóla gegn HPV-sýkingum fyrir börn í 7. bekk og yngri. Drengur í 8. bekk nyti ekki sömu gjaldfrjálsu bólusetningar og þau sem yngri eru.  

Þar sem athugasemdirnar höfðu ekki verið bornar undir heilbrigðisráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. október sl. er lýtur að lögmæti gjaldfrjálsra bólusetninga í grunnskóla gegn HPV sýkingum fyrir börn í sjöunda bekk og yngri. Kemur fram í kvörtun yðar að þér teljið þar vera um mismunun vegna aldurs að ræða, en sonur yðar er í áttunda bekk og fær því ekki að njóta sömu gjaldfrjálsu bólusetningar gegn HPV veirunni og þau sem yngri eru.

Samkvæmt kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum beinduð þér erindi vegna þessa til embættis landlæknis með tölvubréfi 5. október sl. Í svari yfirlæknis á sóttvarnasviði sama dag var yður tjáð að ef þér vilduð leggja inn formlega kvörtun til landlæknisembættisins vegna framkvæmdar bólusetninganna yrði óskað eftir að erindið yrði lagt í þann farveg. Í tölvubréfi yfirlæknisins 6. október sl. til yðar kom þó jafnframt fram að yður væri þarft að beina erindi yðar til heilbrigðisráðuneytisins, þar sem ákvörðun um fjármögnun kæmi þaðan. Tilefni þeirra svara var tölvubréf frá yður sama dag þar sem þér sögðust „[vera] til í að þetta færi í formlega skoðun í gegnum [embætti landlæknis]“. Af kvörtuninni verður ekki ráðið að þér hafið átt í frekari samskiptum við yfirlækninn eða embætti landlæknis að öðru leyti en í samtali starfsmann umboðsmanns við yður 11. október sl. kom fram að kvörtunin lyti einkum að fyrirkomulagi bólusetninganna fremur en viðbrögðum embættisins við erindi yðar.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, skal starfrækja embætti landlæknis undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Þá segir í 1. mgr. 4. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, að embætti landlæknis beri ábyrgð á framkvæmd sóttvarna undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að við embætti landlæknis skuli starfa sóttvarnalæknir sem ber ábyrgð á sóttvörnum. Þá kemur fram í 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. sóttvarnalaga að verksvið sóttvarnalæknis sé aðallega m.a. að skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um land allt. Á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hefur heilbrigðisráðherra eftirlit með embætti landlæknis, þ.m.t. rækslu embættisins á hlutverki þess samkvæmt sóttvarnalögum.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um mál og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið ekki borið athugasemdir yðar undir heilbrigðisráðuneytið, og brestur því lagaskilyrði fyrir því að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í ljósi framangreinds tel ég rétt að þér freistið þess að bera athugasemdir yðar undir heilbrigðisráðuneytið áður en þér leitið til umboðsmanns Alþingis. Ég tek fram að ef þér farið þá leið að leita til heilbrigðisráðuneytisins en teljið yður, eða son yðar, enn rangsleitni beittan að fenginni afstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Ég vek jafnframt athygli yðar á því að samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 221/2001, um bólusetningar á Íslandi, með síðari breytingum, skal börnum með lögheimili hér á landi boðin bólusetning þeim að kostnaðarlausu m.a. gegn HPV sýkingum, sbr. 11. töluliður greinarinnar. Reglugerðin er sett með stoð í sóttvarnalögum og lýtur því jafnframt yfirstjórn og eftirliti heilbrigðisráðherra. Liggi fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi á grundvelli umræddrar reglugerðar, sem þér teljið fela í sér rangsleitni í garð yðar eða sonar yðar, getið þér jafnframt lagt fram kvörtun þar að lútandi, að því gefnu að fullnægt sé skilyrðum 6. gr. laga nr. 85/1997, þ.m.t. ákvæði fyrrgreindri 3. mgr. lagagreinarinnar um nýtingu kæruleiða í stjórnsýslunni.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.